Samningur um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum

Þriðjudaginn 23. apríl 1996, kl. 22:56:53 (5225)

1996-04-23 22:56:53# 120. lþ. 125.7 fundur 492. mál: #A samningur um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum# frv. 74/1996, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[22:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er leitað heimilda fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum milli aðildarríkja Evrópuráðsins og aðildarlanda Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar (OECD) sem gerður var í Strassborg 25. jan. 1988. Frv. gerir ráð fyrir því að samningnum verði veitt lagagildi hér á landi þegar hann hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Tilgangur samningsins er að auka alþjóðlegt samstarf á sviði skattamála, að bæta skattheimtu og jafnframt að bæta réttaröryggi skattgreiðenda. Samningnum er ætlað að vera tæki sem beita má gegn skattsvikum þar sem aðilum samningsins er gert kleift að miðla upplýsingum sín á milli um beina og óbeina skattheimtu og um leið að veita gagnkvæma aðstoð til tryggingar við innheimtu skattkrafna.

Ég tel að hér sé um mjög mikilvægan samning að ræða, sérstaklega að því er varðar skatteftirlit og baráttuna gegn skattsvikum sem er nauðsynlegt í vaxandi alþjóðlegu samstarfi og alþjóðlegum fjármálaheimi.

Samningnum er ætlað að koma til viðbótar öðrum alþjóðasamningum um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum. Hann er svipaður samningi milli Norðurlandanna frá 7. des. 1989 um aðstoð í skattamálum sem staðfestur var af Íslands hálfu samkvæmt heimild í lögum nr. 46/1990.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði frv. vísað til hv. utanrmn.