Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 14:57:43 (5478)

1996-05-02 14:57:43# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[14:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Í bréfi því sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir las og er frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er svarað þeim spurningum sem hv. þm. Svavar Gestsson spurði um varðandi réttarstöðu kennaranna. Ef svo skyldi fara að þessu frv., eftir að það verður lögfest, yrði breytt síðar af þinginu, þá kemur alveg skýrt fram í þessu bréfi að sambandið fellst á það að þegar samningsumboð við grunnskólakennara er komið til sveitarfélaganna, þá verði kennurum heimilt að segja upp kjarasamningum, verði gerðar breytingar með lögum á réttindum þeirra og skyldum í andstöðu við samtök kennara. Það er alveg skýrt hvernig réttarsambandið er. Kennararnir verða þá orðnir starfsmenn sveitarfélaganna og sveitarfélögin hafa lýst þessu yfir. Þar að auki hefur ríkisstjórnin lýst því yfir, og það kemur fram í greinargerð með þessu frv. sem við erum að ræða, að hún muni ekki gera þetta nema um það komi tilmæli frá sveitarfélögunum eða kennurum. En ég tel að með þessu bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga sé ljóst að um verður að ræða sameiginlega afstöðu kennaranna og sveitarfélaganna í því efni.

Ég tel einnig varðandi 37. gr. að eftir flutning grunnskólanna frá ríki til sveitarfélaga og gildi reglugerðanna, þá sé í 37. gr. veitt sú lagastoð sem þarf til þess að reglugerðirnar haldi gildi sínu. Það er engin spurning um það, enda eru reglugerðirnar lögfestar í 37. gr. eða þeim veitt sú lagastoð sem nauðsynleg er til að þær haldi gildi sínu.

Varðandi biðlaunin og varðandi rétt þeirra sem starfa á fræðsluskrifstofunum, þá var þetta mál rætt við 1. umr. málsins. Ég svaraði því þá og hef raunar engu við það að bæta. Verkefnisstjórnin hefur fjallað um þetta mál og tekið á því eins og henni er fært. Það er ekki hægt að setja um þetta neina eina reglu. Biðlaunaréttur þessa fólks er að sjálfsögðu skýr og ótvíræður, en ein regla verður ekki sett um þennan hóp, hann er það fjölbreyttur.