Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 13:45:40 (5345)

1996-04-30 13:45:40# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[13:45]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fá einkamál hafa vakið jafnmikla samúð hjá íslensku þjóðinni og barátta Sophiu Hansen. Hún hefur notið stuðnings í mínum flokki og Jón Baldvin Hannibalsson hefur sem utanrrh. leitað leiða til að liðsinna henni bæði með beinum samskiptum við tyrknesk stjórnvöld og með því að greiða fyrir málum Sophiu. Aðstoðarmaður hans fór tvisvar til Tyrklands gagngert til að leita lausna í málinu. Hann náði að ræða við sex ráðherra sem beint eða óbeint tengdust málinu, lagði fram greinargerð og óskaði eftir að allt væri gert sem stjórnvöld hefðu tök á. Í síðara skiptið náði hann viðtali við þrjá ráðherra og ræddi við dómara í undirrétti og við embættismenn. Hann naut stuðnings ræðismanns okkar og var alltaf vel tekið. En það var stöðugt áréttað að lítið væri hægt að aðhafast þegar mál væri komið fyrir dómstólana.

Sömu viðbrögð fékk félmrh. og Jón Baldvin utanrrh. sjálfur sem tók þessi mál í tvígang upp á fundum með utanríkisráðherra Tyrklands. Þessar aðgerðir hafa aldrei farið hátt og ég nefni það hér til að benda á og draga það fram hve takmarkaðir möguleikar þeirra eru sem í krafti stöðu sinnar vilja hjálpa. Hins vegar féllust bæði félagsmálaráðherra og fjölskylduráðherra Tyrklands á að gera það sem þeir gætu til að Sophia Hansen fengi að hitta börnin sín og dómsmálaráðherra landsins kvaðst beita sér fyrir að málið yrði tekið með sem minnstri töf og við sjáum hvað það hefur þýtt. Það varð engin niðurstaða af þessum tilraunum nema hvað hægt var að leiðbeina Sophiu með hvernig best væri að haga sér gagnvart tyrkneska réttarkerfinu. En fyrir okkur sem erum áhorfendur að því sem er að gerast er helst að sjá að dómari geri allt sem hann getur til að tefja málið í trausti þess að stúlkurnar vaxi frá móður sinni og inn í tyrkneska framtíð.

Ég lít svo á að það hafi verið mjög sterkt að Margrét Frímannsdóttir og Geir H. Haarde beittu sér í málinu nýverið því að það hlýtur að skila sér á einhvern hátt hverju sinni sem siðferðislegur stuðningur fæst við málið í Tyrklandi. Ég fagna því sérstaklega sem utanrrh. hefur lýst yfir að stjórnvöld leiti nýrra leiða til að beita sér í þessu erfiða máli og að fulltrúi ríkisstjórnar muni fara til Tyrklands og leita stuðnings við málið og beita sér í máli Sophiu Hansen.