Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 18:24:54 (5517)

1996-05-02 18:24:54# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[18:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var að reyna að feta mig eftir hinum rökfræðilega hugsanagangi hv. þm. Ég var ekki að reyna að skynja hvað lá að baki smíð frumvarpshöfunda. Við erum að ræða það sem hv. þm. sagði sjálfur, ítrekaði margsinnis og hafði ekki bara eftir höfundum frv., að það væru hagsmunir barnsins sem ætti að hugsa hvað mest um. Hvaða leið fer hv. þm. að því marki? Hann fer þá leið að segja að það eigi einungis að heimila glasafrjóvgun í því tilviki að notaðar séu kynfrumur parsins. Það er auðvitað alveg ljóst að það eru litlar líkur á því að úr slíku verði til okfruma, úr slíku verði getnaður. Fólk leitar þessarar tækni vegna þess einmitt að viðkomandi pari hefur ekki tekist að eignast barn með náttúrulegum aðferðum. Menn koma hérna og tala af sannfæringarkrafti eins og hv. þm. um að þetta sé allt til þess að gæta hagsmuna barnsins. En leiðin sem hv. þm. leggur til er þess eðlis að það eru afskaplega litlar líkur til þess að það verði nokkurn tímann til eitthvað barn sem hægt er að gæta hagsmuna fyrir. Mér finnst þetta því ekki rökrétt og hv. þm. finnst mér staðfesta það að hann er kominn út á rökfræðilega hálan ís þegar hann fer að tala um það að hvort eð er verði fá börn til með tæknisæðingu þar sem verið er að gefa sæði eða við hina hefðbundnu glasafrjóvgun. Mér finnst þetta benda til þess að hv. þm. sé ekki alveg fullkomlega sannfærður um sína eigin rökfræði í þessu máli. Mér finnst hún leiða til niðurstöðu sem ég er algjörlega ósammála og ég skynja ekki alveg hinn hreina rökfræðilega gang í hugsun hv. þm. í þessu efni.