Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 12:43:59 (6243)

1996-05-18 12:43:59# 120. lþ. 141.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[12:43]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þetta er vissulega gott mál, eins og ég undirstrikaði líka sjálfur. Það er bara spurningin um skattálögurnar sem endalaust og stöðugt er bætt við. Það er alltaf verið að auka í þann pott. Það er ekki spurning að þetta er gott mál. Ég efa það ekki og það er eflaust hagkvæmt svo maður tali nú ekki um mannslífin sem eru óbætanleg. Það er eflaust hagkvæmt að fara í þessar forvarnir eins og á mörgum öðrum sviðum. Við getum líka farið í forvarnir í sambandi við reykingar og vímuefni og áfengisneyslu og annað slíkt. Erum að gera það. En það sem ég set spurningarmerki við er sú aðferðafræði að vera stöðugt að auka skattana. Af hverju er ekki litið á skattlagningu húsnæðis og athugað hvort ekki megi taka eitthvað af þeim sköttum og gjöldum af sem búið er að hlaða þar á til þess að minnka skattáþjánina á fólki? Allt er þetta náttúrlega spurningin um það að ná inn tekjum til þess að standa undir þessum miklu útgjöldum og þá þarf að fara að spyrja sig að því: Eru öll þessi útgjöld sem ríkissjóður stendur undir bráðnauðsynleg? Ég vil setja stórt spurningarmerki við það og þá sérstaklega varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn.