Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 21:10:05 (6308)

1996-05-20 21:10:05# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[21:10]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er til lítils að svara fyrirspurnum ef ekki er tekið eftir svarinu. Ég sagði skýrt hér áðan að framkvæmdaátakið mundi halda áfram. Hér væri einungis um frestun á framkvæmdum að ræða. Það yrði ekki tekin lán til framkvæmda eins og áður hafði verið gert ráð fyrir heldur mundu framkvæmdirnar falla á það ár sem tekjurnar koma inn og þá erum við að tala um árið 1999. Ef hv. þm. vill fara rétt með það.

Hv. þm. gerði því skóna að verðhækkun á bensíni mundi sjálfkrafa auka tekjur til vegagerðar. Þetta er misskilningur. Fast gjald af bensíni rennur til vegamála en hins vegar munu þau gjöld sem tengjast verði til hækkunar eða lækkunar á bensíni falla í ríkissjóð og er auðvitað virðisaukaskatturinn dæmigerðastur af þeim gjöldum.

Í sambandi við þá lækkun sem var gerð á tekjum til ríkissjóðs nú á dögunum var það ákveðið að ríkissjóður tæki minna til sín en áður en Vegasjóður héldi sínu og er gert ráð fyrir því að við það verði staðið í samræmi við þá vegáætlun sem hér liggur fyrir. Það er því ekki um að ræða að til rýmkunar eða minnkunar á tekjum Vegasjóðs komi en á hinn bóginn er það misskilningur að þessar tekjur aukist eða minnki með verði á bensíni.