Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 16:03:15 (5665)

1996-05-06 16:03:15# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), KF
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[16:03]

Katrín Fjeldsted:

Ágæti forseti. Ég var formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur þegar fjallað var um starfsleyfi þessarar verksmiðju á fyrri stigum, var reyndar formaður þeirrar nefndar í 12 ár. Við tókumst mikið á um þetta málefni, aðallega til þess að tryggja að farið væri eftir þeim kröfum sem settar voru fram um mengunarvarnir. Reyndar var ekki gert neitt umhverfismat á þeim tíma. Þetta var 1991. Heilbrigðisnefndin samþykkti eftirfarandi skilyrði:

1. Hráefnið skyldi ætíð vera ferskt og geymslu þess og meðferð hagað samkvæmt því.

2. Strangasta hreinlætis gætt við alla starfsemi, úti sem inni, sérstaklega við geymslu og meðferð hráefnis og afurða.

3. Að loftmengunarvarnabúnaður verksmiðjunnar skyldi vera af fullkomnustu gerð og komið yrði fyrir fullnægjandi búnaði til varnar frárennslismengun.

4. Í starfsleyfinu kæmu fram skýr ákvæði um framkvæmd eftirlits og hvernig skyldi bregðast við brotum á einstökum ákvæðum starfsleyfisins.

5. Að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur yrði falið allt mengunareftirlit með verksmiðjunni.

Þetta gekk prýðilega fram og þessu hefur verið fylgt eftir og ég veit ekki annað, bæði sem fyrrv. formaður heilbrrn. og íbúi í Vesturbænum, að það hafi verið vel staðið að málum í verksmiðjunni. Nú er um að ræða rúmlega fjórföldun á afköstum verksmiðjunnar sem að sjálfsögðu er heilmikil stækkun. Einnig eru breytingar fyrirhugaðar.

Ég tel eins og ýmsir aðrir á undan mér að þetta sé líklega leysanlegt á grundvelli mengunarvarnareglugerðar og að sveitarstjórnin hafi þetta í hendi sér með kröfum sínum til starfsleyfisins að sómasamlega sé að málum staðið og að gerðar séu eins ítarlegar kröfur og gert var við útgáfu fyrra starfsleyfis. Ég treysti ráðherranum til að vera bakhjarl ef sveitarstjórnin sér fram á að þetta sé ekki leysanlegt nema með aðstoð hans og hann komi þá til móts við þær óskir. Ég tel þó að heilbrigðisyfirvöld í Reykjavík hafi fulla burði til að standa vel að málum eins og gert hefur verið hingað til.