Fullgilding samnings gegn pyndingum

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:47:57 (5222)

1996-04-23 22:47:57# 120. lþ. 125.5 fundur 475. mál: #A fullgilding samnings gegn pyndingum# þál. 10/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:47]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju með að þessi samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, ómannúðlegri á það víst að vera, skuli vera kominn til fullgildingar Ég held að það sé tímabært og mjög jákvætt að svo verði gert.

Ég vildi hins vegar að gefnu tilefni spyrja hæstv. utanrrh. hvort svo sé um hnúta búið að íslensk stjórnvöld hafi undirbúið sig á þann hátt að þau geti staðið undir þeim skyldum sem samningurinn gerir ráð fyrir. Þá er ég fyrst og fremst ekki að vísa til efnislegra atriða um pyndingar. Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni sýnist mér að ekki þurfi að gera breytingar á íslenskum lögum. Þau eru sem betur fer þannig úr garði gerð að það þarf ekki miklar efnislegar breytingar. En það sem ég er fyrst og fremst að vísa til eru ákvæði 19. gr. um það að aðildarríki hafi ákveðnar skyldur sem felast m.a. í því að skila skýrslum til nefndar sem starfar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég spyr um þetta vegna þess að þess eru því miður dæmi úr framkvæmd hér á landi að skýrsluskil vegna alþjóðasamninga hafi farið nánast í skömm. Ég nefni dæmi sem var til umræðu fyrr í vetur inni á þinginu og varðaði samning um afnám allrar mismununar gegn konum. Þar flæktist skýrslan sem var byrjað að vinna í félmrn. og fór síðan yfir í utanrrn., týndist í einhverri skúffu þar sem er þjóðinni ekki til sóma. Ef ég man rétt var svipað ástand lengi vel um samninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Það var lengi sem skýrsluskil drógust þar von úr viti.

Ég vildi einungis vekja athygli á þessu vegna þess að eins mikilvægt og það er að við tökum þátt í alþjóðlegu starfi og skrifum undir alþjóðlega samninga af þessu tagi, ekki síst um þjóðþrifamál sem þessi samningur felur í sér, er jafnmikilvægt að það sé tryggt að við gerum okkur grein fyrir því og tryggjum það á allan hátt að við getum staðið undir þeim skuldbindingum sem í honum felast.