Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:21:15 (5359)

1996-04-30 14:21:15# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:21]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hvar eru þessir tíu sem hafa kaup fyrir að sitja í þessum stólum? Hvaða virðingu sýna þeir Alþingi Íslendinga? Hvaða virðingu sýna þeir því máli sem hér er verið að ræða í umræðum um störf þingsins? Finnst þeim kannski nóg að framkvæmdastjóri Verslunarráðsins tali fyrir þá? Finnst þeim kannski nóg að hann sendi skilaboð ríkisstjórnarinnar til þjóðarinnar, framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, sem fer þangað á eftir að skrifa undir bréf fyrir hönd þeirra sem hann vinnur hjá?

Valið á deginum í dag eitt út af fyrir sig er ögrun, sýnir fyrirlitningu í garð stjórnarandstöðunnar í þessari stofnun, í garð verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og í garð allra þeirra Íslendinga þúsunda saman sem munu flykkjast út á göturnar 1. maí til að mótmæla þessum vinnubrögðum. Sem betur fer liggja störf Alþingis við Austurvöll niðri á morgun. Þá mun hins vegar alþingi götunnar koma saman og vonandi munu skilaboð þess ná í gegnum þykkar leðurhlustir umboðsmanna fjármagnsins sem hér virðast ráða öllu í þessari stofnun og senda núna framkvæmdastjóra Verslunarráðsins til að tala fyrir sig þegar ráðherrarnir flýja úr salnum. Ég segi, hæstv. forseti, þessi vinnubrögð eru gersamlega ólíðandi og ég vil fyrir hönd þingflokks Alþb. og óháðra fara þess á leit að á fimmtudaginn verði gefinn sérstakur tími frá þingstörfum til þess að þingflokkur okkar og væntanlega aðrir þingflokkar líka eftir atvikum geti rætt um þessa nýju stöðu því að hún er ólíðandi með öllu.