1996-05-21 00:20:55# 120. lþ. 142.12 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 142. fundur

[24:20]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum nú löngum sagt það úti á landsbyggðinni um höfuðborgarbúana sem ekkert sjá nema eigin garð að þeir hafi aldrei komið né séð austur fyrir Elliðaár. Mér finnst það eiga nokkuð við um hv. þm. sem hér hefur talað. Þó er henni ekki alls varnað því hún sér jú alla leið upp í Ártúnsbrekku. En ég er kominn hér til að spyrja hana einnar spurningar í tilefni af því að hún lýsti tillögu sem fram mun koma vegna aukinna tekna af bensínsölu. Tillagan snýst um að þessar auknu tekjur verði nýttar til að flýta framkvæmdum í Ártúnsbrekku. (ÖS: Til þess að þú komist suður.) Til að ég komist vestur, já. Ég spyr því: Ef bensín lækkar nú og tekjur minnka af bensínsölu má þá reikna með því að hv. þm. geri tillögu um að draga úr fjárveitingum til vegaframkvæmda, jafnvel í Ártúnsbrekku? Í því sambandi vil ég benda á að samkvæmt fréttum sjónvarpsins í kvöld þá gera menn ráð fyrir því að olíuverð fari jafnvel að lækka á heimsmarkaði. Nú er skilst mér búið að aflétta viðskiptabanni á Írak og menn spá því að olíuverð fari lækkandi og þess vegna eru full rök fyrir þessari spurningu.