Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 16:09:09 (5387)

1996-04-30 16:09:09# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:09]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið rætt nokkuð á tilfinninganótum. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur fyrirgefið o.s.frv. og ljóst má vera að mikið skarð er skilið eftir í Framsfl. við brottgöngu hennar og koma okkur þá að sjálfsögðu til hugar orð valkyrju vestan úr Dölum hér áður fyrr: ,,Þeim var ég verst er ég unni mest.`` En mér þykir hafa komið fram í umræðu og líka í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur eins og hér sé um einhverja stefnubreytingu að ræða en það hefur áður komið fram í þessari löngu umræðu að prinsippbreytingin verður á milli áranna 1991 og 1992 þegar hækkunin er um 18 þús. kr. Það er meginatriðið. Þegar einu sinni hefur verið lagður skattur á er fjandanum erfiðara að snúa til baka. Það hefur verið með ólíkindum að heyra hv. þm. Alþfl. standa í þessum virðulega ræðustól og hvítþvo sig af þessum gerningi. Þeir hafa haldið því fram fullum fetum að þeir hafi komið í veg fyrr skattlagningu og það er þetta sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er að verja. Við erum sammála því að þetta snýst um prinsipp. Prinsippmálið hefur verið brotið. Það virðast flestir hv. þingmenn vera sammála því að nemendur skuli borga en spurningin snýst um hversu mikið og fyrir hvað eiga þeir að borga. Það er grundvallaratriði í öllu þessu máli að nemendur, sem það kjósa, geti lagt stund á nám við háskóla á Íslandi. Það er meginatriðið. Þar höfum við líka jöfnunartæki sem heitir Lánasjóður ísl. námsmanna og hann á að styðja við bakið á þeim sem m.a. af efnahagslegum ástæðum geta ekki lagt stund á háskólanám. Þetta er öll stefnubreytingin, hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.