Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 15:50:10 (5659)

1996-05-06 15:50:10# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), GHH
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[15:50]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Ég held að það sé ekki réttmæt gagnrýni sem fram hefur komið á umhvrh. í þessari umræðu. Málið snýst um það að gæta fyllsta öryggis að því er varðar mengunarmál og umhverfisvarnir í fyrirhugaðri verksmiðju. Þær kröfur eru að sjálfsögðu settar í starfsleyfi eins og fram kom hjá ráðherra. Það er óeðlilegt að koma með kröfu um sérstakt umhverfismat þegar það var ekki gert við sambærilega verksmiðju austur á Fáskrúðsfirði í fyrra og ég sá það í blaði í morgun að sams konar verksmiðja sé í uppsiglingu uppi á Akranesi einnig.

Mér finnst óeðlilegt að vera að draga þetta mál inn á Alþingi með þessum hætti, þ.e. að gera stækkun þessa mikilvæga fyrirtækis tortryggilega í sölum Alþingis. Það er engin ástæða til þess að vantreysta hvorki stjórnvaldinu í þessum efnum, umhvrh. eða fyrirtækinu sjálfu sem hefur sýnt það á undanförnum árum að þar er staðið að öllum þessum málum með þeim hætti að það er til sérstaks sóma. Gagnrýnin sem höfð var upp á þetta fyrirtæki fyrir örfáum árum reyndist alls ekki á rökum reist. Þarna hefur verið starfrækt nýtískuleg fiskmjölsverksmiðja undanfarin fjögur ár, að vísu mun minni en sú sem nú er verið að tala um. En reynslan af henni er mjög góð. Það vita þeir sem búa í nágrenni við verksmiðjuna. Það geri ég nefnilega alveg eins og hv. síðasti ræðumaður. (Gripið fram í.) Já, en það er samt ekki ástæða til þess, þó að þarna verði starfsemin fjór- eða fimmfölduð, að óttast að þarna verði eitthvað dregið úr kröfum varðandi þennan búnað. Þvert á móti held ég að það sé kappsmál fyrirsvarsmanna þessarar verksmiðju að standa vel og skynsamlega að þessum málum.

Hér er auðvitað á ferðinni greinilegt hagsmunamál fyrir Reykvíkinga alla saman, að efla þessa starfsemi og auka hana því þetta er mikilvæg atvinnustarfsemi. Og það er líka sérstakt hagsmunamál fyrir Reykjavíkurborg að þarna sé ráðist í stækkun og að þau tækifæri sem þarna eru fyrir hendi verði nýtt borgarbúum og borginni til hagsbóta.