Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 15:21:05 (5372)

1996-04-30 15:21:05# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[15:21]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég byrja á að segja það að ég var farin að sakna þess að ég hélt að hv. þm. ætlaði ekkert að minnast á Framsfl. í ræðu sinni en hann hafði það af að nefna hann örstutt. Ég vil spyrja hv. þm. að þegar hann talar um kúvendingu í menntastefnu þjóðarinnar, hvort ekki sé betra að innheimta þessi gjöld löglega en gera það ólöglega eins og virðist hafa verið gert í tíð Alþfl. í ríkisstjórn Íslands. Ég segi það. Fyrst ég hef hér tækifæri ætla ég aðeins að rifja upp stefnuskrá Framsfl., það er tími til kominn.

Við framsóknarmenn höfum ekki sagt mjög stóra hluti í þessum efnum. Við segjum í kosningastefnuskrám okkar: ,,Skólagjöld í háskólum verði ekki til þess að hrekja fólk frá námi.`` Síðan segjum við í flokksþingssamþykktum sem eru svolítið eldri, frá árinu 1994, með leyfi hæstv. forseta: ,,Flokksþingið er andvígt aukinni hlutdeild nemenda í rekstrarkostnaði. Slít mun leiða til þess að háskólanám verður forréttindi hinna efnameiri.``

Er það að kúvenda af hálfu Framsfl. í þessum efnum hvort gjaldið er 22.975 eins og það var árið sem þessi samþykkt er gerð eða hvort það er 24 þús. kr.? Það er ekki kúvending. Það er má segja nokkurn veginn sama gjald. Eins og ég lét koma fram áður í þessari umræðu er mér ekki erfitt mál að greiða atkvæði með þessum 24 þús. sem kveðið er á um í frv.