Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 16:04:00 (5384)

1996-04-30 16:04:00# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:04]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég staðfesti það sem fram kom í máli hv. ræðumanns að þeir framsóknarmenn fóru mikinn á kosningafundum í Reykjavík fyrir síðustu kosningar. Það var satt að segja þannig að í öllum skólum, framhaldsskólum og háskóla og í sérskólum, vöktu þeir athygli fyrir skörulegan málflutning. Ég er alveg sannfærður um að það náði eyrum mjög margra og það er auðvitað þeim mun grátlegra að hlýða á hvernig þeir halda á þessu máli, þ.e. nemendasköttunum, sem hér er verið að leggja á.

Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs var aðallega sú, hæstv. forseti, að ég tók eftir því að hv. þm. átti sæti í menntmn. Framsfl. og það er lengra síðan ég var í Framsfl. en hún og komst þar aldrei til neinna mannvirðinga. Ég vildi spyrja hv. þm. hvort þar var mikið rætt um að leggja á skólagjöld í háskólanum, hvort það var kannski sérstaklega fjallað um það í menntmn. Framsfl. að leggja á skólagjöld í háskólum ef Framsfl. kæmist til valda og hvað sagði menntmn. Framsfl. t.d. um skólagjöld í framhaldsskólum? Voru menn þar á móti skólagjöldum eða hvernig hugðust menn taka á þessu máli í menntmn. Framsfl., ef ég má leyfa mér að fara fram á það við hv. þm. hvað var sérstaklega fjallað um í menntmn. Framsfl. á síðasta kjörtímabili sem hún nefndi sérstaklega, hv. 18. þm. Reykv. sem var í þeirri nefnd á síðasta kjörtímabili og hefur tjáð sig um það hvað þar gerðist og ætlar nú vonandi að svara spurningu minni ítarlega í þeim efnum.