Varnir gegn mengun sjávar

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 12:31:39 (6240)

1996-05-18 12:31:39# 120. lþ. 141.4 fundur 385. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# frv. 61/1996, Frsm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[12:31]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. vegna frv. til laga um varnir gegn mengun sjávar. Umhvn. hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu, og Helga Jensson frá mengunarvörnum sjávar hjá Hollustuvernd ríkisins.

Frumvarpið felur í sér breytingar á lögum um varnir gegn mengun sjávar sem nauðsynlegar eru vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslendinga. Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu er snýr að því að taka af öll tvímæli um að íslensk lög um mengunarvarnir nái ekki einungis til íslensku efnahagslögsögunnar heldur einnig til starfsemi íslenskra skipa utan íslenskrar efnahagslögsögu. Í öðru lagi er um að ræða atriði sem nauðsynlegt er að breyta til að unnt sé að staðfesta OSPAR-samninginn um varnir gegn mengun hafrýmis Norður-Atlantshafsins. Einnig er um að ræða breytingar er lúta að því að tryggð verði samræmd viðbrögð við mengunaróhöppum á sjó, svo og notkun mengunarvarnabúnaðar. Þá felur frumvarpið einnig í sér heimild fyrir ráðherra til að setja gjaldskrá fyrir mengunarvarnabúnaðinn. Loks er um að ræða breytingar sem rekja má til flutnings mengunardeildar Siglingamálastofnunar ríkisins til Hollustuverndar ríkisins.

Umhvn. leggur til ákveðnar breytingar sem gerð er tillaga um á þskj. 948. Annars vegar er um að ræða breytingar sem gerðar eru með hliðsjón af breytingum sem nýsett lög um Siglingastofnun Íslands hafa í för með sér. Hins vegar er lagt til að felld verði niður heimild Hollustuverndar til að veita leyfi til að skipum eða loftförum verði varpað í hafið, en í frumvarpinu var lagt til að heimilt yrði að veita slíkt leyfi fram til 31. desember 2004.

Umhvn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem hér hefur verið gerð grein fyrir.