Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 20:31:33 (6300)

1996-05-20 20:31:33# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. meiri hluta EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[20:31]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hluta samgn. um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um vegáætlun fyrir árin 1995--1998 ásamt meðfylgjandi breytingartillögum á þskj. 891 frá meiri hluta samgn.

Nefndin fjallaði um málið með hefðbundnum hætti og fékk á sinn fund fulltrúa Vegagerðarinnar og fór yfir þágildandi vegáætlun sem samþykkt var á liðnu ári fyrir árin 1995--1998. Það var fyrsta vegáætlunin sem var samþykkt eftir að ný vegalög tóku gildi vorið 1994. Við afgreiðslu fjárlaga á síðastliðnu ári var ákveðið að útgjöld til vegamála yrðu lægri en vegáætlun gerði ráð fyrir. Samkvæmt þingsályktunartillögunni eins og hún liggur hér fyrir er einungis tekin til endurskoðunar áætlun yfirstandandi árs en nefndin leggur að auki til breytingar á flokkun vega í vegáætlun. Vinnutilhögun við afgreiðslu tillögunnar var með hefðbundnu sniði.

Nefndin hefur fjallað um skiptingu fjár á milli kjördæma og á milli einstakra verkefna undir liðnum Stórverkefni. Fjárveitingar til kjördæma lækka hlutfallslega í samræmi við forsendur tillögunnar. Við skiptingu fjár til stórverkefna var sömu aðferð beitt og áður, þ.e. allar fjárveitingar til þeirra lækka hlutfallslega.

Þingmannahópar kjördæmanna hafa unnið tillögur til breytinga á skiptingu fjármagns til einstakra verkefna innan almennra verkefna og framkvæmdaátaks á stofnvegum svo og til verkefna á tengivegum. Meiri hluti nefndarinnar tekur upp tillögur þingmannahópanna og fellir þær inn í sínar breytingartillögur.

Tvær breytingar eru gerðar á tekjuáætlun tillögunnar og hækka áætlaðar tekjur samtals um 84 millj. kr. vegna breytinganna á þessu ári.

Fyrri breytingin er sú að nýr liður, 1.1.5. Innheimtuátak í þungaskatti, 50 millj. kr., bætist við markaðar tekjur. Í tengslum við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1996 endurskoðaði ríkisstjórnin forsendur fyrir framlögum til Vegagerðarinnar. Þar kom fram að eftirlit með innheimtu og skilum þungaskatts hefur verið aukið að undanförnu og til stendur að auka það enn árið 1996. Þessar tekjur eru áætlaðar 50 millj. kr. og er sú upphæð tekin inn í tekjuáætlunina.

Í skiptingu útgjalda er þessum 50 millj. kr. bætt við lið 2.2.3.6. Vatnaskemmdir. Þar sem þetta viðbótarfjármagn er háð því að tekjurnar skili sér er Vegagerðinni óheimilt að ráðstafa þessu fé fyrr en ljóst er að svo verði.

Seinni breytingin varðar nýjan lið, 1.1.6. Hækkun á þungaskatti, 34 millj. kr. Þungaskattur var hækkaður um 3,2% við síðustu áramót en ekki hafði verið gert ráð fyrir því við mat á mörkuðum tekjum. Sú hækkun ætti að gefa um 60 millj. kr. í tekjuauka. Á móti kemur að 98 oktana blýbensín verður ekki lengur á markaði. Við það lækka tekjur af bensíngjaldi nokkuð og er sú lækkun metin á um 26 millj. kr. Mismunurinn, 34 millj. kr., er tekinn inn í tekjuáætlun vegáætlunar.

Í skiptingu útgjalda er þessari upphæð bætt við lið 2.2.3.5. Öryggisaðgerðir, en mikil þörf er á auknum aðgerðum til að draga úr umferðarslysum. Þar sem hér er verið að auka verulega framlög til þessa verkefnis og ljóst að stórauka má aðgerðir á þessu sviði er eðlilegt að skipting fjár til öryggisaðgerða verði lögð fyrir í samgn. áður en framkvæmdir hefjast.

Loks eru gerðar tillögur um nokkrar breytingar á flokkun vega eins og fram kemur í breytingartillögunni.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem fram koma á sérstöku þingskjali.

Undir þetta rita auk undirritaðs Kristján Pálsson, Magnús Stefánsson, Egill Jónsson, Stefán Guðmundsson og Árni Johnsen.

Til viðbótar við þetta sem lýtur sérstaklega að þeim breytingartillögum sem ég hef nú þegar gert grein fyrir er kannski ástæða til að fara örfáum almennum orðum um stöðu þessara mála, stöðu vegáætlunar og stöðu þeirra framkvæmda sem unnið hefur verið að á undanförnum árum.

Það er auðvitað ljóst að um er að ræða niðurskurð frá vegáætluninni eins og hún var samþykkt á síðasta ári. Niðurskurðurinn nemur tæpum 800 millj. kr. og hefur auðvitað nokkur áhrif þó ég leyfi mér að fullyrða að í öllum meginatriðum helst sú framkvæmdaröðun sem hafði verið áætluð og gengið frá í vegáætluninni sem nú er í gildi fyrir árin 1995--1998.

Það er líka fróðlegt að skoða sérstaklega, vegna þess að nokkuð hefur verið gert úr því að verið sé að skera þetta óhóflega niður, að ef við lítum á framlög til nýrra þjóðvega á síðustu tíu árum þá blasir við að ef undan eru skilin fjögur síðustu ár, þ.e. 1992--1995, þá verður það þannig þrátt fyrir þennan niðurskurð, að ársins 1996 verður minnst sem talsvert mikils vegagerðarárs. Framlög til framkvæmda við nýja þjóðvegi á þessu ári eru viðlíka og árið 1991 og talsvert meiri heldur en á öllum árunum 1986 til og með ársins 1990. Það eru með öðrum orðum aðeins árin fjögur þegar við lögðum í sérstakt framkvæmdaátak á árinu 1992 til ársins 1995 sem framlög til nýrra þjóðvega eru meiri en þau verða á þessu ári miðað við þá niðurskornu vegáætlun sem við erum hér að ræða um. Það er líka fróðlegt og nauðsynlegt að við áttum okkur aðeins á þeirri útgjaldaþróun til einstakra málaflokka sem orðið hefur á undanförnum árum. Það er t.d. ljóst að við höfum verið til viðbótar við almenna aukningu í vegaframkvæmdum að auka framlög til sumarviðhalds og vetrarviðhalds á undanförnum árum og jafnvel þrátt fyrir þann niðurskurð sem við þurfum að búa við á þessu ári þá eru eftir sem áður framlög t.d. til sumarviðhalds með því mesta sem við höfum dæmi um á undanförnum tíu árum. Svipaða sögu er raunar að segja líka um vetrarviðhaldið, þ.e. snjómoksturinn, sem hefur vaxið jöfnum skrefum á undanförnum árum. Þetta er dálítið athyglisvert vegna þess að mjög margir hafa ímyndað sér að með batnandi vegasamgöngum dragi úr snjómoksturskostnaði. En sannleikurinn er auðvitað sá að við höfum á undanförnum árum verið að mæta aukinni eftirspurn eftir bættum snjómokstri, aukinni tíðni snjómoksturs sem hefur auðvitað leitt til þess að við erum að verja talsvert meira fé til þess þáttar vegáætlunar en við höfum gert á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að við áttum okkur á þessu. Ég ítreka að það er ljóst að við erum að draga saman seglin í vegamálum miðað við það sem best gerðist á velmektarárunum þegar við vorum að framkvæma verulega undir nafni framkvæmdaátaksins, hins sérstaka framkvæmdaátaks sem var í gildi á árunum 1992--1995. Engu að síður verður þessa árs minnst fyrir það að hér eru á ferðinni verulegar framkvæmdir sem munu skipta miklu máli.

Ég get nefnt í því sambandi að á þessu ári verður unnið af fullum krafti við þverun Gilsfjarðar. Það standa yfir stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í Ártúnsbrekkunni. Og af því að hér liggja m.a. fyrir breytingartillögur sem lúta sérstaklega að því svæði landsins þá er nauðsynlegt að því máli sé til haga haldið að framlög til höfuðborgarsvæðisins vegna nýrra þjóðvega eru óvenjulega mikil á þessu ári, um 808 millj. kr. þrátt fyrir allt. Þau voru um 1.100 millj. kr. í fyrra. Samanlagt eru þetta tæplega 2 milljarðar kr. sem varið er til nýrra þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu á þessum tveimur árum. Sé þetta enn skoðað í sögulegu samhengi þá er það auðvitað alveg ljóst mál að þetta eru miklu hærri tölur en við höfum átt að venjast. Ég get tekið sem dæmi að árið 1994 nam þessi upphæð 580 millj. kr., 1986 svo ég taki fyrsta árið í viðmiðuninni, 144 millj. kr. til samanburðar við 808 millj. kr. á þessu ári. Ég held því að þegar menn skoða málin af mikilli sanngirni og í sögulegu samhengi þá auðvitað ljóst að það er verið að leggja veruleg framlög að gefnu tilefni í vegamál hér á höfuðborgarsvæðinu og að ég hygg, virðulegur forseti, að þegar öllu er til haga haldið þá sé ljóst mál að það er ósanngjarnt sem hefur komið fram í áliti manna að sérstaklega sé verið að ráðast á höfuðborgarsvæðið varðandi vegamálin.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég segja sem inngang að þeirri umræðu sem hér á eftir að fara fram um vegáætlun. Ég þakka um leið samgn. fyrir ágæta samvinnu í þeirri vinnu sem fram fór í nefndinni um málið.