Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 15. maí 1996, kl. 15:26:00 (6112)

1996-05-15 15:26:00# 120. lþ. 138.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 138. fundur

[15:26]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Nú er myndin að skýrast. Fyrst er búið til launakerfi á forsendum forstjóranna. Nú er sett í lög ákvæði þess efnis að þeir sem standa utan stéttarfélaga skuli í engu fara á mis við þau réttindi og þau kjör sem fólk hefur fengið eða áunnið sér eða barist fyrir í félagslegri réttindabaráttu. Þetta er gert til þess að lokka fólk út úr stéttarfélögum, til að grafa undan félagslegri réttindabaráttu og tryggja sérstaklega hag þeirra sem kjósa að hvíla í vinarklóm íslenska forstjóraveldisins sem þetta frv. gengur allt út á að styrkja og treysta í sessi. Ég segi nei.