Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 15:35:47 (6272)

1996-05-20 15:35:47# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[15:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Skýrsla sú sem embætti lögreglustjórans í Reykjavík hefur tekið saman að beiðni forsrn. og upprunalega að beiðni hv. þm. undir forustu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og er hér til umræðu fjallar sem kunnugt er annars vegar um útbreiðslu fíkniefna og ýmis málefni er tengjast neyslu þeirra og hins vegar um ofbeldi og ýmis atriði er því tengjast. Ég vil byrja á að þakka lögreglustjóra og þeim er að gerð skýrslunnar komu fyrir að bregðast skjótt við beiðni um samantekt skýrslunnar sem er fróðleg þrátt fyrir að hún kunni að bera þess merki að vera unnin á skemmri tíma en æskilegt hefði verið.

Það einkennir alla umræðu um fíkniefnamál að erfitt er að afla traustra upplýsinga um innflutning fíkniefna, sölu þeirra og neyslu. Líkt og fram kemur í skýrslunni byggja áætlanir um fjölda neytenda, umfang neyslu, aldurskiptingu neytendahópsins og fleira oft á afar takmörkuðum upplýsingum en þrátt fyrir það er það álit þeirra sem starfa að fíkniefnamálum, jafnt lögreglu sem þeirra er sinna forvörnum og meðferðarstarfi, að neysla fíkniefna hafi almennt aukist á undanförnum árum. Á sama tíma hefur það gerst sem hlýtur að telja sérstakt áhyggjuefni að aldur þeirra sem efnanna neyta hefur farið lækkandi og er að líkindum mest um slíkt hjá ungu fólki á aldrinum 20--24 ára. Þessar niðurstöður renna stoðum undir umræðu sem mikið bar á í vetur um stóraukna neyslu ungs fólks á fíkniefnum m.a. með tilkomu áður óþekktra efna sem virðast hafa höfðað sérstaklega til ungs fólks og unglinga á aldrinum 16--20 ára sem ekki höfðu áður neytt slíkra efna. Sem betur fer hafa fjölmiðlar birt fréttir af því að þeir aðilar sem gerst til þekkja telja að nú á vormánuðum hafi dregið mikið úr neyslu þessara efna á ný og vonandi veldur þar aukin opinber umræða og breytt hugarfar unglinganna sjálfra.

Berlega kemur fram í skýrslunni að fíkniefnaneysla er ekki einangrað vandamál þeirra sem fíkniefnanna neyta og áhrif neyslunnar eru víðtæk. Víst er að neytendur bíða bæði andlegt og líkamlegt heilsutjón af neyslunni og hún veldur þeim vanlíðan, aðstandendur neytenda líða fyrir neysluna og viðbúnaður samfélagsins til að bregðast við henni og afleiðingum hennar er verulegur.

Eins og tíundað er í skýrslunni fylgja fíkniefnaneyslu margs konar neikvæð félagsleg áhrif og í henni kemur fram að allar líkur séu á að margir standi undir kostnaði við neyslu fíkniefna með auðgunarbrotum. Eins og fram kemur í síðari hluta skýrslunnar hvetur neysla fíkniefna til ofbeldis og þá ekki eingöngu í auðgunarskyni. Menn eru einhuga um að mikið megi til vinna að draga úr neyslu fíkniefna og ríkisstjórnin hefur rætt um það með hvaða hætti beri að stefna að því að stemma stigu við fíkniefnavandanum. Vandinn er auðvitað ekki nýr af nálinni og það er rétt að geta þess að um árabil hefur farið fram ágætt forvarnastarf í grunn- og framhaldsskólum landsins og aðrir aðilar svo sem sveitarfélög, lögreglan og félagasamtök margvísleg hafa með ýmsum hætti tekið þátt í forvarnastarfi sem ótvírætt er að hefur skilað árangri.

Það er hins vegar ljóst að enn þarf að leggja áherslu á þetta starf og vil ég stuttlega gera grein fyrir því hvað ríkisstjórnin hefur gert til að svo megi verða. Það er fyrst til að nefna að ríkisstjórnin ákvað á sl. ári að veita 50 millj. kr. í sérstakan forvarnasjóð en markmiðið með stofnun hans var að ná betri yfirsýn yfir fjárveitingar til forvarnamála og tryggja þar með betri nýtingu þess fjár sem til þeirra rennur. Verður fé ráðstafað úr sjóðnum í fyrsta skipti á allra næstu dögum.

Líkt og fram kemur í 24. tölulið fyrri hluta skýrslunnar ákvað ríkisstjórnin í byrjun þessa árs að skipa nefnd til að skoða ýmsa þætti er að forvarna- og meðferðarmálum lúta. Hlutverk þessarar nefndar sem starfar á vegum dóms- og kirkjumrn. er m.a. að athuga eftirtalda þætti:

Hvort herða beri viðurlög við dreifingu ávana- og fíkniefna. Hvort endurskoða þurfi meðferð ákæruvalds og dómstóla á brotum vegna ávana- og fíkniefna. Hvernig efla megi löggæslu og önnur úrræði gegn dreifingu neyslu ávana- og fíkniefna. Hvernig efla megi forvarnir á sviði ávana- og fíkniefna, þar á meðal með fræðslu í skólum. Hvernig bæta megi úrræði og leita nýrra leiða til að endurhæfa ungmenni sem leiðst hafa út í neyslu ávana- og fíkniefna og einnig að skoða meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem í tengslum við ávana- og fíkniefnaneyslu hafa leiðst út í afbrot og fengið refsidóma vegna þeirra.

Þessi nefnd hefur verið að störfum undanfarna mánuði og hefur þeim miðað vel. Stefnir nefndin að því að skila ráðherra tillögum sínum um næstu mánaðamót og verða þær þá kynntar í ríkisstjórn og síðan opinberlega.

Í umræðu um fíkniefnamál á undanförnum árum hefur komið til tals að endurskoða þurfi verkaskiptingu ráðuneyta á sviði forvarna og meðferðarmála. Um árabil var þörf á samstarfi og samráði milli ráðuneytanna svarað með því að starfrækja sérstaka samstarfsnefnd ráðuneytanna um ávana- og fíkniefnamál og gafst það ágætlega. Á liðnu ári þótti hins vegar ástæða til að endurskoða þessa skipan mála og leiddi það til þess að í byrjun þessa árs var skipuð sérstök yfirnefnd fjögurra ráðuneyta sem að forvarna- og meðferðarmálum koma, þ.e. heilbr.- og trmrn., menntmrn., dóms- og kirkjumrn. og félmrn. Verkefni þeirrar nefndar er að fylgjast með vinnu sem hvert þessara ráðuneyta hefur með höndum og samræma verkefni og aðgerðir þeirra á sviði ávana- og fíkniefnamála og að koma í veg fyrir skörun viðfangsefna. Jafnframt er nefndinni ætlað að skoða verkaskiptingu milli ráðuneyta og gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um framtíðarfyrirkomulag hennar. Þess er jafnframt að vænta að skerpt verði á framangreindum markmiðum eftir að ríkisstjórnin hefur fengið til umfjöllunar tillögur nefndar þeirrar sem áður var minnst á og starfar á vegum dóms- og kirkjumrn. Skýrslubeiðendur spurðu sérstaklega um það hvort uppi væru áform um að fela einu ráðuneyti ábyrgð þessa málaflokks en ef litið er til hefðbundinna verkaskiptinga ráðuneytanna og þeirra verkefna sem þau sinna má ljóst vera að forvörnum og meðferðarmálum verður ekki sinnt af einu ráðuneyti svo að vel geti verið.

Hins vegar er mikilvægt og að því er unnið eins og áður sagði, að verklag verði svo skýrt sem auðið verði og að samvinna milli ráðuneyta styrki þau í að ná sameiginlegum markmiðum. Ég tel mikilvægt að vandað sé til þessa starfs og að í því geti falist vísir að skýrari stefnumótun stjórnvalda á þessum vettvangi þar sem jafnframt verði lagður grundvöllur fyrir samstarf við sveitarfélög, frjáls félagasamtök og aðra er að þessum málum vinna. Reynslan af slíku samstarfi er jákvæð og má þar sem dæmi nefna að ríkisvaldið hefur síðan í mars sl. unnið í samvinnu við Reykjavíkurborg að málefnum vímuefnavarnaskóla sem er farandskóli sem heimsótt hefur alla grunnskóla Reykjavíkurborgar og haldið dagnámskeið fyrir kennara og aðra starfsmenn um áfengis- og vímuefnavarnir og annað forvarnastarf í skólum. Að þessu starfi kom auk Reykjavíkurborgar og ríkisins, lögreglustjóraembættið í Reykjavík, Barnaverndarstofa, Fræðslumiðstöð í fíknivörnum, SÁÁ og Rauði krossinn. Fyrirhugað er að nefnd fjögurra ráðuneyta sem áður er vikið að beiti sér fyrir því að vímuefnavarnaskólinn heimsæki alla grunnskóla landsbyggðarinnar þegar á næsta skólaári. Er skólanum einungis ætlað að vera fyrsta skrefið í frekari vinnu innan grunnskólans á þessu sviði með það fyrir augum að hér verði vímuefnalaus grunnskóli árið 2000.

Herra forseti. Neysla fíkniefna er alvarlegt vandamál og væntanlega eru flestir mér sammála um að fíkniefnaneysla sé ein alvarlegasta meinsemdin í okkar þjóðfélagi. Ég tel með tilliti til þess sem á undan er rakið að stjórnvöld hafi fyrir sitt leyti brugðist við þeim vanda sem menn standa frammi fyrir og markað ákveðinn farveg fyrir það starf sem ég hef hér lýst. Ástæða er til þess að ætla að þetta starf muni skila sér í betra og víðtækara forvarnastarfi en verið hefur og að meiri festa skapist varðandi meðferðarúrræði og aðstoð við fíkniefnaneytendur. Það er hins vegar alveg ljóst að það er ógerningur að vinna bug á þessum vanda nema um það náist mjög víðtæk samvinna milli stjórnvalda, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka, skóla og samtaka nemenda og síðast en ekki síst gegna heimilin sjálf hér lykilhlutverki. Það er hægt að veita ráð og aðstoð af hvers kyns tagi af hálfu hins opinbera en hætt er við að fátt verði til varna ef athygli og áhugi heimila og forráðamanna ungs fólks á mótunarstigi er ekki fyrir hendi.