Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 21:51:25 (5208)

1996-04-23 21:51:25# 120. lþ. 125.2 fundur 262#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[21:51]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nú þrátt fyrir allt, þrátt fyrir hinn jákvæða tón hæstv. utanrrh. í Evrópumálunum, þar sem kveður við annan tón en hjá samstarfsflokknum og hæstv. forsrh., að fara þess á leit að hann kynni sér hver er stefna stjórnmálaflokka í þessu máli. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra hafi ekki vitað að Alþfl. hefur aldrei haft þá stefnu að það eigi að fleygja inn undirbúningslaust óundirbúinni tillögu án þess að íslensk stjórnvöld hafi undirbúið sína heimavinnu og gert sér grein fyrir samningsmarkmiðum sínum og látið rannsaka málið í þaula. Hverjum eiginlega dytti slíkt í hug? Engum. Og það er ljóst að megingagnrýni mín á hæstv. ráðherra og ríkisstjórn er auðvitað að þeir hafa ekki notað tímann frá því t.d. að undirbúningskannanir voru settar af stað á vegum háskólans með því að virkja stjórnkerfið til þess að vinna þessa vinnu. Og þegar hv. þm. koma og spyrja: Hvaða áhrif mun þetta eða hitt hafa á okkur, t.d. myntsamruninn? Þá standa íslensk stjórnvöld eins og þvara í potti því þau hafa ekki unnið heimavinnuna. Þetta er bara eitt dæmi af legíó. Hvaða land í heimi er það þar sem ekki er verið að vinna undirbúningsvinnu af löndum utan Evrópusambandsins í tengslum við ríkjaráðstefnuna? Við erum sér á parti, öðruvísi en fólk er flest vegna þess að þessi vinna fer ekki fram.

Því miður er ekki tími til þess að ræða í andsvari við hæstv. ráðherra um hafréttarmálin frekar, en það er hægt að draga þá ályktun af þeim stuttu orðaskiptum sem hér hafa átt sér stað að það er orðið brýnt, herra forseti, að efna til ítarlegrar, efnislegrar umræðu um það mál og eftir því mun verða gengið.