Iðnþróunarsjóður

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 17:41:28 (5404)

1996-04-30 17:41:28# 120. lþ. 128.5 fundur 487. mál: #A Iðnþróunarsjóður# (gildistími o.fl.) frv. 63/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:41]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ein spurning til hæstv. ráðherra. Ég drap á sögu stálverksmiðjunnar í Hafnarfjarðarhrauni. Mig langar að nota þetta tækifæri og spyrja ráðherra beint að því hvort mál henni tengd væru á ferðinni þessa dagana, vikurnar eða mánuðina og hvort hann gæti upplýst okkur um það hvernig þau mál stæðu. Ég hafði haft af því lausafregnir að jafnvel stæðu vonir til þess að eitthvað væri að vakna til lífs í þeim efnum og er vonum seinna. Mönnum er væntanlega kunnugt um það að aðili hefur haft með höndum að tæta niður járnið og flytja það út sem hálfunnið hráefni og er það ágætis mál út af fyrir sig. Auðvitað er hið affarasæla í málinu að fullvinna það drasl sem hér fellur til. Hér er um umhverfisvænan iðnað að ræða og menn hafa reiknað það fram og til baka og sjá það að verksmiðjan er ódýr. Það er búið að afskrifa stærsta hlutann af henni og þess vegna væri það mjög kærkomið ef hægt væri að fá þau mál í góðan gang. Enn fremur liggur ljóst fyrir að með stækkun álversins og aukinni raforkusölu þangað munu hinir tæknilegu örðugleikar sem ég gerði að umtalsefni í stuttu máli verða að hluta til úr sögunni þannig að allar forsendur eru miklu mun betri en voru fyrir nokkrum missirum síðan. Ég vil því óska eftir því, virðulegi forseti, ef hæstv. ráðherra hefði um það upplýsingar að hann miðlaði þeim í þessum umræðum.