Forræðismál Sophiu Hansen

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:02:54 (5352)

1996-04-30 14:02:54# 120. lþ. 128.91 fundur 276#B forræðismál Sophiu Hansen# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil einungis þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að málið hafi verið vel ígrundað og farið nákvæmlega í gegnum það á undanförnum mánuðum og reynt að hafa samráð við þá aðila sem hér eiga hlut að máli. Ég lít svo á að það sé mikill stuðningur fyrir því á Alþingi að farið sé í málið með þessum hætti og síðan tekin ákvörðun um frekari skref eftir að við höfum metið stöðuna.

Það er bæði rétt og sjálfsagt að fara nánar yfir þetta mál með utanrmn. Þetta mál er þess eðlis að það er mjög viðkvæmt og ekki til þess fallið að ræða öll atriði þess í þessum sal en að sjálfsögðu er rétt að fara yfir það í þeirri nefnd sem hér hefur verið nefnd eða þá allshn. þingsins og utanrrn. fyrir sitt leyti mun að sjálfsögðu vera tilbúið til að leggja öll gögn málsins þar á borðið og greina frá stöðu þess. En að sjálfsögðu er sá aðili sem rekið hefur málið fyrir hönd Sophiu Hansen í Tyrklandi, ágætur lögfræðingur, best kunnugur því á allan hátt. Ég tel að það hafi verið mikil gæfa að fá þennan mann til að reka málið. Okkur sýnst að hann hafi gert það mjög vel og þess vegna sé mikil ástæða til að taka mark á hans orðum og ráðleggingum í þessu máli.