Starfshættir í umhverfisnefnd

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 13:43:22 (5706)

1996-05-07 13:43:22# 120. lþ. 132.92 fundur 294#B starfshættir í umhverfisnefnd# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[13:43]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem er sett fram á störf umhvn. Ég tel óhjákvæmilegt að tekið verði á þessum málum, einnig með hliðsjón af því að fjölmörg önnur mál en hér hafa verið nefnd liggja fyrir öðrum þingnefndum þar sem mikið vantar á að menn gefi sér nægilegan tíma til að taka á málum. Í því sambandi vil ég t.d. nefna yfirferð efh.- og viðskn. yfir fjöldamörg mál sem liggja þar fyrir. Ég gæti nefnt fleiri mál til sannindamerkis um það að nú líður að þeim tíma að Alþingi fari að vinna illa. Nú líður að þeim tíma að menn gætu lent í því að vanda sig ekki nógu mikið. Nú líður að þeim tíma að menn gætu farið að samþykkja lög sem verði að leiðrétta strax á næsta þingi. Ætli það væri ekki skynsamlegt við þær aðstæður að sýna í lágmarki og í hófi skapandi tregðu þegar fljóta yfir borð þingmanna fleiri, fleiri þingmál og frv. frá ríkisstjórninni sem er knúið á um að verði afgreidd á tiltölulega mjög stuttum tíma oft mjög lítið vandað. Þess vegna vil ég taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram og skora á forustu þingsins að beita sér fyrir því að betur verði haldið utan um málin. Ég bendi á að samkvæmt starfsáætlun Alþingis á því að ljúka á miðvikudaginn kemur. Ég bendi á að þeirri starfsáætlun hefur ekki enn þá verið breytt. Enn þá liggur ekki fyrir forgangslisti ríkisstjórnarinnar. Þó að stjórnarandstaðan hafi óskað eftir þessum forgangslista þá liggur hann ekki enn þá fyrir. Það er því augljóst að þingstörfunum er stefnt í hnút og þann háska að menn vandi sig ekki nægilega mikið við afgreiðslu þingmála hér næstu daga.