Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 15:46:02 (6273)

1996-05-20 15:46:02# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[15:46]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsrh. fyrir þá skýrslu sem hér er lögð fram en af skýrslunni er ljóst að viðskipti með fíkniefni eru mun skipulagðari nú en áður og aðgengi að efnunum orðið greiðara. Að auki hefur fíkniefnaneytendum fjölgað og aldur neytenda hefur lækkað og ekki óalgengt að fíkniefnaneyslan nái niður í 14--15 ára aldurshópinn. Það er líka athyglisvert í skýrslunni hve margir í aldurshópnum 15--19 ára hafa fengið dóma vegna neyslu fíkniefna sem sýnir okkur glöggt hversu alvarlegur þessi vandi er.

Það sem vakti sérstaka athygli mína í þessari skýrslu var hversu áhætta fíkniefnasala virðist lítil við að flytja inn og dreifa fíkniefnum þar sem refsingar og sektir sem beitt er ef þeir nást eru vægar. Þetta tel ég mikla brotalöm og standa raunar í vegi fyrir árangursríkum aðgerðum til að sporna við innflutningi, sölu og dreifingu fíkniefna. Þannig kemur í ljós samkvæmt þessari skýrslu að fyrir innflutning á 1 kg af hassi megi vænta þriggja mánaða fangelsisvistar en hámarksrefsingu sem er 10 ára fangelsi hefur aldrei verið beitt. Þannig virðist áhættan vera lítil sem engin þegar sá sem flytur inn 1 kg af hassi á einungis von á því að fá þriggja mánaða dóm verði hann gripinn með fíkniefnin, en verulegan ágóða ef hann sleppur. Söluverðmæti 1 kg af hassi er 1,5 millj. kr.

Það vakti líka athygli mína að í yfirliti yfir uppkveðna dóma kemur fram að á árunum 1991--1995 voru kveðnir upp 84 dómar þar sem einnig var kveðið á um sektargreiðslu og námu þær alls aðeins 6 millj. kr. 6 millj. í sektargreiðslur á fimm árum en á tíu ára tímabili var heildarverðmæti upptækra fíkniefna 350 millj. kr. sem áætlað er að sé aðeins 10% af því sem er í umferð. 6 millj. í sektargreiðslur á fimm ára tímabili vegna 84 dóma, herra forseti. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort að hann telji ekki að endurskoða þurfi refsirammann og beita þyngri refsingum og viðurlögum við innflutning, dreifingu og neyslu fíkniefna. Það segir sig sjálft að gífurlegar fjárhæðir fara hjá neytendum í kaup á fíkniefnum en áætlað er að meðalneytandi neyti fíkniefna fyrir um 500 þús. kr. á ári eða um 40 þús. kr. að meðaltali á mánuði. Þegar haft er í huga að stór hluti neytenda hefur framfærslu sína eingöngu af ýmiss konar bótum og er lítið á vinnumarkaðnum og margir alveg atvinnulausir þá sjá allir að bein tengsl eru á milli þjófnaða, innbrota og annars ofbeldis í þjóðfélaginu og fíkniefna. Margt sem kemur fram í þessari skýrslu sem staðfestir það. Dökku hliðar fíkniefnaneyslunnar eru vissulega líka fleiri en hér hefur verið lýst og m.a. kemur glögglega fram í þessari skýrslu að fjöldi þeirra sem bíða varanlegt heilsutjón vegna ávana- og fíkniefnaneyslu skiptir a.m.k. nokkrum hundruðum. Alls voru 396 bráðalegur á Ríkisspítölunum árið 1994 vegna ávana- og fíkniefnaneyslu. Hlutfall kvenna sem lagðar eru inn á slysadeild hefur einnig hækkað mjög en þær eru nú um helmingur þeirra sem lagðar eru inn vegna alvarlegustu áverkanna.

Þessi skýrsla sýnir því ljóslega að þróun fíkniefnaneyslu og ofbeldis í þjóðfélaginu hefur farið á verri veg á umliðnum árum sem sýnir að við verðum saman, stjórn og stjórnaraandstaða og þeir sem að málum þessum vinna, að gera nú þegar sérstakt og skipulagt átak gegn þessum mesta bölvaldi þjóðarinnar. Samhliða er mikilvægt að hafa í huga að of mikið hefur verið gert af því að heimfæra fíkniefna- og ofbeldisvandamálin yfir á ungmennin upp til hópa sem er vitaskuld rangt því alvarlegt ofbeldi og fíkniefnaneysla er einungis bundin við mikinn minni hluta ungmenna.

Herra forseti. Alvarlegasta og hörmulegasta hlið fíkniefnaneyslunnar eins og fram kemur í þessari skýrslu er að þeir sem neyta fíkniefna hafa sterka tilhneigingu til sjálfsvíga en alls höfðu 30% þeirra sem handteknir voru vegna fíkniefnamála fyrstu fjóra mánuði ársins 1995 gert tilraun til sjálfsvígs. Vissulega er þessi sorglega og dökka hlið fíkniefnaneyslunnar afar vandmeðfarin í umræðunni en við getum varla leitt hana hjá okkur. Við komumst heldur ekki hjá því að líta til orsaka þess vanda að börn og ungmenni í vaxandi mæli ánetjast fíkniefnum. Það er vafalaust efni í aðra umræðu hér á hv. Alþingi því orsakasamhengi milli vaxandi fíkniefnaneyslu og ofbeldis í þjóðfélaginu og mikilla þjóðfélagsbreytinga á sl. einum til tveimur áratugum er augljós. Áberandi er upplausn fjölskyldna, vaxandi erfiðleikar og álag við framfærslu heimila og þyngri framfærslubyrði svo og vaxandi atvinnuleysi og aukin gjaldþrot heimila í landinu. Má í þessu sambandi nefna að í könnun sem gerð var 1994 kemur fram að 75% aðspurðra sögðu að ástæða aukins ofbeldis og fíkniefnaneyslu væru erfiðar heimilisaðstæður. Við sjáum líka nær daglega í blöðum hvernig innbrot, þjófnaður og ofbeldi vex dag hvern í þjóðfélaginu og ofbeldi virðist oft beitt af litlu tilefni. Auk þess hafa aðferðir og áverkar vegna ofbeldis orðið alvarlegri en áður. Þessi þróun hefur ekki bara orðið samfélaginu dýr í aukinni félags- og heilsufarslegri þjónustu heldur kostað heill og hamingju þúsunda fjölskyldna í landinu.

Herra forseti. Það sem vekur sérstakan óhug í þessari skýrslu er yfirlit yfir haldlögð fíkniefni sl. 10 ár sem metin eru alls að verðmætum á rúmar 350 millj. kr. Sé notuð sama viðmiðun og erlendis eins og segir í skýrslunni að hald sé lagt á um 10% þeirra efna sem koma inn í landið þá má ætla að áætlað verðmæti fíkniefna sem flutt hafi verið til landsins sl. 10 ár sé um 3,5 milljarðar kr. Þetta vekur vissulega upp áleitnar spurningar sem engin svör fást við í þessari skýrslu. Hvaðan kemur allt þetta fé til að fjármagna fíkniefnaneysluna? Hefur það verið sérstaklega og markvisst kannað og farið ofan í saumana á því hvort fjársterkir einstaklingar standa að baki ólöglegum innflutningi fíkniefna og noti hin svokölluðu burðardýr til að koma þeim til landsins? Er ástæða til að ætla með tilliti til þess sem haldið er fram í skýrslunni að hér hafi þróast skipulagður fíkniefnamarkaður, að net fíkniefnamarkaðarins sé svo þrautskipulagt hér á landi að hér hafi að einhverju leyti fest rætur einhverjir mafíuhringir sem skipuleggja innflutning á fíkniefnum til landsins? Miðað við hve fíkniefnamarkaðurinn er orðinn skipulagður og hve neyslan hefur aukist er varla hægt að útiloka að við séum flækt inn í net erlendra fíkniefnahringa sem tengist hér á landi fjársterkum aðilum sem hvergi koma sjálfir nærri innflutningi eða dreifingu á efnunum en nota til þess svokölluð burðardýr eða fíkniefnaneytendur til að flytja þau til landsins og dreifa. Hvernig er rannsókn mála háttað þegar hin svokölluðu burðardýr eru gripin sem kannski eru fórnarlömb fjársterkra aðila sem hugsanlega fjármagna innflutninginn? Hvaða aðferðum beitir fíkniefnalögreglan til að rekja slóðir peningamanna sem hugsanlega standa að baki þessum innflutningi? Er eingöngu látið nægja að sakfella burðardýrin eða er reynt að kafa dýpra ofan í málin og rekja slóðina hvaðan fjármagn kemur til þessarar gífurlegu neyslu? Er tollgæslan og fíkniefnalögreglan kannski ekki búin þeim mannafla, tækjakosti og rannsóknaraðstöðu til að ná til þeirra sem raunverulega skipuleggja gífurlegan innflutning fíkniefna til landsins? Spyrja má líka: Er til skipulagt og samræmt net um allt land til að koma í veg fyrir innflutning með skipum til landsins? Því er einmitt haldið fram í blaði núna um helgina af fíkniefnaneytenda að innflutningur ætti sér að mestu leyti stað með skipum en ekki í gegnum Keflavíkurflugvöll. Höfum við allt það samstarf við erlend toll- og löggæsluyfirvöld sem hugsanlegt er til að fá vitneskju um það þegar grunur leikur á um áform um fíkniefnainnflutning til landsins? Þannig mætti lengi spyrja, virðulegi forseti, en engin svör fást við þessu í skýrslunni.

Stærsti hluti fíkniefnaneytenda hefur flosnað úr námi eða eru á einhvers konar bótum frá hinu opinbera. Stór hluti er í stopulli eða engri vinnu. Varla hafa þessir einstaklingar mikið fjármagn til neyslunnar eða standa í miklum innflutningi á fíkniefnum. Vissulega ber hér að geta fyrirvara í skýrslunni um að ekki sé víst að 10% viðmiðun við haldlögð fíkniefni eigi við hér á landi. En það eru heldur ekki færð nein rök fyrir því að fíkniefnamarkaðurinn sé minni hér á landi en annars staðar. Í skýrslunni er þess getið að mikilvægt sé að afla vitneskju um hversu mikið af fíkniefnum er á markaði hér á landi og það hefði verið fróðlegt að fá fram svör hæstv. forsrh. við því hvort eitthvað sé á döfinni í því efni en það kemur ekki fram í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin boðar í þessari skýrslu.

Einnig hefði verið ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. hvort að hann telji að skipulagning og samræming aðgerða hjá tollgæslu og fíkniefnalögreglunni hér á landi sé með þeim hætti að tryggt sé að um allt land sé skipulagt öryggisnet og samvinna milli eftirslitsaðila þannig að innflytjendur hafi hvergi óhindraðan aðgang við innflutning efnanna. Þar vísa ég til þess sem haft var eftir fíkniefnaneytanda í DV nú um helgina að skipin séu helsta leiðin fyrir fíkniefni inn í landið.

Herra forseti. Við höfum séð á undanförnum dögum hve okkar lögregla og tollgæsla sem fæst við fíkniefnavandann er í mikilli hættu og hve öryggi þeirra er ógnað þegar þeir reyna að koma í veg fyrir innflutning og dreifingu fíkniefna og hve harðsnúinn fíkniefnaheimurinn er orðinn. Okkur ber skylda til að búa þessu fólki allt það öryggi sem í okkar valdi stendur bæði að því er varðar mannafla og tækjakost en viðurkennd er í skýrslunni brotalöm í þessu efni. Meðal annars er nefnt að ekki liggi fyrir nein áætlun um nauðsynlegan starfsmannafjölda við ávana- og fíkniefnarannsóknir og vegna þess hve fíkniefnaviðskipti eru orðin skipulögð hér á landi sé mun erfiðara og flóknara að stunda nauðsynlegar rannsóknir sem sífellt kalla á endurnýjun tækja- og tæknibúnaðar sem fjárskortur hefur hamlað að hægt sé að endurnýja með eðlilegum hætti.

Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort atburðir síðustu daga hafi ekki gefið tilefni til að skoða þennan öryggisþátt betur sem snýr að fíkniefnalögreglu og tollgæslunni, þ.e. tækjabúnað, mannafla og rannsóknaraðstöðu. Úrbætur í því efni mundu ekki einungis tryggja betur öryggi þessa fólks heldur einnig gera okkur betur í stakk búin til aðgerða gegn fíkniefnum sem margfalt munu skila sér aftur til þjóðfélagsins hvernig sem á málið er litið.

Ég tel líka mikilvægt að samræma allar aðgerðir gegn fíkniefnaneyslu og innflutningi fíkniefna. Ekki bara á vegum toll- og löggæslu heldur einnig á sviði ráðuneyta en nú eru það mörg ráðuneyti sem bera ábyrgð á þessum málaflokki eins og dómsmrn., menntmrn., félmrn., heilbr.- og trmrn. Einnig þarf að tryggja að samræmi sé í aðgerðum milli sveitarfélaga og ríkis en úrræði, t.d. meðferðarúrræði, eru mjög misjöfn eftir sveitarfélögum. Ég tel að það verði best gert með því að fela einu ráðuneyti ábyrgð og yfirstjórn þessa málaflokks en síðan gæti sérstök stjórn á vegum þessa ráðuneytis með fulltrúa viðkomandi ráðuneyta haft með höndum heildarsamræmingu milli ráðuneyta. Það olli mér því vonbrigðum það sem fram kom í máli hæstv. forsrh. Mér fundust undirtektir við það að fela einu ráðuneyti yfirstjórn þessara mála daufar og tíndi hæstv. forsrh. fram rök sín í þessu efni. Ég held að ef einu ráðuneyti væri falin yfirstjórnin en síðan væri sérstök stjórn þar sem í ættu sæti fulltrúar allra ráðuneyta væri best til þess fallið að koma á markvissum vinnubrögðum í þessu efni. Ég minni á í því sambandi að málaflokki fatlaðra var hér á árum áður skipt á milli fjögurra eða fimm ráðuneyta. Þá var mikil brotalöm á þeim málaflokki vegna þess að hvert ráðuneyti vísaði á annað og það komst ekki gott skipulag á þann málaflokk fyrr en einu ráðuneyti var falin yfirstjórn hans og sérstakri stjórnskipaðri nefnd var falið að hafa samræminguna með höndum. Þess vegna veldur þetta svar hæstv. forsrh. mér vonbrigðum.

Ég vil víkja nokkuð að umfjöllun um kynferðisbrot sem fjallað er um í þessari skýrslu. Það vekur undrun mína þar líkt og um sektir við fíkniefnabrotum að dómar eru svo vægir að undrun sætir. Í skýrslunni kemur fram að á sl. 10 árum hafa verið kveðnir upp 179 dómar vegna kynferðisbrota og einungis kveðið á um sektargreiðslur í 6 dómum af þessum 179 að upphæð 424 þús. kr. Maður spyr hvaða aðhald sé í slíkum dómum, 6 dómar af 179 og heildarfjárhæð sekta 424 þús. kr. á 10 ára tímabili. Það veldur mér vissulega vonbrigðum sem fram kemur í skýrslunni að ekki eru nein áform uppi um að þyngja refsingu vegna kynferðisbrota eða gera ráðstafanir til að refsirammanum verði beitt þannig að hann hafi meiri varnaðaráhrif, t.d. að dómurum verði ekki heimilt að fara niður fyrir lögákveðna refsingu fyrir tiltekið brot.

[16:00]

Herra forseti. Það var spurt í þessari skýrslu um hve mikill upptækur hagnaður hafi verið af sölu ávana- og fíkniefna sl. tíu ár og að hve miklu leyti honum hafi verið ráðstafað til forvarna gegn fíkniefnum. Því er haldið fram í skýrslunni að fjárhæðir vegna þessa séu óverulegar en fjármunir vegna upptæks hagnaðar sem til fellur renni í ríkissjóð. Þetta kemur mér nokkuð á óvart. Þar vísa ég til þess að á árinu 1984 beitti ég mér fyrir því hér á þingi að samþykkt var heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaganna að þessum fjármunum yrði varið til fyrirbyggjandi aðgerða í fíkniefnamálum en á því ári kom 1 millj. til ráðstöfunar vegna upptæks hagnaðar af sölu ólöglegra fíkniefna. Hélt ég satt að segja að þessi heimild væri enn til staðar og fjármunir rynnu til forvarnaaðgerða í fíkniefnamálum. Ég tel því þetta svar ófullnægjandi og tel ástæðu til að skoða þetta mál nánar. Sé þessi heimild ekki enn til staðar þá þarf að endurvekja hana við næstu fjárlagagerð.

Ég vil fagna því sem fram kemur í þessari skýrslu og í máli hæstv. forsrh. hér áðan að til ýmissa aðgerða hefur verið gripið ekki síst á sviði fræðslu til að draga úr notkun fíkniefna. Einnig er í skýrslunni kveðið á um, það er að vísu vægt tekið til orða en það er kveðið á um að það þurfi að skoða að herða viðurlög við dreifingu fíkniefna og að efla löggæslu og forvarnir á sviði ávana- og fíkniefna og fagna ég því mjög. Vissulega þarf einnig að bæta úrræði og leita nýrra leiða til að endurhæfa ungmenni sem leiðst hafa út í neyslu ávana- og fíkniefna svo og að skoða meðferðarúrræði fyrir ungmenni sem í tengslum við ávana- og fíkniefnaneyslu hafa leiðst út í afbrot og fengið á sig refsidóma vegna þeirra. Ég skil mál hæstv. forsrh. svo að það mál sé líka í skoðun.

Virðulegi forseti. Ég ítreka í lokin þakklæti til forsrh. fyrir þá skýrslu sem hér er til umræðu og vænti þess að stjórn og stjórnarandstaða taki höndum saman um árangursríkar aðgerðir til að sporna við fíkniefnaneyslunni, þessum mesta bölvaldi í þjóðfélaginu.