1996-05-21 00:15:26# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[24:15]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög undarlegt að þingmaður eftir þingmann skuli standa hér upp og reyna að gera því skóna að ekki sé vel staðið á bak við framkvæmdir hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er hvorki horft til fortíðar í þeim efnum né heldur horft til þeirrar þarfar sem blasir við. Það liggur fyrir mat sem gert var á framkvæmdaþörf á höfuðborgarsvæðinu til tíu ára. Miðað við þær fjárveitingar sem voru til Reykjavíkur á liðnu ári var fyllilega staðið við það sem þar var talið nauðsynlegt. Og þó nokkuð sé skorið niður á þessu ári til Reykjavíkur eins og til annarra staða á landinu þá eru framlögin til Reykjavíkur samt sem áður miklu, miklu meiri en hafa nokkru sinni verið áður en ég varð samgrh. Það er hálfundarlegt að heyra þingmenn stjórnarandstöðunnar halda því fram að hallað sé á Reykvíkinga í þessum efnum. Svo þegar nauðsynlegt er að mýkja svolítið andlitið, gera á sér andlitslyftingu fyrir dreifbýlið, þá er á hinn bóginn ráðist að hinum sama manni fyrir það hversu mikið fé er dregið hingað til Reykjavíkursvæðisins. Ég held að það væri sæmra að reyna að viðurkenna að betur er gert við Reykjavík en áður. Það er sannleikur málsins. Það væri satt að segja fróðlegt að spyrja þá ágætu kjósendur Þjóðvaka fyrir norðan hvað þeir segja um þá frammistöðu hér við afgreiðslu vegamála að það eitt skipti máli ef 200 millj. yrðu nú afgangs, að þær rynnu allar til Reykjavíkursvæðisins. Liggur þó fyrir að flest dauðaslysin hafa orðið á leiðinni frá Reykjavík til Norðurlands ef lesnar eru skýrslur um það. Það liggur raunar líka fyrir að dauðaslysum í umferðinni hefur fjölgað meira úti á landi en hér á Reykjavíkursvæðinu. Það er ekki gott þegar menn eru að draga slys inn í umræðuna með þeim hætti að gera lítið úr hættunni þar sem hún er mest.