Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 12:35:14 (6241)

1996-05-18 12:35:14# 120. lþ. 141.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[12:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Þetta frv. er flutt til þess að mæta afleiðingum þeirra hörmunga sem yfir Vestfirðinga hafa dunið. Það er sjálfsagt mál og þarft. Þannig var brugðist við vanda Vestmannaeyinga á sinni tíð og þannig eiga borgarar þessa lands von á hjálp ef þeir lenda í skakkaföllum og hörmungum af völdum náttúrunnar. Einkenni þessarar lagasetningar er forvörnin, þ.e. ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir tjón, hindra missi eigna og mannslífa. Það er mjög skynsamlegt. Með þessu frv. er hlutverk forvarna enn fremur víkkað og ná þær nú yfir sérhverja náttúruvá en ekki bara ofanflóð. Það er til bóta og við það breytist eðli gjaldsins sem myndar forvarnasjóðinn. Það er nær því að vera tryggingagjald en ekki hreinn skattur þar sem flestir landsmenn geta orðið fyrir náttúruvá í víðasta skilningi.

Herra forseti. Með frv. þessu er gert ráð fyrir nýjum álögum á landsmenn. Það eru 400 millj. kr. álögur á húsnæði. Til samanburðar vil ég geta þess að sá fjármagnsskattur sem miklar umræður hafa snúist um á að gefa 800 millj. Þessi skattur er um 2.000 kr. á hverja íbúð, meðalíbúð, sem er brunatryggð fyrir 10 millj. kr. Það virðist ekki mikið en það kemur til viðbótar alls konar öðrum og vaxandi sköttum og öðrum álögum á íbúðarhúsnæði. Ég nefni holræsagjald í því sambandi. Þetta kann að virðast lítið en fólk sem er að basla við að greiða þungar afborganir af íbúðinni sinni, fasteignagjöld og skatta af launum, munar um það. Oft er ansi lítið eftir í buddunni til þess að standa straum af rekstri heimilisins, kostnaði við skólagöngu barna, fatnað og annað slíkt.

Herra forseti. Að sjálfsögðu þarf að skoða nákvæmlega hvað bæta skal. Gæta þarf fyllstu hagsýni og sparsemi við þær forvarnir sem gripið er til. Það er auk þess spurning hvort eigandi eignanna sem vernda skal eigi engan þátt að taka í kostnaðinum við að verja eigur sínar. Þá þarf einnig að kanna áhrif framkvæmdanna í sambandi við forvarnirnar á hag sveitarfélaganna sem væntanlega batnar að einhverju leyti þegar svo miklar framkvæmdir koma í plássið.

Herra forseti. Enn einu sinni mætum við sömu aðferð. Það er gott mál sem á að fara að fjármagna og enn á ný er gripið til skattálagna. Þetta er mjög hættulegt. Í hvert einasta skipti sem við stöndum frammi fyrir góðu máli þá er aukin skattheimta á landslýð og atvinnuvegina. Og svo reynist erfitt og nánast ómögulegt að aflétta þessum sköttum. Afleiðingin er sú að það er stöðugt þyngri og þyngri skattáþján á landslýð vegna þess að alltaf koma upp einhver góð mál með reglubundnum hætti. Við horfum á að samkeppnisstaða þjóðarinnar hefur beðið mikla hnekki og við erum í vandræðum með að halda fólki í vinnu hér á landi vegna of lágra launa og of mikillar skattáþjánar sem hvort tveggja hangir saman.

Herra forseti. Ég hef miklar efasemdir um þessa aðferðafræði. Vandinn liggur kannski í því að starfsemi þingsins er klofin í tvennt. Við erum annars vegar með fjárln. sem sér um útgjöldin og dælir út peningum í alls konar góð verkefni. Hins vegar erum við með efh.- og viðskn. sem sér um að afla tekna og mismunurinn á tekjunum og gjöldunum er halli á ríkissjóði sem hefur verið geigvænlega mikill, svo mikill að við borgum núna 50 millj. á dag. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, við borgum 50 millj. á dag í vexti af lánum ríkissjóðs vegna skuldasöfnunar ríkissjóðs. Þetta er þróun sem við megum ekki láta ganga lengra. Við verðum að spyrna við fótum og skera niður útgjöldin og líta á þau verkefni sem ríkið hefur tekið að sér. Hvort þau séu öll jafnbráðnauðsynleg og þau sýnast vera, hvort einhvers staðar sé kannski um að ræða oftryggingu eða vannýtingu á fjármunum eða misferli við notkun fjármuna. Þetta þarf að fara að skoða. Ég batt miklar vonir við þá endurskoðun á Atvinnuleysistryggingasjóði sem boðuð var en hefur ekki náð fram að ganga. Þar erum við að greiða gífurlega fjármuni. Við greiðum 4 milljarða á ári, 10 millj. á dag í atvinnuleysisbætur og það er talið að eitthvað af þessu fé sé bæði misnotað og ofnotað, þ.e. að fólk þiggi atvinnuleysisbætur sem ekki er raunverulega á vinnumarkaði og hins vegar fólk sem er í vinnu. Þetta þarf að koma í veg fyrir og það sem þarf að fara að gera núna er að horfa á útgjöld ríkissjóðs nákvæmlega og athuga hvort ekki megi í stað þess að leggja stöðugt á nýjar skattálögur í sambandi við góðu málin skera niður einhver önnur mál sem eru hætt að vera góð og mæta fjármögnuninni þannig. (Gripið fram í: Með landbúnaðinum?) Til dæmis, já. Eða þá Atvinnuleysistryggingasjóði eins og ég nefndi áðan og hv. þm. hefur þá ekki tekið eftir. Við verðum að fara að snúa við blaðinu og ég verð að segja að mér finnst það mjög hættuleg þróun að í hvert skipti sem við komum með gott mál inn í þingið sjá menn engin önnur úrræði en að bæta við skattlagninguna í stað þess að skera niður á móti. Það virðist alveg óhugsandi.