Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 20:43:52 (6302)

1996-05-20 20:43:52# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[20:43]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég gat ekki hlustað á fyrstu 10 sekúndurnar í máli hv. þm. var sú að ég vék mér hér til hliðar í því skyni að reyna að nálgast tillögu þá sem hann ásamt nokkrum öðrum þingmönnum flutti, sem við annað tækifæri mundi væntanlega vera kallað kjördæmapot, tillögu sem mig minnir að hafi gengið eitthvað út á það að rétta sérstaklega hlut þess kjördæmis sem hv. þm. er þingmaður fyrir. En því miður vegna kveinstafa hv. þm. þá gat ég ekki gefið mér tíma til að finna tillöguna og get því miður ekki lesið upp úr henni hér.

Það er hins vegar rangt hjá hv. þm. að niðurskurðurinn til höfuðborgarsvæðisins sé 35%. Þannig er mál með vexti að það er verið að lækka framlög til framkvæmdaátaksins, svokallaðs höfðatöluátaks, um þessi 35% eða 36%, en það hefur með öðrum orðum auðvitað áhrif á framlögin alls staðar þar sem menn nutu þessa framkvæmdaátaks. Það er hins vegar ljóst að vegna þess að hér er mannfjöldinn mestur þá naut höfuðborgarsvæðið þess sérstaklega þegar ákveðið var að leggja í sérstakt átak á grundvelli höfðatölureglunnar. Síðan var pólitísk ákvörðun tekin um að lækka framlagið um 35% eða 36%. En að öðru leyti hefur höfuðborgarsvæðið fengið alveg sambærilega meðhöndlun og önnur verkefni að því undanskildu að sjálfsögðu að það er fullkomlega í heiðri haft það samkomulag sem gert var á sínum tíma milli þáv. hæstv. fjmrh. og þáv. borgarstjóra um sérstök skuldaskil milli Reykjavíkurborgar og ríkisins. Því er sem sagt haldið til hliðar. Það er gert upp að fullu og síðan er það sem eftir stóð skert um 17% eða þar um bil.