1996-05-21 00:13:27# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[24:13]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málflutningur hv. þm. breytir ekki staðreyndum. Staðreyndirnar eru þessar: Framlögin til höfuðborgarsvæðisins í vegamálum hafa aldrei verið meiri en í ár og á síðasta ári. Ég rakti í ræðu minni fyrr í kvöld að þessi framlög nema um 2 milljörðum kr. á þessu og síðasta ári til höfuðborgarsvæðisins og samkvæmt þeim upplýsingum sem hér birtast í Morgunblaðsgrein borgarfulltrúa Sjálfstfl. hefur þetta vaxið úr því að vera 4,8% í að vera 32,8%. Mér sýnist að eftir því sem líður á þessa umræðu staðfestist allt sem ég sagði í ræðu minni fyrr í kvöld. Það er ekki ástæða til þess að taka höfuðborgarsvæðið sérstaklega út úr þegar verið er að ræða um niðurskurð í vegamálum. Ég held að það væri ekki síður nauðsynlegt að horfa til þeirra kjördæma og þeirra landsvæða þar sem menn eru í mestum vandræðum, þar sem menn eru komnir styst áleiðis í uppbyggingu vegamála og það bókstaflega háir byggðinni víða um landið.