Tóbaksvarnir

Laugardaginn 18. maí 1996, kl. 14:49:28 (6263)

1996-05-18 14:49:28# 120. lþ. 141.6 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 141. fundur

[14:49]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði svo sem ekki að halda hér neina ræðu að öðru leyti en því að bæta því við að mér finnst sjálfsagt að vera með góð tóbaksvarnalög en mér finnst hins vegar að þetta munntóbaksmál beri keim af ákveðinni forræðishyggju, ég segi það alveg eins og er. Það kemur ekki við neinum viðhorfum til þess hvort menn telja að þetta sé gamall og góður eða gamall og vondur siður eftir atvikum. Það skiptir ekki máli. En mér finnst að menn eigi í tóbaksvarnalögum að fjalla um heilsu viðkomandi einstaklinga en líka náttúrlega umhverfið, m.a. mengunina sem reykurinn veldur. En þegar komið er að því að menn eru að taka á þessum munntóbaksmálum eins og hér er gert ráð fyrir þá er það nokkuð langt gengið. Það er auðvitað fyndið að ekki sé meira sagt að þessi fyrirskipun um forræðishyggju skuli koma frá Brussel. Það er satt að segja nokkuð athyglisvert, hæstv. forseti. En mér sýnist hins vegar út af því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að þetta ákvæði sé líka óframkvæmanlegt þannig að ég mundi telja skynsamlegt að líta aðeins á þetta betur af hv. þingnefnd en alls ekki að láta þetta mál samt stöðva frv. því ég óttast það. Og mér þætti það slæmt ef frv. yrði stöðvað því þetta er hið mesta þjóðþrifamál eins og það liggur hér fyrir.