Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 17:25:48 (6283)

1996-05-20 17:25:48# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[17:25]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og þessa ágætu umræðu til þess að greina frá starfi því sem unnið hefur verið að tilhlutun menntmrn. og nefnt hefur verið jafningjafræðsla. Hún hefur almennt mælst vel fyrir og ég þakka þau orð sem um þau störf hafa fallið í þessum umræðum. Í blaði sem ég er með í höndunum og er frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi er lýst hvernig að þessu er staðið í þeim skóla. Þar kemur m.a. fram, með leyfi herra forseta, að í hverjum framhaldsskóla landsins hafi verið settir á laggirnar nemendahópar sem sjá um að veita öðrum nemendum fræðslu og koma af stað umræðum. Slíkur hópur hefur verið stofnsettur í Fjölbrautaskóla Vesturlands og hefur honum þegar tekist að gera marga góða hluti þótt enn sé stutt síðan jafningjafræðslan byrjaði.

Fulltrúar frá þessum hópi fóru t.d. í alla leikfimihópa í fjölbrautaskólanum og sýndu þar mynd sem gerð var á vegum þeirra og stjórnuðu svo hópumræðum á eftir. Þóttu þessir tímar takast mjög vel og hafa vonandi vakið marga til umhugsunar. Skoðanakönnun á fikniefnanotkun var einnig lögð fyrir alla nemendur skólans og unnið úr niðurstöðum hennar. Veitti það hópnum góða innsýn í hvað hann er að fást við hér í skólanum eins og orðað er í þessu blaði. Loks hefur hópurinn unnið veggspjöld, dreift fræðsluefni og reynt að stuðla að breyttu viðhorfi gagnvart fíkniefnum. Starfið er þó eins og fyrr sagði nýhafið og enn á eftir að hrinda mörgum hugmyndum í framkvæmd, segir í blaðinu. Síðan segir: ,,Jafningjafræðslan er verkefni sem er komið til að vera og til að hafa áhrif til betri vegar.``

Ég tel einnig mjög mikilvægt að þessa er getið í kynningarblaði skólans sem er að kynna það sem hann hefur í boði og það er augljóst, finnst mér, að fjölbrautaskólarnir og framhaldsskólarnir líta á það sem styrk sinn, þegar þeir eru að bjóða nemendum aðgang að skólunum, að innan veggja þeirra fari fram fræðsla um hættuna af fíkniefnum með þátttöku nemenda sjálfra eins og til hefur tekist með jafningjafræðslunni og hefur farið af stað núna á undanförnum mánuðum. Ætlunin er að því verði fram haldið á næsta hausti og verði framvegis hluti af eðlilegu skólastarfi í landinu.