Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 15:21:38 (6357)

1996-05-21 15:21:38# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. minni hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[15:21]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lagastofnun er að túlka alþjóðasáttmála og samþykktir og þar voru að verki tveir lögmenn eða þrír. Síðan koma aðrir lögmenn og túlka þessa sömu sáttmála og þessar sömu samþykktir á annan veg. Megingagnrýnin á túlkun Lagastofnunar lýtur að því að þeir túlki ætíð ríkisvaldinu í hag í stað þess að túlka verkalýðsfélögunum í hag eða vinnandi fólki sem er auðvitað það sem verið er að verja með lagasetningunni. Það er ekki verið að verja stjórnvöld. Það er ekki verið að tryggja rétt stjórnvalda. Þessar samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ganga meira og minna út á það að tryggja mannréttindi, að tryggja það að verkalýðsfélög geti starfað í hinum ýmsu löndum.

Við höfum talið okkur vera í röð lýðræðisríkja og hér hafa verkalýðsfélög fengið að starfa með sæmilega frjálsum hætti. En það sem hér er að gerast er það að ríkisvaldið er að grípa inn í með lagasetningu gegn vilja annars aðilans. Og það eitt út af fyrir sig segir mér að hér er ekki um eðlileg vinnubrögð að ræða, enda sýna þau mótmæli sem okkur hafa borist það. En mergurinn málsins er þessi. Það er verið að túlka og menn túlka á mismunandi hátt. Það sem mér finnst gagnrýnivert í áliti Lagastofnunar er einmitt túlkun hennar á því sem hún kallar lýðræði, það sé lýðræðislegt að setja þröskulda í félögum þar sem menn hafa haft einfaldar samþykktir um vilja meiri hlutans. Þeir sem taka þátt, þeir sem eru virkir, það eru þeir sem ráða.