Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 14:36:40 (6262)

1996-05-18 14:36:40# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[14:36]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson kom hingað og talaði með ljóma hins frelsaða í augum sínum því eins og þingheimur veit, þá kom hann inn á þing 1978 sem stórnautnamaður á sviði tóbaks en hefur tekist með ærnu erfiði og miklum svitaköstum að varpa því oki af sínum grönnu herðum. Ég óska honum til hamingju með það. Ég vissi hins vegar ekki að hv. þm. hefði svona mikla þekkingu sem stappar nærri því að vera djúp reynsla, af neyslu munntóbaks.

Nú veit ég að vísu að hann er í þeim stjórnmálaflokki sem stundum er kenndur við vaðmál og sauðskinn en ég taldi að þeir væru löngu hættir að skera rjól upp í sig þó að þeir taki að vísu upp í sig stundum og allt of mikið oft.

Hann benti hins vegar á mjög augljósa vankanta á þeirri grein sem ég hef sérstakan fyrirvara við í þessu frv., þ.e. grein 8.5., en þar er lagt bann við því að flutt verði inn, framleitt og selt fínkornótt neftóbak og reyndar munntóbak líka. Ég er á móti hvoru tveggja, herra forseti. Ég tel að það sé engum blöðum um að fletta að þetta svokallaða fínkornótta neftóbak og reyndar fínkornótt munntóbak líka sé mun hættuminna en reyktóbak. Enginn sem kom til fundar við nefndina og enginn vísindamaður sem ég hafði samband við og enginn læknir heldur gat fært rök að hinu gagnstæða. Ég tel að það sé alveg ljóst að fínkornótt neftóbak og munntóbak sé ekki eins hættumikið og reyktóbak. Ég tel að það fylgi einhver hætta neyslu þessa tóbaks, sérstaklega fínkornótta neftóbaksins en vek athygli á því að þegar formaður nefndarinnar sem af vísindalegum aga ætlaði sér að komast til botns í þessu máli reyndi eins og hann gat að róa fyrir allar vísindalegar víkur, reyndi að fá fram fræðileg gögn sem sýndu fram á skaðsemi þess að taka tóbak í nef eða munn, þá hafði hann ekki erindi sem erfiði. Þeir fulltrúar Hjartaverndar og Krabbameinsfélagsins sem fengu þessi tilmæli sérstaklega gátu ekki bent á slíkar rannsóknir.

Þegar upp var staðið stóð eftir að það var talið að neysla tóbaks af þessu tagi væri sérstök tíska hjá ungu fólki og gæti þar af leiðandi fengið menn til þess síðar að fara að neyta reyktóbaks. Ég get alveg fallist á að það eru viss rök. En ef menn ætla hins vegar að fylgja rökfræðinni út í ystu æsar, þá liggur þessi staðreynd fyrir: Reyklausa tóbakið er hættuminna en reyktóbakið. Ef menn ætla að fara að banna það sem er hættuminna, hvers vegna banna þeir ekki það sem er hættumest, sjálft reyktóbakið? Ef menn ætla að banna fínkornótt neftóbak, þá ættu þeir líka að banna sígaretturnar, banna reyktóbakið. Ég tel að hér sé ákveðin rökvilla á ferðinni. En ég skil vel að menn hafa fært þessa kröfu fram af nokkurri hörku um að fínkornótta neftóbakið verði bannað. Ég vek hins vegar athygli á því að sala þess hefur aukist úr 50--60 kg þegar byrjað var að flytja það inn fyrir 10 árum og hún náði mest held ég 1.700 eða 1.800 kg. fyrir nokkrum árum en nú er hún aftur á niðurleið.

Hv. þm. Svavar Gestsson varpaði til mín nokkrum greindarlegum spurningum um munntóbakið. Það er sjálfsagt að ég svari því. Það er þannig að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson og reyndar kollegar okkar, þeir Guðni Ágústsson og Guðmundur Hallvarðsson, þ.e. allur karlpeningurinn í heilbr.- og trn. er með fyrirvara að því er varðar munntóbakið og við hv. þm. Ögmundur Jónasson höfum lagt fram tillögu þar sem gert er ráð fyrir því að ekki verði bannað að framleiða eða selja munntóbak hér á Íslandi, hvað þá að flytja það inn.

Hv. þm. Svavar Gestsson spyr: Hvað er munntóbak? Hann bendir á augljósan veikleika á frv. eins og það kemur fram af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Munntóbak er ekkert sérstaklega skilgreint þar og hann varpar til mín þessari spurningu: Hvað ef Íslendingur vildi t.d. taka það sem við köllum stundum gamla íslenska ruddann, þ.e. gamla íslenska neftóbakið og setja það í vörina eins og hundruð manna gera núna til sjávar og sveita? Og hann spyr: Eru þeir þá ekki að brjóta lögin? Nei, herra forseti. Þeir eru ekki að brjóta lögin og þarf ekki að nýta hið nýja fangelsi að Litla-Hrauni fyrir slíka menn. Ef þeir hins vegar selja það eða framleiða það eða flytja það inn sem neftóbak en í þeim tilgangi að taka það í vörina, þá er alveg ljóst að þeir eru að brjóta lögin. (SvG: Ef þeir gera það.) Nei, sennilega ekki. En þarna er augljós veikleiki á lögunum vegna þess að það er auðvitað þannig að ef neftóbakið verður bannað eins og liggur fyrir í frv. þá munu menn bara fara þá leið að nota neftóbakið gamla. Hvers vegna, herra forseti, er þá verið að fara þá leið að banna munntóbak og fínkornótt neftóbak en ekki gamla íslenska ruddann sem nú er framleiddur og seldur í miklu magni? Ég held að yfir 10 þús. kg séu seld af honum. Ástæðan er sú að það er hefðbundið íslenskt tóbak sem fjöldi manna neytir í dag og það er ekki hægt að banna það. Það er einfaldlega ekki hægt að banna það.

Veltum þá aðeins fyrir okkur munntóbakinu. Hvers vegna er verið að banna munntóbakið? Eini rökstuðningurinn er sá að það sé tilskipun frá Evrópusambandinu um að banna slíkt. Tilskipunun er hins vegar ekki þannig að það eigi fortakslaust að banna allt munntóbak heldur einungis hið finkornótta. En frumvarpshöfundar fara ekki þá leið heldur banna þeir allt munntóbak, líka rjólið því að það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en svo en að allt munntóbak sé bannað. Hvað eru þetta margir einstaklingar? Samkvæmt innflutningstölum eru þeir sárafáir. Það er deyjandi hópur virðist manni sem er að nota munntóbakið. Fyrir 10 árum voru flutt inn 50 kg af munntóbaki. Á síðasta ári voru flutt inn 25 kg af munntóbaki. Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvaða máli þetta örlitla magn sem er að verða að engu skiptir. Þessi hópur er að hverfa. Hann skiptir engu máli. Ég læt hvorki Evrópusambandið né nokkurn annan taka þetta frá slíku fólki, sér í lagi þegar við höfum jafnframt þá röksemdafærslu að það á að að leyfa gamla hefðbundna íslenska neftóbakið. Það eru svo margir sem nota það að það yrði ókleift að banna það.

Veltum því þá fyrir okkur. Er þetta tóbak verulega hættulegt? Ég gerði það sem heiðarlegum þingmanni sæmir. Ég lagðist í rannsóknir og ég varð mér úti um tiltölulega nýleg vísindaleg gögn bæði frá Svíþjóð og frá Bandaríkjunum. Í tímaritinu Nature eru birtar merkar vísindalegar ritgerðir og einungis þær ritgerðir sem með einhverju móti eru verulega góðar eða brjóta í blað. Þar birtu nýlega þeir Philip Cole og Brad Rotu sem eru sérfræðingar og þekktir vísindamenn við munnsjúkdómafræðiskor tannlæknadeildar heilsufræðideildar háskólans í Alabama í Bandaríkjunum. Þeir benda á að það sé talið að eina hættulega afleiðing reyklauss tóbaks --- og þeir eiga við munntóbak --- sé krabbamein í munnholi. Þeir reiknuðu út lífslíkur þriggja hópa 35 ára gamalla hvítra karlmanna. Einn hópurinn notaði ekkert tóbak, einn hópurinn reykti sígarettur og þriðji hópurinn notaði reyklaust tóbak, þ.e. munntóbak. Niðurstaða þeirra sem er byggð á viðamiklum rannsóknum er sú að þeir sem reykja lifa átta árum skemur en þeir sem neyta einskis tóbaks. En þeir sem nota munntóbakið lifa jafnlengi og þeir sem neyta einskis tóbaks, þ.e. 15 dögum skemur. Þannig að hættan sem hefur verið talin tengjast þessu er a.m.k. ekki líkt því eins mikil og menn hafa talið.

[14:45]

Ég fékk líka upplýsingar, herra forseti, um að í Svíþjóð hefðu farið fram nokkrar rannsóknir á þessu. Þar hefur munntóbak verið pólitískt deiluefni og það lá við borð að það sprengdi sjálft Evrópusambandið því það kom náttúrlega ekki til mála að Svíar gengu í Evrópusambandið ef þar yrði bannað munntóbak eða snúss eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Menn fengu þá undanþágu á þeirri forsendu að þar væri um að ræða einhvers konar hefðbundið munntóbak. Það munntóbak sem ég hef séð í Svíþjóð er nákvæmlega munntóbakið sem menn ætluðu að fara að banna hérna, þ.e. í þessu sem heitir á máli stofnananna grobbrev, þ.e. bréf með munntóbakinu í. Þessar rannsóknir sem fóru fram við krabbameinsdeildina í Södersjukhuset í Stokkhólmi eru svo nýjar að það er ekki búið að birta þær að öllu leyti. Við höfðum því samband við Freddy Lewin sem er yfirlæknir og er umsjónamaður þessara rannsókna. Hann segir að þessar rannsóknir hafi miðað við svonefnt sænskt snúss (munntóbak). Hann greinir frá því að 15% karlmanna í Svíþjóð noti eða hafi notað snúss. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Það hefur lengstum verið álit lækna að slíkt hafi ekki valdið aukinni hættu á krabbameini. Þrátt fyrir það hafa komið fram verulegar áhyggjur af krabbameinsvaldandi áhrifum snúss einkum með tilliti til þeirra krabbameinsvaldandi efna sem í því eru þrátt fyrir allt. Af þessu tilefni höfum við gert viðamikla rannsókn á tveim aðskildum svæðum í Svíþjóð (í Stokkhólmi og syðra sjúkrahúsaumdæminu). Niðurstaðan er sú að ekki er talið víst að um sé að ræða marktækt aukna áhættu á snússnotkun ólíkt því sem á við um reyktóbak og/eða áfengi.``

Hann segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Þótt efnið leyfi ekki viðamikla greiningu á undirhópum höfum við samt skoðað undirhópa án þess að finna nokkuð sem bendir til aukinnar áhættu hvort sem er varðandi það magn af snússi sem neytt er, hve oft þess er neytt, á hvaða aldri snússnotkun hófst eða í hve mörg ár sjúklingarnir hafa neytt þess. Þessar niðurstöður koma heim og saman við aðra rannsókn sem Jonas Hardel á héraðssjúkrahúsinu í Örebro gerði á sjúklingum í nyrðra sjúkrahúsumdæminu. Það svæði er afar athyglisvert þar eð snússnotkun er þar verulega miklu tíðari en í öðrum hlutum Svíþjóðar.``

Þetta, herra forseti, þykja mér vera rök fyrir því að það sé ekki hægt fyrir hið háa Alþingi að fara að banna þeim sem að nú neyta 25 kg samanlagt af munntóbaki. Ég tel það fráleitt og þess vegna lýsi ég yfir andstöðu minni við þann hluta frv. og mun greiða atkvæði gegn bæði því að munntóbakið sé haft inn í greininni og síðan gegn greininni í heild.