Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 17:04:16 (6278)

1996-05-20 17:04:16# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[17:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Suðurl. beindi til mín nokkrum spurningum. Það er verið að byggja móttöku- og meðferðarstöð í Grafarvogi og henni er ætlað að koma í stað neyðarvistunar í Efstasundi og meðferðarvistunar í Sólheimum 7 og dagdeildarinnar. Af þessu á að verða allverulegur peningalegur sparnaður, en það er ekki aðalatriðið. Takmarkið er að koma upp árangursríkari og öflugri þjónustu, auka fjölbreytni í úrræðum og má þar nefna t.d. eftirmeðferð. Stuðlar eiga að taka til starfa 1. ágúst og eftir þeim bestu upplýsingum sem ég hef, þá mun sú dagsetning standast. Það er ekki búið að ráða þar starfsfólk en það er gert ráð fyrir 23--24 stöðugildum á Stuðlum. Ég geri ráð fyrir að uppistaðan af því verði starfsfólk sem hefur verið á stofnunum sem lagðar verða niður og starfsfólk sem hefur sannað þar hæfni sína og öðlast dýrmæta reynslu. En það er sem sagt ekki búið að ráða starfsfólkið, enda eru þarna rúmir tveir mánuðir til stefnu.

Hv. þm. spurði hvað yrði um féð sem sparast. Ég sé fyrir mér að svigrúm skapist til að bæta við úrræðum og vildi gjarnan nota peningana sem sparast kunna til þess að bæta við úrræðum. Sparnaðurinn er að vísu ekki kominn fram og það er kannski of snemmt að fullyrða hvað hann verður mikill. Aðsókn að dagdeildinni hefur ekki verið nægilega mikil, þ.e. því miður hefur maður grun um að þangað þyrftu fleiri að leita ásjár en hafa gert.

Þegar Stuðlar verða komnir í notkun, þá verða á vegum Barnaverndarstofu um það bil 44 rými, þ.e. 14 pláss á Stuðlum. Fimm verða lögð niður í Sólheimum 7 og fjögur í Efstasundi. Þar að auki eru í Árbót í Þingeyjarsýslu fimm, Bakkaflöt í Skagafirði sex, Laugamýri í Skagafirði tvö, Geldingalæk sex, Torfastöðum sex og Sólheimum 17 eru fimm.

Ég vona að ég hafi svarað þeim spurningum sem hv. þm. beindi til mín.