1996-05-21 00:18:53# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[24:18]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hið sérstaka framkvæmdaátak sem efnt var til á síðastliðnu ári gerði ráð fyrir sérstakri lántöku á þessu ári til framkvæmda sem síðan átti að endurgreiðast á árinu 1999 af þeim sérstöku tekjustofnum sem til þess voru ætlaðir. Með þessari vegáætlun er gert ráð fyrir að ekki komi til lántökunnar en á hinn bóginn verði féð notað til framkvæmda á árinu 1999. Það er þess vegna ekki um það að ræða að verið sé að skera niður vegafé með því að fresta þessum framkvæmdum. Það er verið að fresta framkvæmdum um tvö ár en það er ekki verið að skera niður vegafé. Á því er mikill munur.

Ef við hins vegar lítum á skerðinguna á vegáætlun varðandi hið almenna vegafé þá er þar um varanlega skerðingu að ræða. En um framkvæmdaátakið gildir hitt að það er frestun en ekki skerðing. Það hefur verið margtekið fram og ættu menn að vera farnir að skilja það ef þeir á annað borð hafa vilja til að reyna að skilja það sem fram fer.