1996-04-24 01:00:22# 120. lþ. 125.13 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[25:00]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Við getum haldið áfram að tala um þessi mál lengi nætur, í andsvari eða á öðrum forsendum. Það er ekki nýtt mál að ég sé andvígur því að taka upp samtímagreiðslur aftur. Hvort ég beygi Framsfl. í því máli eða ekki ætla ég ekkert að fullyrða um. Ég er að lýsa minni skoðun á þessu efni og það á ekki að koma neinum á óvart að ég hafi þessa skoðun. Ég hafði hana á síðasta kjörtímabili og hef hana enn og tel að það fyrirkomulag sem var á sjóðnum undir forustu hv. þm. hafi gengið af honum dauðum næstum því. Ef við hefðum ekki tekið á málunum á síðasta kjörtímabili, þá væri þessi sjóður ekki lengur starfandi. Það er alveg ljóst og við þurfum að ræða það og ég er reiðubúinn að ræða það við hv. þm.

Það er rétt sem ég sagði að hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir lýsti því hvergi yfir í sinni ræðu að það væri henni sérstakt ánægjuefni. En ég túlka það svo að þegar þingmaður segist fagna fram komnu frv. og telur það mjög jákvætt, þá felist í því ánægjuyfirlýsing og megi túlka þannig af mér að það hafi verið henni sérstakt ánægjuefni að frv. kom fram.