Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:59:57 (5493)

1996-05-02 15:59:57# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:59]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, þeir verða fluttir með þeim réttindum sem þeir hafa í dag. En í frumvarpsgreininni sjálfri segir um þessi réttindi sem eru í reglugerðum 410 og 411 og vitnað er til í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

,,Eftir flutning grunnskólanna frá ríki til sveitarfélaga skulu starfsmenn ekki njóta lakari réttinda í veikindaforföllum ...`` Í skýringum við greinina segir síðan:

,,Efnisákvæði reglugerða nr. 410/1989 og nr. 411/1989 skulu eftir flutninginn gilda sem lágmarksréttindi en víkja eftir atvikum fyrir betri rétti samkvæmt öðrum gildandi lögum.`` --- Ekkert sambærilegt ákvæði er hins vegar varðandi opinbera starfsmenn eða starfsmenn ríkisins í frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Jafnframt segir hér: ,,Breytingar sem kunna að verða gerðar á þessum reglugerðum vegna starfsmanna ríkisins hafa engin sjálfvirk áhrif á réttindi þeirra sem undir frv. þetta heyra.``

Það er aftur og aftur talað um þetta hér af hálfu hæstv. ráðherra og þeirra sem styðja þessa ríkisstjórn að við eigum ekki að blanda saman umræðu um þessi tvö mál. Það er gert hér í greinum frv., í greinargerð frv. Aftur og aftur eru þessi mál tengd og fyrirmyndin að frv. er lögin sem gilda um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og síðan vitnað í að þar verði gerðar breytingar. Það hlýtur því að teljast eðlilegt að við skoðum þær breytingar sem lagðar hafa verið fram í samhengi við það frv. sem hér um ræðir.