Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 22:37:02 (5432)

1996-04-30 22:37:02# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[22:37]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ástæða til þess að snúa þessari röksemd akkúrat á haus og segja sem svo: Ef það er yfirlýst skoðun hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, formanns efh.- og viðskn., að það beri að setja einhverjar reglur sem aftri útlendingum frá því að fjárfesta í sjávarútvegi og hann er þeirrar skoðunar að veiðileyfagjaldið sé það, hvers vegna tekur hann þá ekki undir? Er það þá ekki miklu praktískari og framkvæmanlegri leið til þess að draga úr ímyndaðri sókn útlendinga í íslensku auðlindina að taka upp veiðileyfagjald? Ef hv. þm. er sjálfum sér samkvæmur og þetta er markmiðið er þá ekki leiðin að hans eigin ábendingu sú að taka upp veiðileyfagjald?

Hins vegar er það svo að ákvarðanir um fjárfestingu í fyrirtækjum eins og fáir vita betur en hv. þm. ráðast af því hvort fyrirtæki eru arðsöm. Veiðileyfagjald þarf alls ekki að þýða að fyrirtæki verði þar af leiðandi ekki arðsöm vegna þess að veiðiheimildirnar ganga kaupum og sölum. Það þýðir einfaldlega að það sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi er að samfærsla á þessum veiðiheimildum er að færast í aukana. Það er lykillinn að aukinni hagræðingu í rekstri fyrirtækja og þau fyrirtæki sem best hafa spjarað sig eru samkvæmt flestum efnahagslegum mælikvörðum prýðilegur fjárfestingarkostur. Þessi fyrirtæki hafa þó í nafni þessarar hagræðingar þurft að kaupa veiðiheimildir í stórum stíl. En arðsemi þeirra er ekki minni fyrir þær sakir.