Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:29:44 (5363)

1996-04-30 14:29:44# 120. lþ. 128.92 fundur 277#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um ríkisstarfsmenn# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:29]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst til þess að ítreka mótmæli mín við þessum vinnubrögðum og mótmæla því í öðru lagi að það hafi ekki verið efnisleg rök fyrir því að kveðja hæstv. fjmrh. til fundar við efh.- og viðskn. um þetta mál. Eða er hæstv. fjmrh. að afsala sér ábyrgð á því að fara með fjármál ríkisins og starfsmannahald? Þegar þannig liggur að viðkomandi mál er sérstaklega á verksviði og ábyrgð ráðherra og enginn getur svarað pólitískum spurningum sem að því lúta nema sá hinn sami hæstv. ráðherra þá er það hrein ósvinna þegar um stórt og viðamikið mál af þessu tagi að slíkur ráðherra skuli neita að koma fyrir nefndina.

Ég harma að ríkisstjórnin skuli hafna samkomulags- og samningaleið um leikreglur á vinnumarkaði og ég lýsi allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni á afleiðingum þess. Það er léttvægt í sjálfu sér þó að þingstörfin verði í uppnámi það sem eftir lifir þinghaldsins á vori en hitt er stóralvarlegt mál að það skuli vera efnt til ófriðar af því tagi sem nú blasir á vinnumarkaðnum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum m.a. á þann stöðugleika í efnahagsmálum sem ríkt hefur um skeið.