Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:35:54 (5466)

1996-05-02 13:35:54# 120. lþ. 129.6 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, ÁE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:35]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vek sérstaka athygli á þeirri brtt. sem nú er verið að greiða atkvæði um. Hún er borin fram af minni hluta efh.- og viðskn., þ.e. mér og hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni. Hún kveður á um að heimilt verði að leyfa erlendar fjárfestingar í fiskvinnslu hér á landi. Ekki er gerð tillaga um að leyfa erlendar fjárfestingar með beinum hætti í fiskveiðum. Með þessari tillögu er gerð ákveðin tilraun til málamiðlunar í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað um þetta mál.

Við teljum að frv. ríkisstjórnarinnar feli ekki í sér nein sóknarfæri og það hefði verið lágmark í þeirri umræðu að fallast á þessa útfærslu sem minni hluti nefndarinnar leggur til, þ.e. að gera fiskvinnslu jafnhátt undir höfði og almennum iðnaði. Við sjáum ekki í því nein vandkvæði og það ber einnig að hafa í huga að ýmsir hv. stjórnarþingmenn lögðu fram upprunalegar tillögur sem gengu mun lengra en þessi tillaga gerir ráð fyrir. Þessi tillaga er lögð fram til málamiðlunar í þeirri umræðu. Enda þótt ekki hafi fengist samþykki fyrir henni í efh.- og viðskn. teljum við að með þessari útfærslu væri stigið farsælt spor varðandi fjárfestingar útlendinga í íslensku atvinnulífi.