Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:03:52 (5482)

1996-05-02 15:03:52# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:03]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla og það er ástæða til að leggja áherslu á það hve ánægjulegt það er út af fyrir sig að við skulum vera að ræða frv. sem varðar réttindi og skyldur og er í raun og veru sáttamál. Það er mjög mikil ástæða til að taka það fram vegna umræðunnar og vegna þess á hvern hátt umræðan þróast um þetta annars ágæta mál vegna þess að ef við værum að ræða frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda vegna tilflutnings þessa mikilvæga verkefnis til sveitarfélaganna í eðlilegu umhverfi væri mjög jákvætt að taka þetta mál fyrir hafandi fengið það afgreitt einróma úr menntmn.

Vegna þessara orða minna vil ég sérstaklega geta þess hversu mörg okkar hafa miklar væntingar um þau verkefni sem við viljum sjá að flytjist til sveitarfélaganna frá ríkinu. Þó hér sé fyrst og fremst verið að tala um grunnskólann sem er eitt stærsta og þýðingarmesta verkefnið sem flutt er frá ríkinu til sveitarfélaganna eru önnur verkefni í farvatninu, verkefni sem eru næstum jafnþýðingarmikil, a.m.k. fyrir stóra hópa og sem verða væntanlega flutt síðar ef vel tekst til og ef mál fara ekki fullkomlega í uppnám í kjölfar þessa. Því er litið mjög til þess hvernig tekst til með verkefnið af því að þá má líta svo á að ef vel tekst til með grunnskólann þannig að sátt sé á öllum sviðum séu meiri líkur á því að öðrum verkefnum verði flýtt sem beðið er eftir og væntingar eru um, eigi miklu betur heima hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu. Það verkefni sem ég er með í huga er málaflokkur fatlaðra en það er málaflokkur sem ég tel að eigi helst að vera í höndum heimamanna, sveitarstjórnanna, og sé mjög vel fyrir komið þar. Það er mjög flókinn málaflokkur og um margt flóknari en grunnskólinn en í þeim geira, ef ég get notað það orð, er litið mjög til þess og fylgst vel með því hvernig til tekst með flutning grunnskólans til þess að hægt sé að fylgja í kjölfarið með hitt stóra verkefnið.

Þess vegna er svo mikilvægt, virðulegi forseti, að hér sé leitt til lykta og rætt út hvernig farið verði með alla aðra starfsmenn. Það hefur komið fram í þessari umræðu að það sé búið að ganga frá málum kennara og skólastjórnenda, starfsmannamálum þeirra, en það hafa verið bornar fram spurningar varðandi aðra.

Virðulegi forseti. Ég veit að það er afskaplega erfitt fyrir ráðherra að þurfa að sitja alveg stíft yfir umræðum okkar þingmanna um málið en það er afar brýnt að við finnum að ráðherra hlýði á mál okkar, sérstaklega ef um er að ræða spurningar eða athugasemdir. Og þar sem þessi orð mín beindust að því að ráðherra var ekki í salnum fagna ég því að sjá hann í hliðardyrum og geri engar athugasemdir út af því þó ráðherra rétti örlítið úr sér.

Ég var að ræða það hversu mikilvægt það væri að málefnum allra starfsmanna væri vel skipað og öll ágreiningsmál varðandi starfsmenn væru leidd til lykta og það hafa verið bornar fram spurningar sem eru alveg réttmætar. Það hefur verið spurt um starfsfólk fræðsluskrifstofanna og það eru einhverjir fleiri innan Starfsmannafélags ríkisstofnana sem eru einhvers staðar í lausu lofti ef ég get orðað það svo. Þetta er ekki eitthvert nagg. Þetta er ekki að þingmenn séu að reyna að vera óþægilegir. Þetta er stórt mál vegna þess að það er fordæmi og þetta er stórt mál vegna þess að það á að líta á það í öllum þeim tilfellum þar sem samanburður verður þegar farið verður að flytja önnur verkefni. Þess vegna er ráðherranum svo mikill vandi á höndum. Þess vegna er menntmrh. svo mikill vandi á höndum nú þegar þetta stóra og þýðingarmikla verkefni fer fram, flutningur grunnskólans, vegna þess að hann er eiginlega í hlutverki elsta systkinis í systkinahópi þegar allt á að takast svo vel til hjá stóra bróður eða stóru systur vegna þess að öll hin systkinin sem á eftir koma munu líta til þess elsta og taka eftir og læra af. Þess vegna er hlutverk ráðherrans mikilvægt, ekki bara varðandi verkefni grunnskólans, heldur sem frumkvöðuls í þessum flutningi sem ég vil eins og áður hefur komið fram að sé fyrsta verkefni af mörgum.

Þegar ég er að fjalla um þessi mál er ég líka að koma inn á annan mikilvægan þátt og það er traust milli aðila. Því miður verður að segja það að mjög oft hefur ríkt vantraust á milli stjórnsýslustiganna. Það hefur ríkt vantraust á milli ríkisvaldsins og sveitarstjórnarstigsins. Þetta vantraust hefur oftast nær verið neðan frá og upp, bullandi vantraust sveitarstjórnarmanna á ríkisvaldið. Þá hefur engu máli skipt hvaða flokkur hefur setið í ríkisstjórn og hvaða flokkar hafa skipað að maður segir meiri hluta heima í sveitarfélögum. Það hafa verið að koma upp álitamál þar sem vantraustið sem býr undir bullar upp á yfirborðið.

Auðvitað hefur það oft skipt máli hver situr í ríkisstjórn vegna þess að við höfum lært að sumar ríkisstjórnir virðast ofbeldishneigðari en aðrar hvað það varðar að setja lög sem snúa að þegnunum og réttindum þeirra, sem snúa að því að keyra yfir aðra og þar með sveitarstjórnir. Þess vegna koma þessi mál mismikið upp á yfirborðið en því miður er það svo að það er bullandi vantraust á ríkisvaldið og núna er það ekki bara varðandi samskipti sveitarstjórna og ríkisvalds. Þau samskipti þekki ég mjög vel sjálf eftir að hafa setið í sveitarstjórn og meiri hluta í 10 ár og eftir að hafa allar götur síðan unnið í félmn. Alþingis sem hefur fengið langmest af þeim verkefnum sem lúta að sveitarstjórnarstiginu og sem mikill ágreiningur hefur oft komið upp út af þangað inn og varðar samskipti þessara stjórnsýslustiga.

Virðulegi forseti. Nú hefur það gerst að þetta vantraust er verra og dýpra en nokkru sinni. Það er ekki af hálfu sveitarstjórnarstigsins gagnvart ríkisvaldinu fyrst og fremst í þetta sinn, heldur er það af hálfu launþega, af hálfu starfsfólks, nú starfsfólks ríkisins, verðandi starfsfólks sveitarstjórnarstigsins. Mér finnst afskaplega alvarlegt að við skulum vera að ræða mál sem er í sjálfu sér gott og ætti að vera rætt út frá þeim punkti en verður skrambi slæmt vegna þess umhverfis sem það er rætt í. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, af því að formaður menntmn. gengur í salinn að benda menntmrh. á það hversu gott starf það sýnir hjá formanni menntmn. og gott samstarf það sýnir hjá formanni menntmn. og gott samstarf það sýnir í menntmn. að þetta mál skuli hafa verið tekið út úr menntmn. í fullri sátt í því erfiða umhverfi sem Alþingi er í núna hvað varðar að ræða réttindi launþega og samskipti launþega og hins opinbera sem kristallaðist í upphafi dagskrár í dag þegar menn voru að rifja upp hvert var 1. maí ávarp félmrh. í gær. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að þetta umhverfi sem við erum í hefur áhrif á umræðuna um þetta frv. Ég verð satt að segja að lýsa furðu minni á því hvað menntmrh. virðist undrandi á viðbrögðum okkar. Ég verð að segja að eins og menntmrh. er skýr einstaklingur finnst mér alveg vanta skilning hans á því hvað það er sem við tengjum saman þegar við erum að ræða það frv. sem er fram undan í umræðunni á morgun um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og það sáttafrv., það sáttamál sem liggur nú á borðum okkar. Að láta það í ljós aftur og aftur í þessum ræðustól að skilja ekki að þetta sé sérstakt mál og í engu tengt hinu málinu vekur bara furðu mína vegna þess að það eru svo hörð viðbrögð alls staðar í þjóðfélaginu og ekki síst í þessum þingsal við frv. sem eru sett fram um breytingu á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna. Það er viðbúið að þau hörðu viðbrögð við því réttindamáli og svo frv. um sáttastörf og vinnudeilur, komi fram gagnvart þessu góða máli sem við ræðum hér.

Virðulegi forseti. Ég þarf að koma því á framfæri við ráðherrann að skilningsleysi ráðherrans beinist auðvitað að því að það er verið að vinna þessi mál aftur á bak. Það er verið að vinna þau í fullkomlega öfugri röð. Í stað þess að fyrst sé farið fram með frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og slíkt mál leitt til lykta og af minni hálfu er alveg ótvírætt að slíkt mál ætti að vinnast í sátt við launþegasamtökin, í stað þess að það mál sé unnið fyrst og lög um flutning á grunnskólanum og lög um framhaldsskólann komi í kjölfarið, þarf að ræða þetta erfiða mál í dag, hafa umræðu sem er í skjóli bullandi tortryggni eins og ég hef þegar bent á og draga væntanlega umræðu um réttindi opinberra starfsmanna inn í umræðu um þetta frv.

[15:15]

Það er búið að setja á borðið hjá okkur nál. vegna frv. um framhaldsskólann og af því að það er ekki búið að ráða til lykta réttindum og skyldum opinberra starfsmanna er líka bent á það frv. Það er alveg ljóst og það verður menntmrh. að gera sér ljóst líka, virðulegi forseti, að breytingar sem koma fram varðandi 11. gr. vísa til frv. sem hefur ekki verið afgreitt vegna þess að það hefur áhrif á framhaldsskólafrumvarpið. Það segir okkur enn og aftur að auðvitað átti fyrst að ganga frá og lögfesta réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, síðan að taka það frv. sem við erum að ræða hér, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda, og þar á eftir frv. um framhaldsskóla þannig að menn gerðu sér grein fyrir út frá hvaða réttindum væri gengið, hvaða lög væri búið að setja um almenn réttindi opinberra starfsmanna þegar við erum að fjalla um sérlög sem koma inn á réttindin. Þetta er svo einfalt að mér finnst að hvert mannsbarn hljóti að skilja þetta þannig að um það eigi ekki að þurfa að deila mjög í þessum þingsal þar sem fólk er að fjalla um lagagreinar allan ársins hring og væntanlega hvað þurfi að liggja fyrir þegar lög eru sett.

Þegar við ræddum þetta frv. áður en því var vísað til nefndar var ég mjög upptekin af ákvæði í grg. Ég bar fram spurningar til ráðherrans varðandi það sem ég fékk eiginlega engin svör við. Og ég skil að ég skuli ekki hafa fengið svör við þeim vegna þess að það er eiginlega ekkert hægt að svara því sem ég vísaði þar til öðruvísi en hreinlega eins og þar stendur. Ég ætla að rifja það upp einu sinni enn og biðja þingmenn að fletta með mér upp í þessu frv. sem við erum að ræða á bls. 9. Þar er inngangur að athugasemdum við frv. en í lok athugasemdanna áður en farið er að gera athugasemdir við einstakar greinar frv. segir svo í síðustu greinaskilum á bls. 9: ,,Lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, eru nú í endurskoðun og hyggst ríkisstjórnin leggja fram frumvarp til nýrra laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna á vorþingi 1996.`` Þetta hefur nú gerst eins og við vitum öll. Það er búið að leggja fram þetta frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem þarna var boðað að yrði lagt fram á vorþingi 1996. Það frv. er hefur fengið hörð viðbrögð í þjóðfélaginu og við það er full andstaða eins og það er í dag og eins og horfir að það verði afgreitt. En höldum svo áfram með grg.: ,,Ef það frumvarp nær fram að ganga er ríkisstjórnin reiðubúin til að breyta lögum sem kunna að verða sett á grundvelli frumvarps þessa um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra við grunnskóla, ef ósk kemur fram um það frá sveitarfélögunum eða félögum kennara eða hvorum tveggja.`` Þetta er punctum saliens vegna þess að við vitum að það á að afgreiða frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna fullkomlega í blóra við vilja opinberra starfsmanna og fullkomlega í blóra við vilja stjórnarandstöðunnar. Ekki eins og hér með þetta litla, fallega frv. þar sem full samstaða náðist um að afgreiða þessi réttindi einhuga úr nefndinni. Það er búið að ákveða að þannig verði farið að með réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þegar búið er að afgreiða þetta frv. í fullkominni sátt og gera það að lögum af því að það er, eins og ráðherrann segir óháð öðru frv. sem á að koma hér til afgreiðslu, verða önnur lög sett. Og svo kemur haustið og þá kemur fram ósk, ekki frá sveitarfélögum og kennurum saman þannig að tryggt sé að beiðni um breytingar séu í sátt á milli aðila, heldur frá sveitarfélögunum einhliða af því að í millitíðinni er búið að setja lög sem varða réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem eru öðruvísi en þau lög sem hér er verið að festa. Og menn vilja hafa þetta eins. Ef það verða sett einhver ákvæði eða breytingar varðandi lífeyrissjóð, þótt það sé ekki fyrirhugað eins og er, þá boðar þessi setning að þegar við erum búin að breyta lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þá erum við að sjálfsögðu tilbúin til að breyta öðru sem kemur í kjölfarið.

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka lofsorði á menntmrh. fyrir að hafa komið fram með frv. og undirbúið það með þeim hætti að um það eitt og sér er full sátt á milli þeirra sem það snýr að og ríkisvaldsins. Það er gott mál og full ástæða til að lofa það sem gott er. En um leið hlýt ég að óttast og árétta það við ráðherrann að þeir þingmenn sem láta í ljósi áhyggjur sínar vegna þess sem á eftir mun koma eru í fullum rétti til þess. Það á ekki að gera lítið úr því. Það á að svara því sem liggur fyrir um þessi mál. Það á ekki að blása því frá eins og einhverju sem kemur ekki málinu við. Það skiptir miklu hvernig staðið verður að þessu máli út af öllu sem á eftir kemur. Það skiptir miklu vegna málaflokks fatlaðra, málaflokki sem ég ber mjög mikið fyrir brjósti og sem á að flytja til sveitarfélaganna fyrr en seinna, hvernig staðið er að málum fyrir alla starfsmenn, ekki bara þá sem búið er að tilgreina hér heldur starfsmenn aðra í Starfsmannafélagi ríkisstofnana þannig að allir geti séð að ríkisvaldið stendur vel að málum.

Virðulegi forseti. Ráðherrann verður að horfast í augi við að hann er að vinna þetta mál núna í andrúmslofti þar sem venjulegu fólki finnst að ríkisvaldið standi ekki vel að málum og sé ekki að gera vel í málefnum launþega.