Útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 17:28:17 (6284)

1996-05-20 17:28:17# 120. lþ. 142.3 fundur 65. mál: #A útbreiðsla fíkniefna og þróun ofbeldis# beiðni um skýrslu frá forsrh., forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[17:28]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn þakka þær umræður sem hafa átt sér stað um þetta víðfeðma efni. Að vísu má segja að umræðurnar hafi beinst aðallega að einum þætti þessarar skýrslu sem tengist vímuefnamálum og ofbeldismálum í tengslum við þau.

Áður en ég svara einstökum spurningum sem til mín hefur verið beint vil ég gera eitt atriði sérstaklega að umtalsefni sem ekki hefur verið rætt hér. Það er samhengið við aðra vegna þess að þessi mál tengjast auðvitað alþjóðlegri glæpa\-starfsemi. Á meðan slík starfsemi þrífst og er vaxandi, ekki í blóma, ég vil ekki nota það orð yfir starfsemi af þessu tagi, í nágrenni við okkur er ljóst að auðveldara verður um vik að beina slíkri starfsemi og afleiðingum hennar hingað.

Á nýlegri ráðstefnu í Visby þar sem voru staddir forustumenn ríkisstjórna við Eystrasaltið og þjóða þar í námunda var þetta mál eitt hið stærsta í umræðunni, stærra en gert hafði verið ráð fyrir í dagskrárkynningu. Það má segja að meginniðurstaða manna þar og inntakið hafi verið að hin opnu landamæri sem nú eru staðreynd í Evrópu hafi nýst glæpaklíkum og slíkum öflum miklu fyrr en öðrum aðilum. Þannig hafi lögregluyfirvöld grautað áfram hvert í sínu horni og verið mjög ósamstarfsfús milli landa og svæða á meðan glæpahringirnir hófu fljótt samstarf langt yfir landamæri og tóku í sína þjónustu tæknibúnað sem var miklu fremri en sá búnaður sem lögregluyfirvöldin höfðu yfir að ráða. Það var ljóst að í hugum þessara forustumanna var þetta einn mesti meinvaldur sem þeir þóttust sjá að þeirra þjóðfélag stæði frammi fyrir. Þeirra svör voru ekki að það ætti að loka landamærum heldur ætti á hinn bóginn að efla samstarfið á milli lögregluyfirvalda og slíkra aðila þvert yfir landamærin, auðvelda rannsóknir og láta það ekki stöðvast við landamæri þannig að glæpaklíkur og hringir gætu komist undan löggæslu með því að færa sig eins og þau geta núna auðveldlega á milli ríkja og yfir landamærin.

Það er enginn vafi á því að skipulögð glæpastarfsemi eins og nú á sér stað til að mynda í Evrópu auðveldar þeim misindismönnum sem vilja koma slíkum efnum á framfæri hér sinn leik með sama hætti og öflug löggæsla og nánari samvinna á því sviði væri einnig til þess fallin að hjálpa okkur. Ég vil geta þessa svona í framhjáhlaupi þar sem þetta var mjög ofarlega á þeim umræðuvettvangi sem ég tók þátt í þar á dögunum.

[17:30]

Svona almennt varðandi það sem nefnt hefur verið þá hafa margir ræðumenn getið þess að svör í skýrslunni væru á sumum sviðum óljós. Það mátti nú búast við því fyrir fram vegna eðlis málsins til að mynda. Auðvitað er það svo að svör um það hversu miklu efni sé smyglað inn og hversu mikið sé á markaði verða ætíð ágiskunarefni meðan menn hafa ekki komið yfir þau höndum og þá hætta þau að vera vandamál eftir það og jafnframt þess vegna allar afleiddar spurningar af slíku svo sem eins og verðmæti á markaði. Það hlýtur að vera um ágiskun að ræða, að vísu ágiskun manna sem vel þekkja til. En hvernig sem þær sérstöku tölur eru og þó að þær séu kannski ekki nógu markvissar þá er hafið yfir vafa að innflutningur, sala og neysla er hér í slíku magni að um verulegt vandamál er að ræða.

Það var spurt sérstaklega um það hvort það væri mat ríkisvaldsins að herða bæri viðurlög við þessum afbrotum og stuðla að því að felldir yrðu þyngri dómar en hingað til hafa tíðkast. Þetta er eitt af því sem sú nefnd sem ég nefndi áðan skal athuga og einnig hvort málsmeðferðin þurfi að endurskoðast. Ég vek athygli þó á því að það er ekki víst að refsirammi okkar sé mjög frábrugðinn því sem gerist annars staðar, a.m.k. hér næst okkur. Það er ekki vafi á því að refsiramminn er þyngri í Bandaríkjunum en hér og á Norðurlöndum, mun þyngri, en þar hefur nú sá refsirammi ekki dugað til þess að stöðva starfsemi af þessu tagi. Auðvitað eru refsingar margvíslegs eðlis. Að sumu leyti eru þær refsingar notaðar í friðþægingarskyni af þjóðfélaginu vegna þess að menn stunda ólögmæta starfsemi sem þjóðfélagið vill refsa fyrir. Í annan stað er refsingum ætlað að vera fyrirbyggjandi. Menn geta deilt um það hversu virk þau úrræði eru en þó má frekar búast við því að harðari refsingar séu til þess fallnar að fæla menn frá því að grípa til úrræða eins og um er að ræða í þessu dæmi. En ég á frekar von á því að menn muni hneigjast í átt til þyngri viðurlaga í framhaldinu en nú er gert.

Það er sérstaklega spurt um samstarfið milli lögregluyfirvalda og tollyfirvalda. Í sjálfu sér á ekkert að vera því til fyrirstöðu að það samstarf geti verið markvisst. Sé þar pottur brotinn þá er sennilega um skort á hæfni í mannlegum samskiptum frekar en að reglurnar séu til þess fallnar að koma í veg fyrir slík samskipti og ef svo er eins og orðrómur hefur verið um þá þarf auðvitað að taka á því en til þess þarf ekki neinar nýjar reglur eða ný lagafyrirmæli. Þó er rétt að vekja athygli á því að í lögreglulögum sem liggja fyrir þinginu til meðferðar er gert ráð fyrir markvissari aðgerðum og markvissara meðferðarferli og rannsóknarferli en nú er þannig að verði það frv. að lögum þá er líklegt að þar standi íslensk lögregluyfirvöld með þægilegri vopn í höndum og með skýrari heimildir til samstarfs og fyrirmæli um samstarf en nú er.

Þá var spurt um skýrslur sem eiga að koma í lok þessa mánaðar eða byrjun hins næsta. Mér finnst sjálfsagt, vegna þess sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi, að skýrslan verði sérstaklega kynnt þeim nefndum þingsins sem um þetta mál eiga að véla. Það er til þess fallið að færa þingmennina nær ákvörðunum og fyrr og mundi þá auðvelda mönnum ákvarðanir í haust þegar þingið kemur saman á nýjan leik. Ég tel rétt að þetta verði gert og vil gjarnan beita mér fyrir því að svo verði.

Það er út af fyrir sig einn galli í skýrslunni sem ekki er hægt að koma í veg fyrir, þ.e. að það er nokkuð blandað saman löglegum og ólöglegum fíkniefnum en staðreyndin er jú sú eins og menn hafa vakið athygli á að flest ofbeldisverk hér á landi tengjast því sem við köllum löglegum fíkniefnum, þ.e. áfengi og öðrum slíkum efnum, þó mönnum sé tíðrætt um afleiðingar af notkun og sölu sterkari efna. Tíma mínum er nú lokið og læt þetta duga.