Spilliefnagjald

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 18:02:09 (6290)

1996-05-20 18:02:09# 120. lþ. 142.4 fundur 252. mál: #A spilliefnagjald# frv. 56/1996, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[18:02]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Mér er það auðvitað bæði ljúft og skylt að koma í þennan ræðustól ef það má verða til þess að greiða fyrir framgangi málsins. Ég tel að hér sé á ferðinni afar mikilvægt mál, þ.e. að fá samþykkt lög um spilliefnagjald eða gjald á vörur sem geta orðið að spilliefnum. Ég tel að þetta sé svo stórt mál að það verði þingi mikill sómi að því að hafa lögfest það frv. sem hér er til umræðu, ef og ég segi nú, þegar að því kemur. Ég gef mér auðvitað að það verði. Það er líka sjálfsagt af minni hálfu að þakka nefndinni fyrir ágæt störf að þessu máli eins og reyndar fleirum sem hafa verið til umfjöllunar hjá umhvn. í vetur, en að þessu sinni fyrir afgreiðslu þessa máls svo langt sem það er þegar komið og þeim tillögum sem hér liggja fyrir frá meiri hluta nefndarinnar.

Þar er gert ráð fyrir því m.a., ásamt fleiri breytingartillögum sem lagðar eru fram, að fjölga um einn fulltrúa í þessari nefnd sem kölluð hefur verið spilliefnanefnd, en það er nefnd sem á að fjalla um málefnin. Það gefur ráðherra vissulega svigrúm til þess að gæta að þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í nefndarstarfinu og í þeim umsögnum sem nefndinni hafa borist um að fá að tilnefna fulltrúa í nefndina.

Hins vegar er það ljóst að við vinnu að þessu frv. komu aðilar vinnumarkaðar, sérstaklega fulltrúar frá Vinnuveitendasambandinu og lögðu því mjög eindregið lið að frv. komst í þann búning sem það er og er nú komið í 2. umr. Ég hef talið að það sé eðlilegt að við gefum málinu nokkurn tíma til þess að þróast, að sjá hvernig því vindur fram og hvernig úr þessu mikilvæga máli vinnst. Það er gert ráð fyrir því í breytingartillögu nefndarinnar að einstakir þættir frv. eða laganna verði teknir til endurskoðunar fljótlega aftur að fenginni ákveðinni reynslu. Ég tel að það sé ásættanlegt mjög og lýsi stuðningi mínum við þessa tillögu meiri hluta nefndarinnar að fjölgað verði um einn mann í nefndinni, enda gefur það ráðherra þá svigrúm til þess að tilnefna tvo fulltrúa, annan sem formann og hinn sem óbreyttan liðsmann. Á þessu stigi, af því að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði að því hvort ráðherra gæti gefið um það upplýsingar hér hvernig hann hygðist nota þessar tilnefningar eða nýta sér þetta svigrúm ef það verður samþykkt eða gert að lögum eins og ég vona sannarlega að verði gert, þá hef ég ekki tekið enn þá neina endanlega ákvörðun um það. Það liggur sem sagt ekki fyrir nú af minni hálfu hverjir verða fulltrúar í þessari nefnd, enda væri óeðlilegt að vera búinn að setja fram hugmyndir eða tillögur í því efni meðan ekki er enn þá vitað hvernig Alþingi endanlega samþykkir frv. og hverjar niðurstöðurnar verða. Ég lýsi ánægju minni með það að fá þetta svigrúm m.a. til þess að geta hugsanlega orðið við þeim óskum sem hafa komið fram í nefndinni og ég tel að þá sé möguleiki til þess út af fyrir sig að verða við ef svo fer. En á þessu stigi er ég ekki tilbúinn til þess að kveða upp úr með það fyrr en ég sé hvernig frv. verður afgreitt.