Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 11:47:49 (6233)

1996-05-18 11:47:49# 120. lþ. 141.1 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[11:47]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því, vegna orða hv. þm. um 5. gr. frv. þar sem kveðið er á um heimildir til hæstv. ráðherra um að það megi skerða að hluta til aflaheimildir þeirra skipa sem fá úthlutaðan kvóta í úthafinu, að mér sýnist ef maður lítur til baka að það hafi verið sú meginregla sem alltaf hefur verið í gildi þegar menn voru að kvótasetja nýjar tegundir. Þá var það gert þannig að útgerðarmenn þeirra skipa þurftu að láta af sínu í þessum efnum. Ég vek t.d. athygli á því að frumherjunum sem áunnu sér rækjukvóta á síðasta áratug og öfluðu hans með því að leggja í áhættu, því að þessi atvinnugrein var á þeim tíma ákaflega áhættusöm og það þurfti að leggja í miklar fjárfestingar, þá var sagt: ,,Nú hafið þið tvo kosti. Annars vegar að vera í meginatriðum með úthafsrækjuskip og afsala ykkur þá``, að mig minnir ,,tveimur þriðju hlutum bolfiskskvótans ellegar að vera bolfiskveiðiskip og afsala ykkur þá um leið tveimur þriðju hlutum rækjukvótans`` að mig minnir, sem reynsla þeirra hafði gefið tilefni til að ætla að þeir ættu að fá. Svipaða sögu væri hægt að segja um grálúðuna og svipaða sögu væri auðvitað hægt að segja um innfjarðarrækjuna og ýmsa sérveiði. Ég tel því, virðulegi forseti, að það væri mjög sérkennilegt stílbrot ef ekki væri fylgt þeirri reglu sem hér er lögð til í 5. gr. frv. Ég tel þess vegna að það sé mjög í samræmi við þær hefðir, þær venjur, þá reynslu og þá háttu sem hafa verið hafðir á því að úthluta kvóta í nýjum tegundum sem ekki voru kvótasettar áður.