Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:54:59 (5370)

1996-04-30 14:54:59# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:54]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Rétt til þess að hjálpa upp á minni hv. þm. vegna þess að nú er ég sannfærð um að hann las ekki þingskjölin fyrir jólin. Þær brtt. við fjárlagafrv. sem sú sem hér stendur stóð að fyrir jólin, gengu út á það að eyða halla ríkissjóðs. Það voru ekki eyðslutillögur, hv. þm., langt í frá. Og af því að hv. þm. kemur með það að þessi 24 þús. kall muni ekki draga úr aðsókn að Háskóla Íslands, þá stangast það einfaldlega á við þær upplýsingar sem áður hafa komið fram í þessari stofnun. Það stangast á við þær þannig að það stenst ekki heldur.

Í þriðja lagi þetta með dagvistina og einstæðu móðurina. Sem betur fer hefur Alþingi ekkert með það að gera hversu há gjöld eru greidd í dagvist né heldur hitt hvernig hún er greidd niður fyrir einstæða foreldra. En ég get huggað hv. þm. með því að sveitarfélögin, langflest, mæta þörfum þegna sinna með mjög sanngjörnum hætti þannig að ég held að hann ætti ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur af því eins og stendur.