Tæknifrjóvgun

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 17:45:51 (5406)

1996-04-30 17:45:51# 120. lþ. 128.7 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. meiri hluta SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[17:45]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndfaráliti frá meiri hluta allshn. um frv. til laga um tæknifrjóvgun sem er á þskj. 819 og brtt. á þskj. 820.

Nefndin fjallaði mjög ítarlega um málið á mörgum fundum og fékk á sinn fund ýmsa gesti, Dögg Pálsdóttur og Ástu Ragnarsdóttur sem sátu í nefndinni sem samdi frumvarpið, Björgu Thorarensen, deildarstjóra í dómsmrn., Jón Hilmar Alfreðsson, Reyni Tómas Geirsson og Þórð Óskarsson, lækna á kvennadeild Landspítalans, og Þórhildi Líndal, umboðsmann barna. Þá bárust nefndinni fjöldi umsagna.

Einnig óskaði allshn. eftir umsögn heilbr.- og trn. um málið og er hún birt sem fskj. með áliti þessu.

Með frv. er stefnt að því að lögfesta reglur um tæknifrjóvgun, þ.e. getnað sem verður í framhaldi af tæknisæðingu eða glasafrjóvgun. Fram til þessa hefur engar slíkar reglur verið að finna í íslenskum lögum þrátt fyrir að tæknisæðing hafi verið framkvæmd hérlendis frá árinu 1980 og glasafrjóvgun frá árinu 1991. Hins vegar hafa myndast ákveðnar verklagsreglur um þessa starfsemi hér á landi og falla ákvæði frv. að mestu leyti að þeim. Frv. er þó talsvert ítarlegra en gildandi verklagsreglur auk þess sem það heimilar eggfrumugjöf sem hingað til hefur ekki verið talin heimil hér á landi. Eðlilegt er að sérstök lög gildi um svo viðkvæmt mál sem tæknifrjóvgun, bæði til að almenningur eigi greiðari aðgang að upplýsingum um í hverju hún felst og til að gera réttarstöðuna í þessu sambandi eins skýra og kostur er. Frumvarp þetta og þær breytingar sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til að gerðar verði á því miða að þessu. Sú rýmkun sem felst í frv. með því að heimila eggfrumugjöf. hefur í för með sér margvísleg álitaefni til viðbótar þeim sem fyrir eru vegna tæknifrjóvgunar með gjafasæði. Breytingarnar sem lagðar eru til miða að því að reyna að taka sem best á þessum álitamálum með réttarstöðu hinna verðandi foreldra, barnsins og kynfrumugjafans að leiðarljósi.

Miklar umræður urðu í nefndinni um málið, sérstaklega um ákvæði 4. gr. er lýtur að nafnleynd kynfrumugjafa og hin félagslegu áhrif sem tæknifrjóvgun getur haft. Það að eggfrumugjöf er heimiluð reynir enn frekar á nafnleyndarákvæði, m.a. vegna þess að aflað verður eggfrumna innan lands þar sem tæknin leyfir ekki, að svo komnu a.m.k., að eggfrumur séu frystar með sama hætti og sæðisfrumur. Skortur er því á eggfrumum til notkunar við glasafrjóvgun. En sæðisfrumur hafa komið frá Danmörku þar sem ríkir nafnleynd um kynfrumugjafa.

Rétt er að benda á í þessu sambandi að íslensk lög að þessu leyti geta að sjálfsögðu aldrei haggað við reglum annarra ríkja um nafnleynd. Ef ákveðið hefði verið að aflétta nafnleynd að fullu yrði ekki hægt að nota gjafasæði frá Danmörku af þeim sökum. Eftir þeim upplýsingum sem nefndin fékk stendur ekki til boða í dag að fá sæðisfrumur annars staðar frá, t.d. ekki frá Svíþjóð þar sem nafnleynd hefur verið aflétt. Ekki hefur heldur verið talinn ákjósanlegur kostur að nota innlendar sæðisfrumur. Reynslan erlendis hefur sýnt að algengast er að konur sem þurfa á eggfrumum að halda fái þær frá nákomnum ættingjum, einkum systrum. Í nefndinni urðu miklar umræður um kynfrumugjöf innan fjölskyldu og töldu sumir nefndarmenn nauðsynlegt að setja einhverjar hömlur á slíka notkun kynfrumna.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, m.a. umsögn heilbr.- og trn. og umræðum í nefndinni, telur meiri hlutinn rétt að gerðar verði nokkrar breytingar á frv. sem gerðar verði tillögur um á sérstöku þskj. og leggur til að frv. verði samþykkt svo breytt. Meðal annars er lagt til til samræmis við umsögn heilbr.- og trn. að kynfrumugjafa verði heimilt að velja hvort hann kjósi nafnleynd eða ekki. Var ekki annað séð en sátt hefði náðst í nefndinni um þá leið og því kemur fyrirliggjandi brtt. 2. minni hluta nokkuð á óvart.

Tillögur meiri hlutans eru eftirfarandi:

1. Lagt er til að þeim stofnunum, sem munu fá leyfi til að annast tæknifrjóvgun, verði skylt að bjóða pörum sem sækja um tæknifrjóvgunarmeðferð og væntanlegum kynfrumugjöfum aðgang að faglegri ráðgjöf sérfræðinga, svo sem félagsráðgjafa eða sálfræðinga. Aðgangur að slíkri meðferð verður ekki síst mikilvægur í ljósi þeirrar breytingar sem lögð er til á ákvæði 4. gr. um nafnleynd. Gert er ráð fyrir að gjafinn ákveði hvort um hann gildi nafnleynd eða ekki. Geri hann nafnleynd ekki að skilyrði mun barnið, sem verður til vegna kynfrumugjafar, eiga rétt á að vita hver gjafinn er. Mikilvægt er því að gjafinn fái ráðgjöf um afleiðingar hvorrar ákvörðunar fyrir sig. Sömuleiðis er mikilvægt fyrir parið að fá glöggar upplýsingar um afleiðingar þess að notaðar verða gjafakynfrumur með eða án nafnleyndar. Óski gjafinn eftir nafnleynd mun barnið aldrei eiga kost á að vita hver hann er þótt foreldrarnir segi því frá að það hafi orðið til við kynfrumugjöf. Óski gjafinn ekki nafnleyndar mun barnið á hinn bóginn geta leitað hans er það hefur aldur til. Fagleg ráðgjöf um hvers sé að vænta í framtíðinni við notkun gjafakynfrumna er því mikilvæg bæði parinu og væntanlegum gjafa.

Samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. má reikna með að kostnaður ríkisins af þessu verði u.þ.b. 2,5 millj. kr., þ.e. án húsnæðis og tækja.

2. Í 3. gr. segir að áður en samþykki er veitt fyrir tæknifrjóvgun skuli gefa parinu upplýsingar um meðferðina og þau læknisfræðilegu og lögfræðilegu áhrif sem hún kann að hafa. Lagt er til að einnig verði gert skylt að gefa upplýsingar um félagsleg áhrif. Nefndinni þykir mikilvægt í ljósi tillagna um breytingu á nafnleyndarákvæðinu að ítreka það einnig hér. Á þetta ekki síst við þegar gjafakynfrumur eru notaðar. Í þeim tilvikum er brýnt að útskýra fyrir parinu þær hugsanlegu félagslegu aðstæður sem geta skapast í framtíðinni ef barnið leitar sambands við líffræðilegt foreldri eða hið líffræðilega foreldri leitar sambands við barnið. Þá er einnig rétt að parinu sé leiðbeint um hvenær telja megi barnið nógu þroskað til að hægt sé að segja því frá uppruna sínum og á hvern hátt það verður best gert. Þá vill meiri hlutinn leggja áherslu á að nauðsyn ber að samþykki skv. 3. gr. sé veitt fyrir hverja einstaka aðgerð, þannig að ef t.d. fyrsta aðgerðin misheppnast þurfi hinir væntanlegu foreldrar báðir að veita samþykki á ný ef gera á aðra aðgerð. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.

3. Lagt er til að fortakslausri nafnleyndarkröfu 4. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að gjafinn ákveði sjálfur hvort nafni hans skuli haldið leyndu eða ekki. Kjósi kynfrumugjafi nafnleynd er heilbrigðisstarfsfólki skylt að tryggja að hún sé virt. Í þeim tilvikum má hvorki veita gjafa upplýsingar um parið eða barnið né parinu eða barninu upplýsingar um gjafann. Kjósi gjafinn ekki nafnleynd skal varðveita upplýsingar um hann og barnið sem verður til með kynfrumugjöf hans í sérstakri skrá. Barnið á samkvæmt tillögunni rétt á að leita upplýsinga um líffræðilegt foreldri sitt þegar það hefur náð 18 ára aldri en um leið er hlutaðeigandi heilbrigðisstofnun skylt að tilkynna því foreldri um barnið og að það hafi fengið þessar upplýsingar. Að sjálfsögðu er það undir barninu komið hvort það nýtir sér þennan rétt eða ekki. Kynfrumugjafinn á því aldrei sjálfstæðan rétt á að fá upplýsingar um barnið að fyrra bragði. Það skal tekið fram í þessu sambandi að ekki er gert ráð fyrir að líffræðilegt foreldri fái upplýsingar um hvert barnið er í þessum tilvikum. Það verður því ávallt svo að barnið leitar uppi kynforeldri sitt en ekki öfugt.

4. Rétt þykir að raða á ný stafliðum í 11. gr. þannig að saman fari í upptalningu rannsóknir sem skilgreina má sem þjónusturannsóknir sem tengjast tæknifrjóvgun (a- og d- liðir sem verða a- og b-liðir) og hins vegar rannsóknir sem teljast vísindarannsóknir á fósturvísum (b- og c-liðir sem verða c- og d-liðir).

5. Mikilvægt er að fastar og skýrar verklagsreglur gildi um framkvæmd tæknifrjóvgunar hér á landi. Skriflegar verklagsreglur hafa ekki verið til staðar um framkvæmd tæknisæðingar frá því að slík meðferð hófst hérlendis árið 1980. Á hinn bóginn setti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið skriflegar verklagsreglur um starfsemi glasafrjóvgunardeildar er sú starfsemi hófst hér á landi í byrjun tíunda áratugarins. Því leggur nefndin til að kveðið verði á um í 13. gr. að setja skuli skýrar og greinargóðar verklagsreglur um framkvæmd tæknifrjóvgunar ásamt ábendingum um hvað skuli m.a. vera í slíkum reglum. Gert er ráð fyrir að þessar reglur liggi fyrir við gildistöku laganna.

Virðulegi forseti. Í umsögn heilbr.- og trmrn. segir m.a. að nefndin skilji það svo að með frv. sé fyrst og fremst verið að bregðast við ófrjósemi og því sé ekki tekið sérstaklega á stöðu samkynhneigðra né einhleypra kvenna. Meiri hluti allshn. lítur það þá sömu augum. Er það viðhorf líka í samræmi við það sem gildir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Varðandi þetta atriði hefur nokkuð verið rætt um að með því að útiloka aðgang einhleypra kvenna að tæknifrjóvgun sé hugsanlega brotið gegn jafnræðisreglum. Sé litið á tæknifrjóvgun eingöngu sem læknisfræðilega aðgerð við ófrjósemi felst mismunun í því að einhleypar konur sem eiga við ófrjósemi að stríða fái ekki aðgang að tæknifrjóvgun á meðan hann sé veittur konum með sama vandamál sem eru í hjónabandi eða sambúð. Í umræðum sem fram hafa komið um þetta atriði hefur verið lögð áhersla á rétt einhleypra kvenna til að eignast barn og fá gjafasæði í þessu skyni en ekki endilega litið til barns einhleyprar konu við þessar aðstæður. Nú er það ekki dregið í efa að einhleypar konur rétt eins og einstæðar mæður almennt í dag geta veitt barni alla umhyggju sem það þarfnast, efnahagslegt öryggi og þroskavænleg skilyrði. Hins vegar má ekki líta fram hjá því að við sæðisgjöf er tekið fyrir allar lagalegar og félagslegar skyldur sæðisgjafa við barn. Þetta þýðir með öðrum orðum að á meðan eiginmaður eða sambúðarmaður konu sem eignast barn með gjafasæði gengur barninu að öllu leyti í föður stað með tilheyrandi skyldum verður barn einhleyprar konu sem getið er með gjafasæði í reynd algerlega föðurlaust. Að þessu leyti er ekki saman að jafna aðstöðu barns einstæðrar móður sem heldur öllum lagalegum tengslum við föður sinn. Það heldur erfðarétti, það á sína föðurfjölskyldu og á rétt samkvæmt barnalögum til framfærslu frá föður sínum og umgengi við hann þótt auðvitað sé misjafnt hvort eitthvert samband sé í reynd á milli föðurins og barnsins.

Oft hefur verið vísað í 7. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til stuðnings því að ákvæði frv. um nafnleynd kynfrumugjafa brjóti gegn rétti barns til að þekkja foreldra sína. Með því að fallast á að einhleypum konum verði veitt tæknifrjóvgun er litið fram hjá því að barnið er svipt þeim rétti sem einnig er tryggður í 7. gr. sáttmálans, þ.e. að njóta umönnunar beggja foreldra sinna, því enginn gengur barninu í föður stað. Einnig fer það gegn þeirri meginreglu sem kemur fram í 1. mgr. 18. gr. sáttmálans að aðildarríki skuli gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska.

[18:00]

Það leikur enginn vafi á að það sem hér er til umræðu snertir mjög á hinum siðferðilega þætti mannlegs eðlis og hafa fá mál vakið jafnmikla umræðu í allshn. Nefndin sem vann að samningu frv. vildi fara varlega í þessi mál til að byrja með og var því m.a. til samræmis við það sem tíðkast hefur gert ráð fyrir að nafnleynd yrði viðhöfð í öllum tilvikum. Eins og að framan er rakið leggur meiri hluti allshn. til að kynfrumugjafi velji hvort um hann skuli gilda nafnleynd eða ekki. Helstu rökin fyrir því eru að gera fleirum kleift að njóta eggfrumugjafar en verið hefur. Með þessari tillögu er leitast við að samræma mismunandi sjónarmið í þessum efnum.

Mismunandi reglur gilda um tæknifrjóvgun annars staðar á Norðurlöndum. Í Danmörku byggist framkvæmd tæknifrjóvgunar á stjórnvaldsreglum og er nafnleynd kynfrumugjafa skilyrði þar. Ný lög um tæknifrjóvgun gengu í gildi í Noregi árið 1994. Samkvæmt þeim reglum er gjöf bönnuð og nafnleynd gildir um sæðisgjafa. Í Svíþjóð á barnið hins vegar skilyrðislausan rétt á upplýsingum um kynföður. Þá má benda á að samkvæmt breskum lögum um tæknifrjóvgun er bannað að gefa upp nafn kynfrumugjafa.

Í sumum umsögnum sem nefndinni bárust er komið inn á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eins og ég nefndi áðan og því haldið fram að nafnleyndarákvæði standist tæpast 8. gr. samningsins. Benda má á í því sambandi að við staðfestingu á þessu ákvæði samningsins lagði eitt aðildarríkjanna til að skýrt yrði tekið fram í því að líffræðileg auðkenni féllu þar einnig undir. Sú tillaga náði ekki fram að ganga og verður vart skilið öðruvísi en svo að aðildarríkin hafi ekki treyst sér til að ganga svo langt. Þá má benda á að nefnd, sem ætlaði að hafa eftirlit með barnasáttmálanum, hefur ekki treyst sér til að fullyrða að nafnleyndarákvæði í lögum eða reglum einstakra aðildarríkja brjóti gegn sáttmálanum.

Þá hafa einnig komið til umræðu atriði sem snerta stjórnsýslulög og eins líka það frv. sem allshn. hefur verið að vinna að, þ.e. frv. til upplýsingalaga og vildi ég fá að víkja að þessum atriðum nokkrum orðum. Sú spurning hefur vaknað hvort nafnleynd sem heimilt er að tryggja kynfrumugjafa ef hann óskar þess skv. 2. mgr. frv. um tæknifrjóvgunarlög með áorðnum breytingum brjóti gegn rétti barns skv. 15. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, til þess að fá upplýsingar sem varða það sjálft. Í 1. mgr. 15. gr. laganna er tryggður réttur aðila máls til þess að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varðar og í 2. mgr. segir að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til þess að veita aðgang að gögnum skv. greininni. Hafa ber í huga að upplýsingaréttur skv. 15. gr. er ekki algerlega afdráttarlaus. Þannig mælir 17. gr. stjórnsýslulaganna fyrir um takmarkanir á þessum upplýsingarétti. Þegar sérstaklega stendur á er stjórnvaldi heimilt skv. 17. gr. að takmarka aðgang aðila máls að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum. Þessa reglu verður að skýra sem þrönga undantekningarreglu.

Oftast virðist sem reyni á heimild til takmörkunar á aðgangi aðila að gögnum máls við meðferð forsjármála og barnaverndarmála. Þegar barn óskar eftir upplýsingum um nafn kynfrumugjafa á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga vegast á annars vegar réttur þess til upplýsinga um uppruna sinn og hins vegar persónulegir hagsmunir kynfrumugjafans sem óskar nafnleyndar við kynfrumugjöfina. Samkvæmt áðurnefndri 17. gr. er hægt að álykta að hagsmunir kynfrumugjafa við þessar sérstöku aðstæður geti réttlætt takmörkun á upplýsingaréttinum sem annars er tryggður í 15. gr. Þá hefur verið bent á að verði frv. til upplýsingalaga að lögum skapist sú aðstaða að aðgangur almennings að gögnum um einkamálefni einstaklings, þar á meðal um líffræðilegt foreldri sem óskar nafnleyndar, verði óheftur að 80 árum liðnum frá tilurð á meðan einstaklingurinn sjálfur fær ekki aðgang að þeim. Þetta er ekki alls kostar rétt skýring á ákvæðum frv. Í 5. gr. frv. segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Í 8. gr. frv. segir síðan að veita skuli almenningi aðgang að gögnum sem 5. gr. tekur til að 80 árum liðnum frá því að þau urðu til. Þessar greinar verður að skýra með hliðsjón af 2. gr. frv. Í 3. mgr. 2. gr. segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögum þessum. Í athugasemdum við 2. gr. í grg. við frv. er útskýrt hvað er útskýrt hvað er átt við með almennum ákvæðum laga í þessu sambandi. Dæmi um slíkt almennt ákvæði er 32. gr. starfsmannalaga, nr. 38/1954, um að starfsmanni sé skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi. Einkenni þessa og almennra lagaákvæða um þagnarskyldu er að þau sérgreina ekki þær upplýsingar sem þagnarskyldan gildir um heldur tilgreina aðeins almennt að þagmælsku skuli gætt, t.d. á tilteknu sviði.

Í athugasemdum við 2. gr. er skýrlega tekið fram að sérákvæði um þagnarskyldu þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til ganga skýrlega lengra en 5. gr., gangi framar ákvæðum frv. þessa ef að lögum verður og hindra því aðgang að upplýsingum sem þar er getið. Umrætt ákvæði 2. mgr. 4. gr. frv. til laga um tæknifrjóvgun um nafnleynd kynfrumugjafa verður að telja dæmigert sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þær upplýsingar sem óheimilt er að veita, eru skýrlega tilgreindar. Sú ályktun verður því dregin af 3. mgr. 2. gr. frv. til upplýsingalaga að sérákvæði um nafnleynd kynfrumugjafa falli utan ramma frv. sem lögbundið frávik frá réttinum til aðgangs að gögnum. Þessi skoðun kom fram og var staðfest í allshn. af einum af höfundum þessa frv. til upplýsingalaga.

Þá tel ég rétt að gera sérstaka grein fyrir bréfi er barst til allshn. Alþingis eftir að málið hafði verið afgreitt út úr nefndinni frá læknum á kvennadeild Landspítalans. Með leyfi virðulegs forseta vil ég fá að lesa þetta bréf upp því ég tel mikilvægt að það komi fram.

,,Okkur undirrituðum læknum á kvennadeild Landspítalans hafa borist breytingartillögur allsherjarnefndar við frumvarpið og virðist okkur þær allar vera til bóta. Viljum við þakka nefndinni mikla og góða vinnu sem hún hefur lagt til þessa máls.

Tilefni þessa bréfs er sú gagnrýni sem fram hefur komið m.a. frá einstökum þingmönnum á nafnleyndarákvæði frumvarpsins. Við teljum það skyldu okkar að gerast málsvarar þess fólks sem við núverandi aðstæður sér sér þann einn kost til að fæða börn að þiggja kynfrumur frá þriðja aðila. Þessi hópur óskar yfirleitt eindregið eftir gagnkvæmri nafnleynd eins og frv. gerir ráð fyrir. Sama má segja um þorra gefenda kynfrumna eins og reynslan erlendis sýnir. Með því að afnema nafnleyndina er lagður steinn í götu þessa fólks og leiðin gerð erfiðari að settu marki. Jafnframt er því og reyndar öllum þeim sem á sl. 20 árum hafa valið þessa leið til fjölskyldumyndunar brigslað um að brjóta rétt á börnum sínum. Við vitum að mörgum finnst nærri sér höggvið og trúlega fylgjast flestir grannt með gangi þessa máls þótt fáir eða engir treysti sér til að ganga fram fyrir skjöldu.

Nú er það sem betur fer svo að framfarir í ófrjósemismeðferð hafa dregið verulega úr þörfinni á notkun gjafasæðis. Hér á landi höfum við í nokkur ár stundað glasafrjóvgun sem hjálpar mörgum sem áður hefðu þurft á tæknisæðingu með gjafasæði að halda. Smásjárfrjóvganir munu hjálpa enn fleirum. Við vitum einnig að engir fagna þessum nýjungum innilegar en fólkið sjálft og velur þessar leiðir þótt þær séu margfalt dýrari en tæknisæðingin. Reynslan erlendis sýnir enn fremur að tilkoma smásjárfrjóvgana leiðir til mikillar fækkunar tilfella þar sem þörf er á gjafasæði.

Nú hefur verið stefnt að því hér á landi að hefja smásjárfjóvganir innan eins til tveggja ára. Við viljum því beina þeim tilmælum til allsherjarnefndar og þingsins að viðhalda nafnleyndarákvæðinu á þann hátt sem gert er ráð fyrir í breytingartillögum nefndarinnar. Síðan yrði gert ráð fyrir endurskoðun ákvæðisins eftir t.d. fimm ár. Teldum við það farsæla lausn fyrir skjólstæðinga vora ef þingmenn næðu slíkri málamiðlun í góðu samlyndi.``

Undir þetta bréf rita nöfn sín Reynir Tómas Geirsson prófessor, Auðólfur Gunnarsson sérfræðingur, Guðmundur Arason sérfræðingur, Jón Hilmar Alfreðsson yfirlæknir og Þórður Óskarsson sérfræðingur.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka mikilvægi þess að lög séu sett um þetta réttarsvið. Ef menn reyna að setja sig í spor fólks sem þarf á slíkri þjónustu að halda ætti þeim að vera ljóst mikilvægi þess að fyrir liggi sem skýrastar reglur um framkvæmdina. Meiri hluti nefndarinnar telur þó eins og fram hefur komið rétt að fara varlega af stað í upphafi en síðan verði hugað að endurskoðun laganna þegar nokkur reynsla er komin á þau. Er það í samræmi við bréf frá læknum á kvennadeild Landspítalans, sem ég las upp áðan, þar sem þeir mæla með afgreiðslu málsins með þeim hætti sem meiri hluti nefndarinnar leggur til og síðan yrði gert ráð fyrir endurskoðun ákvæðisins. Vonandi er að sátt náist um framgöngu þessa mikilvæga máls og nota ég þetta tækifæri til þess að þakka nefndarmönnum í allshn. fyrir vönduð vinnubrögð í þessu máli enda um afar vandmeðfarið en jafnframt mikilvægt mál að ræða.