Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 17:27:55 (5949)

1996-05-13 17:27:55# 120. lþ. 136.2 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[17:27]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að ef ekki verður tekinn í gegnum þingið núna sá bandormur sem fylgir þessu frv. þarf að gera breytingar á 22. gr. Ég hef margoft sagt í þessari umræðu að framgangskerfið á milli dósents og prófessors er mál sem háskólinn hlýtur að hafa mest að segja um og það mál tilheyrir bandorminum. Þetta hefur margoft komið fram.

Hv. þm. lagði fyrir mig fjöldann allan af spurningum. Ég tel að svör við þeim hafi þegar komið fram í þessari umræðu. Ég hef setið hér í 25 klukkutíma og hlustað á umræður um þetta mál og reynt að svara nýjum spurningum sem fram hafa komið. Hafi komið fram 20 spurningar hjá hv. þm. þá man ég ekki eftir neinni til viðbótar við vinnumatssjóðinn sem ekki hefur þegar verið svarað. Svo segir hv. þm. að þetta sé ekki málþóf af því að hún hafi ekki lesið upp öll bréfin. Ég get upplýst hv. þm. um að þetta er í fjórða skiptið sem lesið er upp bréf til að mynda frá Félagi háskólakennara, það er í fjórða skiptið sem þetta bréf er lesið upp hérna. Þetta veit hins vegar hv. þm. ekki af þeirri einföldu ástæðu að hv. stjórnarandstæðingar sitja í salnum þrír til fjórir í senn af því að umræðan er síbylja og nánast sama ræðan er flutt aftur og aftur. Hins vegar hef ég setið hérna nánast allan tímann og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Við getum alveg upplýst að þetta eru yfirleitt alltaf sömu ræðurnar aftur og aftur ef undanskilinn er fyrri partur ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. En aðfaraorð hans sem tóku einn og hálfan klukkutíma í gær voru um sögu evrópskra efnahagsmála. Það var út af fyrir sig ágætis innlegg en hafði ekkert með þetta frv. að gera.