Iðnþróunarsjóður

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 16:22:43 (5396)

1996-04-30 16:22:43# 120. lþ. 128.5 fundur 487. mál: #A Iðnþróunarsjóður# (gildistími o.fl.) frv. 63/1996, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:22]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Iðnþrónarsjóð, sem er á þskj. 845. Í sem stystu máli er lagt til að gildandi ákvæði um starfsemi sjóðsins verði framlengt til ársloka 1997, en þá er þess vænst að nýtt skipulag fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna taki gildi. Vegna ákvæða í gildandi lögum um Iðnþróunarsjóð sem takmarka umsvif hans frá og með þessu vori er nauðsynlegt að framlengja starfsemi sjóðsins með lagabreytingum. Af sömu ástæðum er brýnt að frv. þetta nái fram að ganga sem fyrst þar sem sjóðurinn á nú þegar örðugt um vik að halda starfsemi sinni áfram.

Lögin um Iðnþróunarsjóð voru til umfjöllunar á hinu háa Alþingi á síðasta þingi. Ástæða þess var sú að hinn 9. mars 1995 lauk gildistíma samnings milli Norðurlandanna um stofnun og rekstur Iðnþróunarsjóðs. Með lögum nr. 20/1995 voru Iðnþróunarsjóði sett ný lög sem stofnun í eigu íslenska ríkisins. Jafnframt var mörkuð sú stefna að sjóðurinn legði í starfi sínu aukna áherslu á fjármögnun til nýsköpunar, en hann héldi sig til hlés í hefðbundinni fjárfestingarlánastarfsemi.

Stjórn Iðnþróunarsjóðs hefur gefið iðnrh. skýrslu um starfsemi sjóðsins fyrsta heila starfsár hans með nýrri skipan. Kemur þar fram að starfssvið og starfshættir sjóðsins hafa mótast af þeim sjónarmiðum sem komu fram í athugasemdum við frv. að lögum nr. 20/1995. Samkvæmt lögunum hefur sjóðurinn þriggja manna stjórn, en hún ákvað að kalla til fimm manna ráðgjafarnefnd til þess að móta hina nýju stefnu sjóðsins. Í nefndinni eru fulltrúar atvinnurekenda og launþega undir forustu starfsmanns iðnrn. Ljóst er að umfjöllun um umsóknir um áhættufjármögnun verður að vera af nokkrum öðrum toga en meðferð hefðbundinna lánsumsókna. Sjóðurinn hefur því lagt kapp á að vanda skoðun á umsóknum. Í þessu skyni var gerður samningur við Iðntæknistofnun, bæði um tæknilegt mat á umsóknum og ekki síður um að veita umsækjendum um nýsköpunarstuðning aðstoð við skilgreiningu verkefna sinna og frágang umsóknagagna.

Í samræmi við fyrrgreind lagaákvæði hefur sjóðurinn ráðstafað 238,3 millj. kr. til nýsköpunarverkefna á starfsárinu. Þar af hafa 180,7 millj. kr. verið í formi áhættulána eða ábyrgða, 25,5 millj. kr. í formi hlutafjárframlags en styrkir til almennra verkefna hafa numið alls 32,2 millj. kr. Verkefni sem studd hafa verið með þessum hætti eru í ýmsum atvinnugreinum og ekki einskorðuð við iðnað.

Sjóðurinn hefur tekið upp þá vinnureglu að meta um leið og áhættufjármögnun var samþykkt líklega áhættu vegna viðkomandi verkefna og færa samsvarandi upphæð á afskriftareikning. Alls hafa um 109 millj. kr. verið lagðar á afskriftareikning vegna fyrrgreindra verkefna. Er lagt til að þessi vinnuregla verði lögfest með ákvæði í 1. gr. þessa frv.

Auk áhættufjármögnunar hefur Iðnþróunarsjóður haldið áfram umsýslu eldri lána. Hefur það í nokkrum tilvikum kallað á lánabreytingar og í einstaka tilfellum á ný lán til aðila sem hafa verið í viðskiptum við sjóðinn, alls að upphæð 78,5 millj. kr.

Í ljósi fyrrgreindra ákvæða í gildandi lögum um Iðnþróunarsjóð svo og þeirrar tímaáætlunar sem gerð hefur verið um arftaka sjóðsins, er nauðsynlegt að framlengja starfsemi hans enn um hríð eða til ársloka 1997. Þess vegna er þetta frv. lagt fram. Með ákvæðum frv. er enn frekar hnykkt á því hlutverki sjóðsins að sinna áhættufjármögnun í þágu nýsköpunar.

Eins og þegar hefur komið fram í máli mínu er hér lögð til lögfesting á þeirri vinnureglu sjóðsins að leggja jafnóðum lánveitingar eða hlutafjárkaup á afskriftareikning í samræmi við áhættu. Er þetta m.a. gert til þess að unnt sé að skilgreina fjárheimildir sjóðsins og þær miðast við að umrædd framlög á afskriftareikningi leiði ekki til skerðingar á eigin fé sjóðsins að teknu tilliti til annarra rekstrargjalda.

Þá er í frv. tekið á vafaatriði varðandi skattlagningu sjóðsins. Meðan sjóðurinn var undir samnorrænni forsjá var skattfrelsi samnings --- og lögbundið. Í ljósi breytinga á eignarhaldi sjóðsins á síðasta ári og með vísan til þeirra forsendna samnings um sjóðinn milli Norðurlandanna að framlög Norðurlandanna og ávöxtun þeirra á gildistíma samningsins skuli ekki vera andlag skattlagningar, er eðlilegt að taka af vafa um að eigið fé sjóðsins við lok samningstímans skuli skoðast sem stofnfé íslenska ríkisins og því gert frádráttarbært við ákvörðun eignarskatts, sbr. 77. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Að lokum er eins og fyrr greinir lagt til í frv. að lögin um Iðnþróunarsjóð falli úr gildi í árslok 1997, en jafnframt að skipan sú sem frv. felur í sér varðandi afskriftir á fjárheimildir gildi frá byrjun þessa árs.

Að öðru leyti er ekki ástæða til þess að fjölyrða frekar um innihald frv. og legg ég því til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. iðnn.