Vegáætlun 1995--1998

Mánudaginn 20. maí 1996, kl. 21:50:08 (6315)

1996-05-20 21:50:08# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. minni hluta GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[21:50]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma hér upp vegna orða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hann lét í veðri vaka að ég væri sérstakur andstæðingur vegabóta úti í hinum dreifðari byggðum. Það er auðvitað alrangt. Einnig hélt hann því fram að þessi sérstaka skipting á framkvæmdaátaki sem miðast við höfðatöluregluna væri andstæða við þá hefðbundnu skiptingu sem miðaði við arðsemi og gaf þar með til kynna að þeir fjármunir sem renna til framkvæmdaátaks og fara eðlilega að stærstum hluta til þéttbýlli byggða á suðvesturhorninu rynnu þar með til óarðbærra framkvæmd. Ég vildi taka af öll tvímæli í því sambandi. Þegar maður horfir til arðbærari þátta málsins hygg ég að í krónum og aurum talið séu það hvað arðbærustu framkvæmdirnar. Hins vegar vitum við báðir, ég og hv. þm., að hin hefðbundna skiptiregla byggir á ákveðinni þríliðu þar sem kostnaður, ástand og umferð, þ.e. umferðarþungi, eru vegin og metin. Þetta er því alröng uppsetning. Til að árétta það og halda því til haga hér þá hygg ég að hv. þm. þurfi ekki að bera sig sérstaklega illa undan framlögum til vegamála í hans kjördæmi ef horft er til þess að á árinu 1988, svo dæmi sé tekið, runnu 320 millj. til vegabóta í hans kjördæmi, Vestfjarðakjördæmi. Árið 1993 var það 1 milljarður og 69 millj., árið 1994 voru það 1.349 millj. og árið 1995 voru það 855 millj. Ég held því að hv. þm. þurfi ekki að bera sig sérstaklega aumlega hvað varðar áhuga þingmanna í fráfarandi ríkisstjórn á vegabótum úti í hinum dreifðari byggðum.