Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 15:25:52 (6359)

1996-05-21 15:25:52# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[15:25]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Mér liggur við að segja að ég sé furðu lostinn yfir því að hér virðist vera að hefjast umræða um þetta frv. sem er meira en hægt var að segja um frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þar sem nánast engin umræða fór fram í þingsölum. Menn einfaldlega gerðu sína skyldu. En það má þó hæstv. félmrh. eiga og það má hv. þm. Einar Guðfinnsson eiga að af þeirra hálfu hefur verið haldið fram málefnalegum rökum í þessu máli. Það hafa að vísu fallið nokkrir sleggjudómar og sumir allþungir og þá ekki síst af hálfu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem ræddi fyrr í dag um furðulegar yfirlýsingar verkalýðshreyfingarinnar um þetta frv. um stéttarfélög og vinnudeilur án þess að færa nánari rök fyrir sínu máli. En þetta vildi ég engu að síður segja í upphafi máls og tel það til góðs að málsvarar ríkisstjórnarinnar hafi uppi málflutning í þessu máli.

Fyrir rúmum klukkutíma var hæstv. félmrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands afhent ályktun sem samþykkt hafði verið á 38. þingi Alþýðusambands Íslands. Ályktunin er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Verkalýðshreyfingin ítrekar andstöðu sína við þau frumvörp ríkisstjórnarinnar um árásir á réttindi launafólks sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi. Sameinuð íslensk verkalýðshreyfing hefur varað stjórnvöld við þeim yfirgangi sem viðhafður er til þess að breyta samskiptareglum á vinnumarkaði. Verkalýðshreyfingin hefur einnig öll varað eindregið við þeim breytingum á réttarstöðu verkafólks og samtaka þeirra sem samþykkt frumvarpanna hefði í för með sér. Ef ríkisstjórnarflokkarnir beita meiri hluta sínum á Alþingi með þeim hætti sem nú er fyrirhugað og hunsa sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar en styðja sjónarmið atvinnurekenda er ljóst að þeir valda miklu uppnámi í öllum samskiptum aðila á vinnmarkaði. Verkalýðshreyfingin telur að með samþykkt frumvarpanna muni ríkisstjórnin koma í veg fyrir að efnahagsbatinn nýtist til að efla atvinnulífið, bæta kjörin og tryggja stöðugleika.

38. þing Alþýðusambands Íslands skorar því á alþingismenn að stöðva framgang frumvarpa ríkisstjórnarinnar svo ráðrúm gefist til þess að fullreyna hvort samkomulag náist milli aðila vinnumarkaðarins um samskiptareglur sín á milli.``

Svo mörg voru þau orð í þessari ályktun frá þingi Alþýðusambands Íslands.

Hæstv. félmrh. mun hafa ávarpað þingfulltrúa þegar þeir afhentu honum þessa ályktun og haft á orði að hann vildi að hann hefði menn með sér í þessu efni. En ef svo væri ekki, yrði bara að hafa það. Ég held að það ,,verði bara ekkert að hafa það`` vegna þess að þessum ákvörðunum er hægt að breyta. Þessar ályktanir Alþýðusambands Íslands og ályktanir sem fram hafa komið frá hverju einasta verkalýðsfélagi á Íslandi, öllum heildarsamtökum launafólks á Íslandi, eru á sömu lund, þ.e. að frumvörpin og þar á meðal þetta frv. verði tekin út af borðum Alþingis og beint inn í farveg umræðu í sumar og freistað að ná fram samkomulagi um það sem þörf kann að vera á að breyta í lögunum.

[15:30]

Ég mun víkja að því síðar sem hv. þm. Einar Guðfinnsson vék að í sínu máli áðan um nauðsyn þess að gera breytingar á lögunum. Ég er honum hjartanlega sammála um það. Spurningin stendur um hitt, hvernig menn eigi að bera sig að við slíkar lagabreytingar. Um það stendur deilan.

Fyrst vil ég í fáeinum orðum víkja að því sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á í sínu máli þegar hún mælti fyrir áliti meiri hluta félmn. við upphaf 2. umr. Þar sagði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir m.a., með leyfi forseta:

,,Félmn. hefur fjallað ítarlega um málið á alls 15 fundum sem einungis voru um þetta frv. Nefndinni bárust um 300 umsagnir um málið, aðallega frá stéttarfélögunum og fékk hún á sinn fund upp undir 40 gesti, aðallega talsmenn stéttarfélaga, þ.e. samtaka aðila vinnumarkaðarins, sérfræðinga og hlutaðeigandi embættismenn til að fjalla um frv.``

Þetta sagði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir m.a. í framsögu sinni um daginn. Hér kveður við gamalkunnan tón. Við þekkjum það úr 1. umr. þar sem helstu rök hæstv. félmrh. voru á þá lund að telja upp hversu margir fundir hefðu verið haldnir í undirbúningsnefndum um frv. En hvergi vikið að því hvað sagt hefði verið á þessum fundum eða hver niðurstaða manna hefði verið. Hér kveður við þennan sama tón. Það voru 300 umsagnir um málið og gestir voru 40. Hvað skyldu þessir gestir hafa sagt á þessum fundum? Og hvað skyldi hafa staðið í öllum þessum 300 umsögnum? (Gripið fram í: Það var farið yfir það á 30 klukkustundum.) Sem var farið yfir á 30 klukkustundum. Á 30 klukkustundum var farið yfir þessar 300 umsagnir (MF: Og tekið á móti gestum.) Og tekið á móti gestum þar að auki. Skyldi það hafa verið gert í kurteisisskyni? Skyldi það hafa verið gert til þess að hlusta á rök manna? Nei, þetta eru sem sagt rökin sem fram eru reidd af hálfu ríkisstjórnarinnar að telja upp hversu margir fundir hafi verið haldnir, hversu margar umsagnir hafi borist og síðan er okkur sagt og fullyrt af hálfu hv. þm. Einars Guðfinnssonar í hans ræðu áðan að ríkisstjórninni sé umhugað um að skapa hér lög sem geri mönnum kleift að lúta hreyfingu fólksins. Var það ekki hreyfing fólksins sem á að vera í fyrirrúmi? Hreyfing fólksins í þessum frumvörpum, við vitum hvert hún liggur. Hún liggur frá Garðastræti og upp í Stjórnarráð. Einu samtökin sem hafa mælt með þessum frumvörpum og þessu frv. sérstaklega eru samtök atvinnurekenda. Það er VSÍ og það er Vinnumálasambandið. Það er hreyfing þessa fólks sem menn vilja tryggja.

Þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafði sagt okkur frá því í upphafi 2. umr. hversu margir fundir hefðu verið haldnir í félmn. og hversu margar umsagnir nefndinni hefðu borist, var vikið að réttlætingu nr. 2. Það er að sjálfsögðu hin margrómaða áfangaskýrsla. Við vitum allt um það hversu margir fundir lágu þar að baki líka. Okkur er sagt að skýrslan, sem samráðshópur félmrh. gerði og skilaði 22. nóvember 1995, væri grundvöllur þess lagafrv. sem hér er til umfjöllunar. Hver skyldi vera aðdragandi þessa máls? Aðdraganda málsins má rekja langt aftur í tímann. Hann má rekja til vilja manna innan verkalýðshreyfingarinnar, innan samtaka atvinnurekenda, innan stjórnmálanna um að taka samskiptareglur á vinnumarkaði til endurskoðunar.

Hinn 4. október árið 1994 ákvað þáv. félmrh. að skipa nefnd manna til að leggja drög að þessari vinnu. Í erindisbréfinu segir m.a., með leyfi forseta, um störf þessa hóps:

,,Hann skal taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Leiði hún í ljós nauðsyn breytinga á íslenskri löggjöf í þessu sambandi skal hópurinn setja fram tillögur um það efni.`` Hópurinn skal setja fram tillögur, leiði niðurstaðan í ljós að þörf sé á slíku.

Það varð um það samkomulag í þessari nefnd í nóvembermánuði að senda áfangaskýrslu til umræðu í hlutaðeigandi samtökum, samtökum atvinnurekenda og samtökum launafólks. Um þetta var samstaða. Menn urðu sammála um það og hér tala ég af eigin reynslu vegna þess að ég sat þessa fundi og átti sæti í þessari nefnd. Menn voru sammála um að setja hugmyndir í skýrslu þannig að við gætum fengið umræðu um málið. Í lok skýrslunnar var reyndar tíundað rækilega hvað það væri sem ætti eftir að ræða miklu betur, hvaða hugmyndir þyrfti að útfæra nánar og þar fram eftir götunum. Að ekki sé minnst á að menn áttu eftir að fjalla um það hvort yfirleitt væri ástæða til að festa slíkt í lög eða með hvaða hætti ætti að ná þeim markmiðum sem menn vildu ná. Undir lok nóvembermánaðar er þessi skýrsla send til umfjöllunar í samtökum launafólks og hjá atvinnurekendum. Í herbúðum atvinnurekenda var mikil ánægja með skýrsluna og vilji til þess að festa í lög ýmsar hugmyndir sem þar voru settar á blað.

Hjá samtökum launafólks var annað upp á teningnum. Þar kom fram mjög hörð gagnrýni á ýmsa þætti. En megingagnrýnin, meginþunginn í gagnrýninni var á þá lund að það sem menn vildu færa til betri vegar, þau markmið sem menn settu sér að ná, ætti ekki að þvinga fram með lögum. Það ætti að reyna að leita leiða til þess að ná um þessi efni samkomulagi. Þannig er það t.d. með svokallaða viðræðu\-áætlun og tengingarreglu og þar fram eftir götunum að eitt af því sem menn höfðu vilja til að skoða var með hvaða hætti hægt væri að gera samningana markvissari og hvernig menn gætu þá tryggt að þeir kæmust að samningaborði. Þess vegna væri æskilegt að gera slíka viðræðuáætlun. Svo ég vitni í samþykktir frá þessum tíma, þ.e. í byrjun þessa árs, segir t.d. í samþykkt frá formönnum landssambanda innan ASÍ, með leyfi forseta:

,,Formenn landssambanda innan ASÍ leggja eftirfarandi til: Að aðilar vinnumarkaðarins geri með sér rammasamning um gerð áætlunar þar sem kveðið verði á um hvernig standa skuli að viðræðum um gerð kjarasamninga. Landssambönd innan ASÍ fari með málið að fengnu umboði aðildarfélaga sinna. Eðlilegt er að starfsgreinasamtök atvinnurekenda komi fram fyrir þeirra hönd með fullt samningsumboð. Í slíkum rammasamningi verði settar reglur um verkföll þar sem kveðið yrði á um að þau megi ekki boða fyrr en viðræðuáætlun hefði verið gerð og kjarakröfur lagðar fyrir viðsemjendur og kynntar ríkissáttasemjara. Formenn landssambanda innan ASÍ munu enn fremur beita sér fyrir því að settar verði samræmdar reglur innan samtakanna um boðun verkfalla og afgreiðslu kjarasamninga. Jafnframt er eðlilegt að samtök atvinnurekenda endurskoði reglur um hliðstæðar ákvarðanir innan sinna raða og geri þær skýrari og gegnsærri.`` Þetta var 9. febrúar. En í byrjun mánaðarins, 2. febr., hafði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja ályktað og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Margt jákvætt er að finna í skýrslunni`` --- hér er vísað til áfangaskýrslunnar --- ,,einkum það sem varðar markvissari vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Þannig er æskilegt að hefja viðræður um kjarasamninga áður en gildandi samningar renna út og stuðla að skipulagðari vinnubrögðum. BSRB er þannig meðmælt því að tekin verði upp viðræðuáætlun um gerð kjarasamninga og hvetur til þess að strax 1. september í ár, fjórum mánuðum áður en kjarasamningar renna út, verði gengið til viðræðna um hana.``

Þetta eru menn að álykta. Þetta er það sem menn vilja gera, en af fúsum og frjálsum vilja. Síðan segir, með leyfi forseta: ,,Enda þótt BSRB sé tilbúið til áframhaldandi viðræðna um bætt vinnubrögð og leikreglur við gerð kjarasamninga leggst bandalagið alfarið gegn því að áfangaskýrsla þessi verði gerð að uppistöðu í lagafrumvarpi. Standi hugur manna til víðtæks samflots við samninga verður það að gerast af fúsum og frjálsum vilja.`` Því er hafnað að þessi markmið sem menn eru þarna að vinna að verði sett í lög. Og reyndar er það svo að þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hafa verið núna á lögunum, eru ýmis óljós álitamál hvað snertir þessa viðræðuáætlun og tengingarreglur.

Nú hefur kaflinn um tengingarreglurnar verið endurskoðaður. Engu að síður erum við enn inni með lögþvingaða viðræðuáætlun. Þá vaknar sú spurning hvert vald sáttasemjara er til að láta sáttatillögu ganga yfir vinnumarkaðinn. Í lögunum segir að hann geti gert það svo fremi sem félög eigi í deilum. Um hvað er deilt? Hefur það verið skoðað? Ég velti því fyrir mér hvort þær breytingar sem þarna hafa verið gerðar séu eins víðtækar og menn vilja vera láta. Alla vega eru þarna uppi ýmis álitamál þannig að það sem þarna kemur fram er að stærstu samtök á vinnumarkaði, Alþýðusamband Íslands og BSRB, eru að lýsa í ályktunum yfir því að þau vilji leita leiða til að gera kjarasamninga markvissari með viðræðuáætlun og leita leiða til að gera vinnubrögðin betri, en af fúsum og frjálsum vilja. Það er grundvallarmunur á þessu og því að keyra hlutina fram með lögþvingun. Ég veit ekki hvernig mun ganga þegar ríkissáttasemjari fer að knýja menn með lagasvipuna á lofti inn í viðræðuáætlun í haust. Ég fullyrði það að starf af því tagi gengur miklu betur þegar menn ganga óþvingaðir til slíkra verka vegna þess að þeir vilji gera það.

[15:45]

Eitt af því sem stóð út af í þessum umræðum sem fram fóru hjá hópnum sem starfaði á vegum félmrn. voru vinnustaðarsamningar. Eins og hv. þm. Einar Guðfinnsson vék að í sínu máli var þetta eitt af þeim atriðum sem mætti einna mestri gagnrýni frá verkalýðshreyfingunni. Það er mjög skiljanlegt vegna þess að þarna er verið að takast á um skipulagsform og grundvöll verkalýðshreyfingarinnar. Hitt er annað mál að í þessari nefnd komu einnig fram önnur sjónarmið. Það var t.d. bent á það sjónarmið sem síðar kom fram í álitsgerð BSRB um frv. þar sem segir m.a., nákvæmlega um þetta efni, með leyfi forseta. (KÁ: Vinnustaðarfélög.) Um vinnustaðarfélög og vinnustaðarsamninga. (KÁ: Það er tvennt ólíkt.) Það þarf ekki að vera tvennt ólíkt. Um vinnustaðarfélög og vinnustaðarsamninga. Þetta var hlutur sem var ræddur í þessari nefnd.

,,Sú tillaga að starfsmönnum fyrirtækis sé veitt heimild til að stofna stéttarfélag hefur sætt gagnrýni. Hjá opinberum starfsmönnum eru hins vegar víða félög skipulögð á stofnanagrundvelli og er nauðsynlegt að tryggja að lýðræðislegur vilji starfsmanna sé virtur gangi hann í þá átt að viðhalda óbreyttri félagsskipan þegar stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkis og sveitarfélaga er formbreytt, t.d. með því að gera þau að hlutafélögum.``

Þetta segir m.a. í álitsgerð BSRB og við vitum að þetta er eitt af þeim atriðum sem hefur verið mjög umdeilt. Þegar Strætisvagnar Reykjavíkur t.d. voru gerðir að hlutafélagi á sínum tíma risu miklar deilur um þetta atriði sem enduðu fyrir Félagsdómi. Þar stóð vilji starfsmannanna til þess að viðhalda vinnustaðarfélagi. Það stangaðist síðan á við lög um stéttarfélög og vinnudeilur þar sem kveðið er á um starfsgreinafélög. Þannig að þar var verið að hlutast til um innra skipulag verkalýðsfélags. Ég segi þetta líka að gefnu tilefni þar sem hv. þm. Einar Guðfinnsson taldi að nú væru menn lausir allra mála í þeim efnum. Það er aldeilis ekki. En þetta segir okkur eitt. Þetta segir okkur einmitt það að maður vinnur ekki svona að lagabreytingum um þetta efni. Maður gerir það ekki. Það væri hægur vandinn fyrir þá sem eru á þessari skoðun að segja: ,,Er ekki best að afnema öll lög? Er ekki bara best að láta fólk um það sjálft hvað það gerir? Er það ekki hið algera frelsi?`` Það er sjónarmið sem hefur heyrst, vissulega. En svo grunnhyggnir eru menn vonandi ekki. Vegna þess að það er ekki hægt að horfa fram hjá því hvar það er sem valdið liggur. Valdið liggur hjá þeim sem eiga peninga og fyrirtæki og geta sett þeim sem þeir ráða til vinnu stólinn fyrir dyrnar ef þeim svo líkar.

Ég hef vikið að því áður í mínu máli um þessi stéttarfélagsmál að það hefur færst í vöxt í þeim ríkjum þar sem vinnulöggjöf hefur verið breytt eða hún veikt, að atvinnurekendur, t.d. með neikvæðu félagafrelsi svokölluðu, hafa sagt sem svo: ,,Ég skal ráða þig í vinnu að því tilskildu að þú standir utan félags, að þú sért ekki í verkalýðsfélagi.`` Og hið sama mundi að sjálfsögðu geta gilt um litla vinnustaðarfélagið þar sem kæmi fram skipun hjá vinnuveitandanum um að ganga út úr hinu öfluga stóra verkalýðsfélagi og stofna lítið félag sem væri tannlaust og hefði engin áhrif. Ég er að segja þetta til að sýna fram á að afnám alls lagaramma að þessu leyti getur líka verið varasamt og snúist upp í andhverfu sína. Það sem við leggjum upp með til að tryggja frelsi einstaklinganna getur orðið til þess að veikja undirstöður frelsisins. Þess vegna höfum við sagt að við skyldum reyna að ná samkomulagi um þessi efni og í þessari margrómuðu nefnd var þetta eitt af þeim málum sem við vorum að reyna að ná samkomulagi um. Við ætluðum ekkert að flýta okkur óskaplega mikið; við ætluðum að vinna eins og við gætum en ætluðum að reyna að ná samkomulagi. Það er ekki auðveldur hlutur en það er hægt að sjálfsögðu. Þetta er ekkert annað en skipulag og auðvitað geta menn komist að samkomulagi um skipulag en þá verða menn líka að reyna það. Þess vegna segi ég að þegar menn eru að telja upp allar þessar 300 eða 400 ályktanir og alla þessa 50, 100 fundi, að það er búið að búa til andrúmsloft fyrir umræðu sem er svo bæld að opinská, lýðræðisleg, vitiborin umræða getur ekki farið fram. Og þess vegna er það rangt sem hæstv. félmrh. segir: ,,Það verður bara að hafa það.`` Hann segir: ,,Það verður bara að hafa það ef verkalýðshreyfingin er á móti mér.`` Nei, það verður ekkert bara að hafa það vegna þess að þessu er hægt að breyta. Það er hægt að taka þetta út af borðinu og setja þetta inn í annan farveg þar sem málin eru rædd af skynsemi og velvilja. Þar sem við reynum í sameiningu að ná samkomulagi um það fyrirkomulag sem best er og tryggir réttindi launafólks sem ég vona að við séum öll að reyna að gera. Að vísu leyfi ég mér að efast um góðan vilja Vinnuveitendasambandsins í því efni. Ég held að þeir ágætu menn séu nefnilega komnir út á afar hálan ís. Það þarf ekki annað en að lesa ályktanir þeirra sem hafa gengið út á það t.d. að nú kunni að vera kominn sá tími að fyrirtækin semji við einstaklinginn milliliðalaust án milligöngu verkalýðsfélagsins. Þeir álykta líka í byrjun árs um að nú sé kominn tími til að tryggja fyrirtækjum sams konar vinnulöggjöf og tíðkast á erlendri grundu. Það er ekki til þess að auka áhrif verkafólksins heldur þvert á móti til að draga úr þeim áhrifum. Hins vegar, og það er það sorglega við þetta allt saman, held ég að það hafi aldrei vakað fyrir hæstv. félmrh. Það held ég ekki. Ég held að þetta mál sé á góðri leið með að komast inn í mjög slæmt öngstræti sem þarf að komast út úr og ég held að það verði gert á þann veg einan að taka málið núna úr umferð, taka það upp úr þessum farvegi sem það er í núna og setja það inn í viðræðuferlið.

Hver er líkleg þróun á næstu árum? Ég segi þetta með tilliti til þess sem ég var að segja um vinnustaðarformið og stofnanasamninga eins og tíðkast hjá meginþorra opinberra starfsmanna. Það er ekkert einhlítt. Þar eru líka starfsgreinafélög. Í BHMR t.d. Að uppistöðu til er BHMR starfsgreinasamtök. Innan BSRB eru starfsgreinasamtök einnig. En þar er líka hið blandaða form. En hver er líkleg þróun í þessum efnum á komandi árum? Það var mat þessarar nefndar sem menn hafa vitnað til fyrst og fremst til að segja hversu marga fundi hún hefur setið, að framtíðin feli í sér að lög og reglur sem gilda um kjarasamninga í landinu komi til með að verða samræmdar þegar fram líða stundir. Ég er sannfærður um það sjálfur að það mun gilda um réttindamálin almennt líka. Þar verður um samræmingu að ræða. Það er enginn innan verkalýðshreyfingarinnar andvígur þeirri þróun. Menn hafa hins vegar verið að berjast í því að standa vaktina til að tryggja að sú samræming verði upp á við en ekki niður á við. Út á það hefur baráttan gengið fyrst og fremst. En ég er sannfærður um að þróunin á næstu árum verður í þá átt, hún er í þá átt núna og hefur verið, að réttindakerfin og vinnulöggjöfin muni verða samræmd. Þetta verður samræmt. Það á að samræma hana upp á við en ekki niður á við en þetta verður samræmt smám saman held ég. Ég spái því að þess sé skammt að bíða að menn taki lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna líka til endurskoðunar með það fyrir augum. Ég held það. Þá verðum við að skoða hvernig þessi lög koma til með að hafa áhrif á það fyrirkomulag sem þar er við lýði, t.d. með tilliti til stofnanafyrirkomulagsins. Sú umræða kostar og kallar á miklu ítarlegri umfjöllun og viðræður. Þetta er ein röksemdin í viðbót til að sýna fram á hversu vafasamt er að fara svona fram. Þó ég sé að lýsa þessum sjónarmiðum þá hef ég fyrst og fremst viljað varðveita rétt launafólks til að skipuleggja félagslega réttindabaráttu. Þess vegna hef ég viljað fara mjög varlega í sakirnar þegar þessi löggjöf er opnuð þannig að hún verði ekki opnuð á forsendum atvinnurekendavaldsins líka hvað þetta snertir. Þess vegna hefur okkur auðnast innan samtaka launafólks að ná mjög traustri samstöðu um þessi efni. Þó sjónarmið séu ólík um ýmis skipulagsform og áhersluþætti þá eru menn algerlega á einum báti hvað þetta snertir og tala einum rómi hvað þetta snertir.

Víkjum aðeins að atriðum sem fram komu í máli hæstv. félmrh. þegar hann ræddi þessi mál í upphafi 2. umr. Hann fjallaði þar m.a. um markmið með þessari lagabreytingu. Hann talaði þar um valkosti sem menn hefðu í þessum efnum. Menn stæðu frammi fyrir tveimur valkostum. Annars vegar væri sá kostur að knýja fram lög á þennan hátt. Hinn valkosturinn væri bráðabirgðalög, og spurðu menn hvernig það gæti komið heim og saman við yfirlýsingar sama hæstv. ráðherra um að nú væri kominn tími til að hækka kaupið hjá almennu taxtavinnufólki? Þær eru til umhugsunar þessar yfirlýsingar hæstv. félmrh. frá fyrri umræðu um þessi mál. Hæstv. félmrh. sagði líka annað. Hann sagðist vilja draga úr kjaramisrétti og launamun. Ég efast ekkert um að hann vilji gera það. En ég efast um að hann sé að beita réttu ráðunum til að ná fram þessum markmiðum. Og ég geri meira en að efast um það. Ég fullyrði að þær aðferðir sem ríkisstjórnin er núna að beita í umsköpun réttindakerfisins og samningakerfis hjá hinu opinbera og síðan með þessum lögum. Ég fullyrði að þetta verði til að auka þennan launamun.

[16:00]

Hæstv. fjmrh. hefur talað í sömu veru og haft uppi sömu röksemdir. Hann er að knýja fram í gegnum þingið lög sem heimila forstjóra ríkisfyrirtækis að greiða starfsmönnum að eigin geðþótta. Núna getur útvarpsstjóri þess vegna, eða framkvæmdastjórar útvarps og sjónvarps svo dæmi sé tekið, ákveðið upp á sitt eindæmi eftir 1. júlí að greiða tilteknum starfsmönnum eigum við að segja 50--70 þús. kr. hærri laun en hinum? Hvers vegna? Vegna þess að þeim finnst þeir betri. Og þegar skattgreiðandinn spyr: Já, en ertu ekki að mismuna fólki? Þá svara þeir: Nei. Ríkisstjórn Páls Péturssonar og Friðriks Sophussonar hefur sett í lög ákvæði sem skyldar mig til að gera þetta. En hæstv. fjmrh. segist ætla að koma í veg fyrir alla mismunun sem kunni að hljótast af þessu með því að setja reglur. Hann ætlar að setja reglur. Við höfum aldrei fengið að sjá þær reglur og vitum að þær koma ekki og verða ekki afgerandi einfaldlega vegna þess að leikurinn er til þess gerður að láta markaðslögmálin leika frjáls um launakerfið. En hafa menn leitt hugann að því að þessar reglur sem hæstv. fjmrh. ætlar að setja hafa gengið undir öðru vinnuheiti fram til þessa. Hvað skyldi það vinnuheiti hafa verið? Samningar. Það eru kjarasamningar. Það er verið að afnema kjarasamninga. Það á að setja kjarasamninga eins og hverjar aðrar reglur. Það er með slíkum ólíkindum að ein ríkisstjórn skuli láta sér koma til hugar á Íslandi árið 1996 að ganga svo langt aftur í tímann í átt til forstjóraveldis og mismununar eins og þessi lagasetning ber vott um. Það er með ólíkindum. Trúir hæstv. félmrh. því virkilega að þessar breytingar komi til með að draga úr launamun? En ég ætla heldur ekki að snúa út úr fyrir hæstv. félmrh. vegna þess að hann átti ekki við lögin um réttindi og skyldur þegar hann vék að þessu, heldur þann lagabálk sem hann er ábyrgur fyrir.

Ég held að það sem hefur vakað fyrir hæstv. félmrh. sé að finna leið til að hemja hinn óstýriláta hátekjuhóp, keyra hann á einhvern hátt inn í eitthvert lögþvingað samflot. Það held ég að hafi verið hugsunin. Þannig að hinn óstýriláti hátekjuhópur komi ekki á eftir láglaunamönnum og taki meira til sín. En nú er tvennt að gerast. Bæði er þessi tengingaregla úr sögunni og einnig á hitt að líta að lögþvingun af þessu tagi til að tryggja kjarajöfnuð í þjóðfélaginu gengur að mínum dómi ekki upp. Við þekkjum öll dæmi þess úr sögunni fyrr og síðar að mikilvægir lykilhópar fá illilega í magann eða veikjast á sama tíma. Mér finnst það ekki sniðug aðferð til kjarabaráttu, alls ekki. En þetta segir okkur eitt. Þetta segir okkur að það verður að vera sátt um þær reglur sem við setjum. Menn verða að ganga til leiks og til viðræðna af fúsum og frjálsum vilja. Annars leita menn annarra leiða. Það hefur sýnt sig t.d. að mjög ströng löggjöf sem hefur verið við lýði hjá opinberum starfsmönnum varðandi boðun verkfalla, mjög ströng ósveigjanleg löggjöf, hefur leitt til þess að hópar hafa farið aðrar leiðir, uppsangir og þar fram eftir götunum. Þess vegna skiptir öllu máli hvernig staðið er að þessari reglusmíði.

Hv. þm. Einar Guðfinnsson, í annars ágætri og málefnalegri ræðu sem ég var þó mjög ósammála, vék að því að félmn. hefði fengið prófessora og óvilhalla menn til að koma að málum, til að skoða þessi mál. En ég vil fullyrða að þetta snýst fyrst og fremst um gildismat, um afstöðu, um vilja, um samkomulag, um lýðræði. Það er alveg sama hversu margir fundir eru haldnir, hvort sem það er í undirbúningsnefnd undir áfangaskýrslu eða í félmn. Ef vilji er ekki fyrir hendi hjá þeim aðilum sem lögin eiga að taka til að sætta sig við þau sem samskiptareglur á vinnumarkaði, eru þau harla lítils virði. Staðreyndin er sú að við höfum um nokkurt skeið í íslensku þjóðfélagi haft, mér liggur við að segja, óskráðan sáttmála um þessi samskipti á vinnumarkaði. Sáttmála sem byggir á því að viðurkenna samkeppnisþjóðfélag þar sem menn standa ekki jafnir að vígi. Annars vegar erum við með eigendur fyrirtækja og fjármagns og hins vegar launamenn sem hafa reynt að vega upp þetta ójafnvægi sem þeirra eignastaða hefur í för með sér með því að mynda með sér samtök. Hinn óskráði sáttmáli byggist á því að þarna ríki gagnkvæm virðing á milli, styrkleikahlutföllum sé ekki raskað, að það sé jafnræði með mönnum. Og það sem er að gerast með þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar er að það er verið að rifta þessum sáttmála, segja honum upp. Þess vegna er ömurlegt þegar talsmenn ríkisstjórnarinnar koma fram og spyrja: Já, en erum við ekki búnir að breyta svo miklu? Skilja mennirnir ekki að þessi umræða hefur ekki farið fram? Það er búið að búa til andrúm bældrar ómálefnalegrar umræðu. Það er mergurinn málsins, alveg sama hvað menn fá marga lagaprófessora til að líta yfir plaggið. Alveg sama hvað þeir koma oft til fundar og alveg sama hvað þessi áfanganefnd sagði. Það sem máli skiptir er þetta: Verkalýðshreyfingin, hvert einasta verkalýðsfélag í landinu, öll samtök launafólks, nú síðast þing Alþýðusambands Íslands, er að óska eftir því við ríkisstjórnina að fram fari viðræður og umræður um þetta mál. Ekki bæld, ómálefnaleg og einhliða umræða eins og hér er boðið upp á, heldur alvöruviðræður. Að ríkisstjórnin virði þann sáttmála, þann óskráða samskiptasáttmála sem hefur verið við lýði í landinu í langan tíma og nú er verið að rifta. Það er mergurinn málsins. Þetta snýst ekki bara um það hvort þröskuldarnir eru 10 sm hærri eða lægri. Að sjálfsögðu skiptir það máli, en það er ekki mergurinn málsins. Ég hef t.d. verið að benda á atriði í löggjöf um réttindi og skyldur sem er mjög brýnt að taka á og skoða. En þau fá enga málefnalega umfjöllun vegna þess að ríkisstjórnin hefur kosið að keyra þetta inn í öngstræti.

Síðan hlýtur maður að spyrja sig þeirrar spurningar hvað það er sem raunverulega vakir fyrir ríkisstjórninni með því að fá þetta fram. Getur það verið að menn komist ekki frá þessu máli? Að menn telji sig vera búna að keyra það inn í þann farveg sem þeir ná því ekki upp úr? Ég verð að segja fyrir mitt leyti að menn eru menn að meiri ef þeir breyta um skoðun og ef þeir hlusta á almannavilja. Mér finnst það styrkleikamerki að geta tekið rökum og farið að óskum verkalýðssamtakanna þegar þær eru allar svo eindregið á einn veg. Þess vegna spyr maður sjálfan sig og við hljótum að óska eftir svari við þeirri spurningu: Hvað er það nákvæmlega sem knýr á um það að þessi lög verði samþykkt núna? Hvað er það nákvæmlega? Telja menn sig vera að tryggja markvissari kjarasamninga núna í haust? Það held ég að engum heilvita manni geti dottið í hug. Það er augljóst að það er verið að skapa hér upplausnarástand. Telja menn sig vera að koma í veg fyrir verkföll með þessu móti? Það getur varla verið að nokkur maður láti sér koma til hugar að svo geti verið. Og þegar öllu er á botninn hvolft, hvar er það sem verkföll hafa orðið núna á liðnum árum? Hvar skyldi það vera? Skyldi það hafa verið hjá hundraðmannafélaginu hans Einars Guðfinnssonar, hv. þm., þar sem hann vildi tryggja lýðræðið?

Tíðust hafa verkföllin verið á liðnum árum hjá hinu opinbera. Það hafa verið sjómannaverkföll, öflug og kraftmikil sjómannaverkföll. Ég veit ekki hvort menn telja að þeir geti með þessum lögum dregið tennurnar úr sjómönnum, þ.e. með því að gera þeim erfiðara að taka ákvarðanir um verkföll. Tíðust hafa verkföllin verið í opinbera geiranum þar sem reglur hafa verið mjög stífar og strangar. Þess vegna hljótum við núna að bíða þess í ofvæni að heyra röksemdir ríkisstjórnarinnar. Röksemdirnar hafa verið á þá lund að það eigi að draga úr launamun með þessum lögum. Ég er búinn að færa rök fyrir því að þær breytingar sem verið er að gera eru líklega til að auka launamun. Það er talað um að það eigi að gera vinnubrögðin við kjarasamningana markvissari. Öll rök ganga í gagnstæða átt. Þessi vinnubrögð leiða til ómarkvissari kjarasamninga, það verður erfiðara að ganga til kjarasamninga eftir að þessi lög hafa öðlast gildi í andstöðu við launafólk.

[16:15]

Hvað er það sem knýr hæstv. félmrh. til þess að keyra þessa lagasetningu í gegnum þingið? Við þurfum að fá að heyra þau rök því að það er hæstv. félmrh. og það er ríkisstjórnin sem er að breyta lögunum. Og sönnunarbyrðin hlýtur að sjálfsögðu að hvíla á ríkisstjórninni, þeim aðila sem vill breyta lögunum. Ég lýsi því enn og aftur yfir að öllum þessum lagabálkum þarf að breyta. Það hefur enginn, ekki nokkur einasti maður andæft því. Enginn. Um það er mjög víðtæk sátt og víðtæk skoðun í hreyfingu launafólks að þetta séu lög sem þurfi að taka á og breyta. En ekki með þessum hætti. Við þurfum því að heyra röksemdir hæstv. félmrh. sem hefur sýnt þinginu þá virðingu að vilja ræða þessi mál, eins og augljóst er að honum ber að gera, en verkalýðshreyfingunni þá vanvirðu að virða hennar sjónarmið að vettugi. Og þegar fulltrúar á alþýðusambandsþingi koma og afhenda ríkisstjórninni ályktun sem gengur í þá átt að þessi lög verði tekin út af borðinu er svarið: Ég vildi að ég væri með ykkur. Ef ekki, verður bara að hafa það.

Telur hæstv. félmrh. að hann sé að stuðla að markvissari vinnubrögðum við næstu kjarasamninga með yfirlýsingum af þessu tagi? Telja menn að það sé til að bæta andrúmsloft á vinnumarkaði almennt að ganga fram með þessum hætti? Ég hefði haldið ekki. En nú bíðum við þess að heyra röksemdir hæstv. félmrh. vegna þess að mér er kunnugt um að hann hefur beðið um orðið í andsvari.