Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 20:48:41 (6304)

1996-05-20 20:48:41# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[20:48]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sama hversu lengi hv. þm. hamast í þessu máli. Hann kemst ekki fram hjá því að framlög til vegamála á höfuðborgarsvæðinu hafa aldrei verið meiri en á tveimur síðustu árum. Þau voru í fyrra eins og ég sagði yfir 1.100 millj. kr. Þau eru rúmlega 800 millj. kr. á þessu ári og það er augljóst mál ef við skoðum þetta yfir eitthvert tímabil að hér er um að ræða margföldun. Ég nefndi árin 1986--1988 þegar framlögin til vegamála voru á bilinu 140--170 millj. kr. Nú erum við að tala um framlög á tveimur árum upp á u.þ.b. einn milljarð á ári. Svo tala menn um að það sé einhver hraksmánarleg meðferð á höfuðborgarsvæðinu þegar það blasir við að verið er að áttfalda eða nífalda framlögin frá þessum árum sem ég nefndi til viðmiðunar. Þetta er því alveg fráleitt mál. En í þessu lenda menn sem horfa á málin út frá óskaplega þröngum sjónarhóli. Þeir nota aðferð kjördæmapotaranna með gamla laginu, horfa aldrei vítt um landið og skoða málin bara út frá þröngu sjónarhorni kjördæmapotarans. Þá lenda menn í því að geta aldrei nokkurn tíma borið saman hluti á sanngjarnan hátt. Það er þannig málflutningur sem hv. þm. tileinkaði sér. Ég vil minna hv. þm. á að hæstv. fjmrh. greip til þess ráðs að lækka bensíngjaldið til þess að koma til móts við bíleigendur í stað þess að setja þetta í ríkishítina eins og hv. þm. hefði örugglega gert. Enda er hann sósíalisti að upplagi.