Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:13:48 (5356)

1996-04-30 14:13:48# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:13]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að undanfarnar vikur hafa geisað miklar umræður um þau frumvörp sem nú eru til meðferðar á hinu háa Alþingi og snerta vinnumarkaðinn. Rétt áðan urðu þau tíðindi að meiri hlutinn í efh.- og viðskn. ákvað að afgreiða frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna út úr nefndinni þrátt fyrir mótmæli gervallrar hreyfingar launafólks og þrátt fyrir það að í frv. er að finna mörg atriði sem hefði þurft að kanna betur að mínum dómi. Með þessu er verið að efna til ófriðar á vinnumarkaðnum. Þetta getur ekki þýtt annað og það eru afar sérkennileg vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar að senda þetta skeyti til hreyfinga launafólks daginn fyrir 1. maí.

Það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af málinu því að samskipti ríkisins og starfsmanna þess hafa verið í allt of slæmum farvegi undanfarin ár og má m.a. sjá það af ótal hörðum verkföllum sem hér hafa átt sér stað. Þegar þetta bætist við er alveg ljóst að þau samskipti og sá vinnuandi, sem ríkir hjá opinberum starfsmönnum og hjá stofnunum ríkisins, á eftir að versna. Þetta mun hafa víðtæk áhrif og ég harma mjög að meiri hlutinn í efh.- og viðskn. og þar með talið ríkisstjórnin skuli leyfa sér að ganga fram með þessum hætti í stað þess að fara samningaleiðina eins og menn hafa þó reynt að gera á undanförnum áratugum þegar um hefur verið að ræða réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Ýmislegt sem er að finna í núgildandi lögum var samið um á sínum tíma. En nú er verið að svipta fólk réttindum, það er verið að ryðja brautina fyrir frekari einkavæðingu því að það er einn megintilgangur þessara breytinga sem verið er að gera og hér eru alvarleg tíðindi á ferð. Hér er verið að skapa óróa og lýsa yfir styrjöld.